[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sagt var frá því um helgina að Manchester City hafi rætt við kamerúnska landsliðsmanninn Samuel Eto'o , en sá er á mála hjá Barcelona .

Sagt var frá því um helgina að Manchester City hafi rætt við kamerúnska landsliðsmanninn Samuel Eto'o , en sá er á mála hjá Barcelona . Samkvæmt erlendum fjölmiðlum er talið að City sé tilbúið að greiða Barcelona um 30 milljónir evra fyrir kappann sem á eitt ár eftir af samningi sínum við Börsunga.

Joan Laporta , forseti Barcelona , staðfesti um helgina að hinn brasilíski Keirrison sé væntanlega á leið til félagsins frá Palmeiras þar sem hann hefur verið í hálft ár. Kerrison er tvítugur framherji og er ekki talið ólíklegt að Börsungar láni hann eða selji áfram til að geta krækt í leikreyndari og þekktari leikmenn.

Aktobe frá Kasakstan, mótherjar FH í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu, eru á mikilli siglingu um þessar mundir. Þeir sigruðu Kazakhmys , 4:0, í gær, hafa unnið síðustu fjóra leiki sína og eru með fjögurra stiga forskot í efstu deild að loknum 13 umferðum af 26. Sergei Strukov skoraði þrennu fyrir Aktobe í gær og FH-ingar þurfa greinilega að hafa gát á þeim pilti í leikjunum tveimur. Félögin mætast í 1. umferðinni um miðjan júlímánuð, fyrst í Kaplakrika og síðan í borginni Aktobe .

Fjórtán ára íslenskur körfuboltapiltur, Þorri Arnarsson , var fyrir skemmstu valinn í fimmtán manna úrvalshóp jafnaldra sinna á Skáni í Svíþjóð . Þorri, sem er Valsari, hefur búið í Lundi í Svíþjóð síðustu tvö árin, og hefur æft körfuknattleik af kappi.

Svíinn Sven-Göran Eriksson segist mjög spenntur fyrir því að taka við sem knattspyrnustjóri hjá einhverju liði á Englandi á nýjan leik. Hann var síðast stjóri hjá Manchester City áður en hann tók við landsliði Mexíkó í nokkurn tíma. Eriksson hefur verið orðaður við Portsmouth en segir að þó hann hafi áhuga á að þjálfa í Englandi sé ekkert komið á hreint hvort af því verði – og því síður hvar.

Fernando Torres, leikmaður Liverpool , segist hafa rætt við Rafael Benítéz , stjóra sinn, um að hann reyni að kaupa þremenningana hjá Valencia, David Villa, David Silva og Juan Mata . Helst vill hann fá þá alla en vill að Liverpool reyni að krækja í einhvern þeirra að minnsta kosti, en Valencia er í miklum fjárhagskröggum og talið líklegt að félagið selji flestar sínar stjörnur.

Sam Allardyce , knattspyrnustjóri Blackburn Rovers , hefur látið hafa eftir sér að hann hafi mikinn hug á að fá Ruud van Nistelrooy , hollenska markahrókinn hjá Real Madrid , í sínar raðir. Allardyce þótti klókur að krækja í stjörnur sem taldar voru útbrunnar þegar hann stýrði liði Bolton á sínum tíma, og náði að framlengja feril þeirra vonum framar. Nú er það Hollendingurinn sem lék áður með Manchester United sem er í sigtinu hjá Stóra Sam.