Þjálfarinn Æfir unga sem aldna. „Þetta er svo gaman,“ segir hann.
Þjálfarinn Æfir unga sem aldna. „Þetta er svo gaman,“ segir hann. — Morgunblaðið/Jakob Fannar
Eftir Sigrúnu Ernu Geirsdóttur sigrunerna@mbl.is HAFNFIRÐINGURINN Kristján Ómar Björnsson dúxaði á dögunum í einkaþjálfaranámi Keilis og kom það kannski ekki á óvart miðað við feril hans hingað til.

Eftir Sigrúnu Ernu Geirsdóttur

sigrunerna@mbl.is

HAFNFIRÐINGURINN Kristján Ómar Björnsson dúxaði á dögunum í einkaþjálfaranámi Keilis og kom það kannski ekki á óvart miðað við feril hans hingað til. Hann lauk meistaranámi í tónlistarfræðum við háskólann í Gautaborg en venti síðan kvæði sínu í kross og tók að sér knattspyrnuþjálfun hjá Haukum. Kristján Ómar leggur mikla rækt við líkama og sál og hefur stofnað fyrirtækið Mannsrækt til að geta miðlað þeim boðskap til annarra.

Eftir fimm ára nám í tónlistarfræðunum fór Kristján Ómar til Berlínar til að læra þýsku og reyna um leið fyrir sér í tónlistarbransanum. Þar var þó heldur á brattann að sækja en þá höfðu Haukarnir samband og buðu honum þjálfarastarf og að auki hálft starf við framkvæmdastjórn knattspyrnudeildar.

Hafnaði draumastarfi

Kristján Ómar sló til og þótt honum byðist síðar draumastarf í tónlistargeiranum ákvað hann að halda áfram sem knattspyrnuþjálfari. Tónlistin togar þó alltaf í hann.

„Maður er alltaf að grúska eitthvað í tónlist á einhvern hátt ... Það er helst að ég vildi hafa meiri tíma til að semja og skapa tónlist.“

Kristján Ómar er bindindismaður, hann hefur ekki lagt sér kjöt til munns í áratug og hann er hættur að neyta mjólkurafurða. Á námskeiðinu hjá Keili segist hann oft hafa hlegið með sjálfum sér vegna þess að honum þótti námið svo skemmtilegt. Þannig virðist það vera með flest sem hann tekur sér fyrir hendur. | 13

Í hnotskurn
» Kristján Ómar er knattspyrnuþjálfari hjá Haukum en sjálfur leikur hann með Þrótti í úrvalsdeild karla.
» Fyrirtækið hans, Mannsrækt, mun veita ráð á sviði lífsstíls-, hugar- og líkamsþjálfunar.