,,ÉG er nýbúinn að gera svo fínt í bílskúrnum að mig dreymir um að fá borðtennisborð í afmælisgjöf,“ segir Viggó. ,,Ef konan gefur mér það ekki getur verið að ég kaupi það bara sjálfur. Annars er konan mjög nösk á að finna eitthvað fallegt.
,,ÉG er nýbúinn að gera svo fínt í bílskúrnum að mig dreymir um að fá borðtennisborð í afmælisgjöf,“ segir Viggó. ,,Ef konan gefur mér það ekki getur verið að ég kaupi það bara sjálfur. Annars er konan mjög nösk á að finna eitthvað fallegt.“ Viggó segist ekki vera erfiður hvað gjafir snerti. Honum þykir fátt skemmtilegra en að renna fyrir lax á sumrin og kæmu gjafir tengdar laxveiði sér alltaf vel. Inntur eftir því hvernig draumaafmælisdagurinn væri svarar Viggó: „Hann myndi byrja á því að ég svæfi vel út! Síðan fengi ég ekta breskan morgunmat í rúmið. Á eftir kæmi nudd, heitur pottur og dekur.“ Síðan myndi Viggó vilja njóta samvistanna með fjölskyldunni, en hann er kvæntur Jarþrúði Ásmundsdóttur og með henni á hann tvö börn, Gunndóru, sem er eins árs og Ásmund, sem er fimm ára. Deginum myndi svo ljúka með því að fara út að borða með konunni um kvöldið. Þegar talað var við Viggó um helgina var hann staddur í Þykkvabæ í brakandi blíðu. Þar var hann í útilegu með fjölskyldunni ásamt stórum hópi fólks. ,,Ef veðrið helst svona gott eyði ég líklega afmælisdeginum hérna líka. Þá grillum við eitthvað gott um kvöldið, nautasteik eða lambalæri.“ sigrunerna@mbl.is