Í SL. viku var tilkynnt að forsætisráðherra hafi skipað nýtt Vísinda- og tækniráð til næstu þriggja ára. Vísinda- og tækniráð hefur það hlutverk skv.

Í SL. viku var tilkynnt að forsætisráðherra hafi skipað nýtt Vísinda- og tækniráð til næstu þriggja ára. Vísinda- og tækniráð hefur það hlutverk skv. lögum að „efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í landinu í því skyni að treysta stoðir íslenskrar menningar og auka samkeppnishæfni atvinnulífsins. Ráðið markar stefnu stjórnvalda í vísinda- og tæknimálum til þriggja ára í senn.“ Þetta er stórt og mikilvægt hlutverk, sérstaklega nú þegar horfa þarf til framtíðar og endurskipuleggja á allt vísinda-, tækni -og menntunarstarf landsins þannig að það skili árangri til framtíðar. Því skyldi ætla að ríkisstjórnin myndi skipa í ráðið þungavigtarfólk úr íslensku vísinda- og tæknistarfi, fólk með alþjóðlega reynslu af vísindastörfum eða farsælan feril í stjórnun vísindamála. Þótt sumir af þeim sem nú hafa verið skipaðir í ráðið hafi góða vísinda- eða nýsköpunarreynslu er hins vegar ljóst að þekking margra ráðsliða er lítil og jafnvel engin. Hér er auðvitað ekki við viðkomandi einstaklinga að sakast; þeir eru sjálfsagt hið vandaðasta fólk sem skorast ekki undan þegar ráðherra kallar það til verka. Metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar vekur hins vegar undrun okkar og jafnframt spurningar um áhuga og skilning stjórnvalda á málaflokknum.

Þegar Vísinda- og tækniráði var komið á fót á Íslandi var notast við fyrirmyndir frá Finnlandi. Það er því áhugavert að skoða hvernig sambærilegt ráð er skipað þar í landi. Fyrir utan þá ráðherra sem sitja í ráðinu (líkt og hér á landi) er ráðið skipað forstjóra Nokia, forstjóra VTT, sem er mikilvægt tækniþróunarfyrirtæki, framkvæmdastjóra European Science Foundation, forseta finnsku Akademíunnar, forstjóra Finnzymes, en það er eitt stærsta og öflugasta líftæknifyrirtæki Finna, framkvæmdastjóra frá SEK (launþegasamtökum), aðalritara TEKES (hliðstæðu tækniþróunarsjóðs), rektor Central Ostrobothnia University of Applied Sciences, prófessor frá Háskólanum í Helsinki og rektor Háskólans í Turku. Nefndin hefur auk þess 5 fasta sérfræðinga til ráðgjafar og eru þeir flestir starfsmenn ráðuneyta.

Finnar fara þá leið að skipa sitt Vísinda- og tækniráð leiðandi aðilum úr akademíunni og einkageiranum en ríkisstjórn Íslands ekki. Við sjáum ekki hvernig reynslulitlir einstaklingar eiga að geta markað stefnu til framtíðar hvað þennan málaflokk varðar. Við Íslendingar eigum ýmislegt ólært í vísinda- og tæknimálum. Eitt það mikilvægasta sem hér þarf að læra er að notast við hæfasta fólkið til starfa sem þessara. Ef ekki er nóg af slíku fólki á Íslandi er vel hægt að leita til Íslendinga sem starfa að vísindamálum erlendis eða jafnvel til erlendra aðila sem eru leiðandi í vísinda- og tæknimálum á alþjóðavísu.

Niðurstaða okkar er að ríkisstjórn Íslands skynji engan veginn alvöru þessa málaflokks né hlutverk Vísinda- og tækniráðs. Það er miður.

Eiríkur Steingrímsson, prófessor, HÍ Einar Steingrímsson, prófessor, HR Þórarinn Guðjónsson, dósent, HÍ Pétur Henrý Petersen, sérfræðingur, HÍ Karl Ægir Karlsson, lektor, HR Anna Ingólfsdóttir, prófessor, HR Sveinn Arnórsson, framkvæmdastjóri Cowbell ehf. Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor, HÍ Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor, HR Sigurður Brynjólfsson, prófessor, HÍ.