Ráðherra Beatrice Ask, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, segir að Svíar vilji fá fleiri Norðurlandaþjóðir inn í ESB.
Ráðherra Beatrice Ask, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, segir að Svíar vilji fá fleiri Norðurlandaþjóðir inn í ESB. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Halldór Armand Ásgeirsson haa@mbl.is „SVÍAR eru jákvæðir gagnvart umsókn að Evrópusambandinu frá Íslandi.

Eftir Halldór Armand Ásgeirsson

haa@mbl.is

„SVÍAR eru jákvæðir gagnvart umsókn að Evrópusambandinu frá Íslandi. Ef Íslendingar vilja að Svíar aðstoði í umsóknarferlinu og komi að því að Ísland verði umsóknarríki þá tel ég að umsókn þurfi að berast fljótlega; fyrir fund ráðherraráðsins í lok júlí næstkomandi,“ segir Beatrice Ask, dómsmálaráðherra Svíþjóðar.

Svíar taka við forsæti í Evrópusambandinu hinn 1. júlí næstkomandi. Ask segir að Svíar gætu hugsanlega aðstoðað Íslendinga verði ákveðið að leggja fram umsókn um aðild að sambandinu en hún tók þó ekki fram með hvaða hætti Svíar gætu hugsanlega aðstoðað Íslendinga í umsóknarferlinu ef til þess kæmi.

Svíþjóð tekur við forsæti í Evrópusambandinu 1. júlí næstkomandi og mun gegna því hlutverki næstu sex mánuði á eftir.

Gæti styrkt samstarf þjóðanna

„Afstaða Svía er alveg ljós, við viljum sjá fleiri Norðurlandaþjóðir í Evrópusambandinu og stuðningur Norðurlandanna getur reynst Íslandi mikilvægur. Við vinnum þegar mikilvægt starf saman utan Evrópusambandsins. Dómsmálaráðherrar Norðurlandanna eru einmitt að funda hér þessa dagana. Það gæti jafnframt styrkt samstarf okkar á norrænum grunni ef fleiri Norðurlandaþjóðir yrðu aðilar að Evrópusambandinu. Stóra spurningin fyrir Ísland er hins vegar auðvitað hvað það græðir á sambandsaðild og hvers vegna það ætti að gerast meðlimur í þessum klúbbi. Því geta Íslendingar einir svarað.“

Skilur reiði almennings

Hér á landi hafa margir gagnrýnt hversu litla aðstoð Íslendingar fengu frá Evrópusambandinu og öðrum Norðurlandaþjóðum í Icesave-deilunni. Ask segir að sænska ríkisstjórnin hafi sýnt vandræðum Íslendinga mikinn áhuga.

„Evrópusambandið hefur auðvitað fleiri en eitt ríki í miklum vandræðum. Alþjóðlega fjármálakreppan hefur þróast þannig að það berast fregnir af nýjum atburðum nánast daglega og það leiðir til þess að flestir stjórnmálamenn hafa verið mjög varkárir,“ segir Ask.

„Ég skil vel reiði almennings á Íslandi vegna Icesave-deilunnar og við í sænsku ríkisstjórninni höfum talað mikið um málefni Íslands. Fjármálaráðherra okkar hefur skoðað ýmsar leiðir til að hjálpa Íslandi og við gerum okkar besta í þessum málum. Þetta er mjög slæm og erfið staða.“

Aðspurð segist Ask ekki geta svarað því hversu langur tími gæti liðið þar til Ísland yrði aðili að Evrópusambandinu ef lögð yrði inn umsókn á næstunni.

„Það getur farið eftir hvers konar umsókn þið leggið inn. Því færri vandamál sem henni fylgja, því hraðar gæti umsóknarferlið gengið fyrir sig. Það hafa jafnframt fleiri þættir áhrif, t.d. er ákveðin óvissa varðandi Lissabon-sáttmálann og svo er nú verið að endurnýja Evrópuþingið. En því fyrr sem Íslendingar sækja um því betra.“

Ask segir afar mikilvægt að ef til aðildarviðræðna kæmi þyrftu Íslendingar að rækta vel pólitísk tengsl við önnur aðildarríki.

„Ég hef sagt mörgum íslenskum þingmönnum að það sé mikilvægt fyrir Íslendinga að vera í sambandi við önnur aðildarríki og ræða við þau um spurningarnar sem þarf að svara um aðildina og sýna þeim áhuga. Pólitískur stuðningur er einkar mikilvægur í aðildarviðræðum.“

Hér á landi fer nú fram fundur allra norrænu dómsmálaráðherranna og er Beatrice Ask stödd hér á landi af því tilefni.

Fjármálakreppan og loftslagsmál í forgrunni

Svíar verða í forsæti í Evrópusambandinu frá og með 1. júlí næstkomandi í sex mánuði. Aðspurð hverjar áherslur Svía verða sagði Beatrice Ask:

„Fjármálakreppan í Evrópu og í raun í heiminum öllum er auðvitað forgangsatriði hjá okkur. Það þarf að taka ýmsar mikilvægar ákvarðanir í þeim efnum. Þá teljum við einnig mjög mikilvægt að sporna eins og hægt er við loftslagsbreytingum og við vonumst eftir alþjóðlegri samstöðu í þeim efnum á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn í ár.

Í þriðja lagi er mikilvægt að auka samstarf á sviði dómsmála.“

Unnið að því að sameina tvær tillögur í eina

„Við erum búin að vera með þessar tvær tillögur í mánuð og vinnan hefur gengið út á að sameina þær í eina. Það starf hefur gengið ágætlega en ég get ekki sagt alveg til um hvenær það klárast. Ég reikna með að við fundum daglega í þessari viku,“ segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Tvær tillögur um aðildarumsókn að Evrópusambandinu eru nú til meðferðar í utanríkismálanefnd Alþingis.

Árni Þór og tveir aðrir fulltrúar úr utanríkismálanefnd áttu fund með Beatrice Ask, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, í gær

„Hún var með stóran fund þar sem hún gerði grein fyrir áherslum Svía í formennskutíð þeirra sem hefst núna 1. júlí. Við úr utanríkismálanefnd hittum hana stuttlega fyrir fundinn þar sem við ræddum ýmislegt við hana, meðal annars Evrópumálin.“