Veiddur Sigurjón Árnason kom frá Búnaðarbankanum og var kynntur sem bankastjóri hinn 23. apríl 2003. Hann kom þó ekki að lánum til Samsonar.
Veiddur Sigurjón Árnason kom frá Búnaðarbankanum og var kynntur sem bankastjóri hinn 23. apríl 2003. Hann kom þó ekki að lánum til Samsonar. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tæplega þriðjungur af kaupverði Samsonar á kjölfestuhlut í Landsbankanum var fjármagnaður með láni frá Búnaðarbanka.
Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

HALLDÓR J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, átti frumkvæði að því í mars 2003 að óska eftir lánveitingu hjá Búnaðarbankanum fyrir láni til Samsonar, eignarhaldsfélags Björgólfsfeðga og Magnúsar Þorsteinssonar, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Eins og fram hefur komið nam lánið 3,4 milljörðum króna og var notað til að greiða 30% af kaupverðinu þegar Landsbankinn var einkavæddur. Lánið stendur nú í 6 milljörðum króna með dráttarvöxtum og er hjá Nýja Kaupþingi.

Segist ekki hafa átt frumkvæði

Halldór J. Kristjánsson sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær ekki hafa átt frumkvæði að láninu. Hann útilokaði þó ekki aðkomu sína að umræddri lánveitingu. „Ég get ekki fjallað um þetta vegna bankaleyndar, en ég hafði vitneskju um umrætt lán. Mín aðkoma að þessu var ekki óeðlileg,“ sagði Halldór.

Lánið til Samsonar var formlega afgreitt hinn 25. apríl 2003 en í nokkrar vikur þar á undan hafði verið unnið að lánasamningnum. Elín Sigfúsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Búnaðarbankans, undirbjó lánveitinguna, en hún var sem kunnugt er einn fjölmargra starfsmanna Búnaðarbankans sem ráðnir voru yfir til Landsbankans í apríl 2003. Endanleg ákvörðun um að heimila lánveitinguna tók síðan Sólon Sigurðsson, þáverandi bankastjóri Búnaðarbankans.

Sigurjón Þ. Árnason, þáverandi framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Búnaðarbankans, var meðal þeirra sem ráðnir voru yfir Landsbankans og var tilkynnt til Kauphallarinnar um ráðningu hans í stöðu bankastjóra við hlið Halldórs hinn 23. apríl 2003, tveimur dögum áður en gengið var frá lánveitingu til Samsonar. Sigurjón kom þó ekki að lánveitingum til félagsins meðan hann var starfsmaður Búnaðarbankans, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Bað um sömu kjör og Egla fékk

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins óskaði Halldór eftir sömu lánskjörum fyrir Samson og Egla, eignarhaldsfélag Ólafs Ólafssonar, fékk hjá Landsbankanum fyrir kaupum á Búnaðarbankanum. Hinn 31. janúar 2003 gaf Landsbankinn, sem þá var enn undir stjórn ríkisins, út lánsloforð þar sem bankinn hét því að lána Eglu fyrir 35% af kaupverðinu á Búnaðarbankanum, eins og fram kom í úttekt Morgunblaðsins á einkavæðingu bankanna í mars, en úttektin var byggð á gögnum einkavæðingarnefndar.

Búnaðarbankinn varð ekki við þeirri beiðni að lána Samson á sömu vaxtakjörum og Egla fékk lán á hjá Landsbankanum. Að sögn Halldórs voru lán sem Landsbankinn veitti Eglu á sömu kjörum og aðrir góðir viðskiptamenn bankans fengu.

Bankaráð vissi ekkert um Samson-lán

Hjörleifur Jakobsson, forstjóri Kjalars, var formaður bankaráðs Búnaðarbankans þegar lánið til Samsonar var veitt. Hjörleifur segist enga vitneskju hafa haft um lánveitinguna. „Mál þetta var ekki borið sérstaklega undir mig eða stjórn bankans enda er verkefni stjórnar að móta rammann um útlánastefnu bankans en ekki taka þátt í afgreiðslu lána til einstakra aðila,“ segir Hjörleifur.

Magnús Gunnarsson, sem var formaður bankaráðs Búnaðarbankans á undan Hjörleifi, sagði í yfirlýsingu hinn 14. júlí sl. að lánið hefði verið veitt í apríl. Hann hafði enga vitneskju um lánið. Fyrir liggur því að hvorki Magnús né Hjörleifur, sem fyrrverandi formenn Bankaráðs, vissu um umrædda lánveitingu.