Hamid Karzai
Hamid Karzai
FYRSTU tölur úr forsetakosningunum í Afganistan voru birtar í gær og samkvæmt þeim hafði Hamid Karzai forseti aðeins vinninginn á helsta keppinaut sinn, Abdulla Abdullah, fyrrverandi utanríkisráðherra.

FYRSTU tölur úr forsetakosningunum í Afganistan voru birtar í gær og samkvæmt þeim hafði Hamid Karzai forseti aðeins vinninginn á helsta keppinaut sinn, Abdulla Abdullah, fyrrverandi utanríkisráðherra. Stuðningsmenn hans saka Karzai um víðtækt kosningasvindl og hóta að grípa til vopna verði hann endurkjörinn í skjóli þess.

Að sögn yfirkjörstjórnar hafði Karzai fengið 212.000 atkvæði, 40,6%, en Abdullah 202.000, 38,7%, er 10% atkvæða höfðu verið talin. Fylgdi það sögunni, að aðeins væri búið að telja 2% atkæða í Kandahar-héraði og engin í Helmand-héraði en Karzai hefur mikinn stuðning í þeim báðum. Verður greint frá talningunni eftir því sem henni miðar fram en ekki er búist við lokatölum fyrr en eftir tvær vikur.

Abdullah hefur sakað Karzai um gróft kosningasvindl og alþjóðlegir eftirlitsmenn, sem sögðu í fyrstu, að kosningarnar hefðu farið vel fram, viðurkenna nú, að mikill og alvarlegur misbrestur hafi verið á þeim víða.

Hóta að grípa til vopna

Nokkrir stuðningsmenn Abdullah sögðu í gær, að yrði Karzai endurkjörinn með svikum, mætti búast við, að þeir gripu til vopna.

Svo virðist sem óánægja Bandaríkjamanna með Karzai fari vaxandi. Átti Richard Holbrooke, sendimaður Baracks Obama Bandaríkjaforseta, kuldalegan, hálftímalangan fund með Karzai. Lýsti Holbrooke óánægju sinni með það kosningasamkomulag, sem Karzai gerði við ýmsa stríðsherra, sem sumir hafa verið sakaðir um stríðsglæpi. Holbrooke átti hins vegar þriggja tíma fund með Abdullah. svs@mbl.is

Í hnotskurn
» Nærri 16 milljónir manna voru á kjörskrá í forsetakosningunum 20. ágúst, þar af 38% konur.
» Talið er, að kjörsókn hafi verið dræm, líklega á bilinu 40 til 50% og minnst á landsbyggðinni.