Ánægja á alla kanta Það kennir vissulega margra grasa á alþjóðlegri bílasýningu eins og þeirri sem nú er að ljúka í Genf og haldin er árlega.

Ánægja á alla kanta Það kennir vissulega margra grasa á alþjóðlegri bílasýningu eins og þeirri sem nú er að ljúka í Genf og haldin er árlega. Þeir 85 fólksbílaframleiðendur sem sýndu framleiðslu sína hafa ekki allir haft fyrir því að senda vörur sínar á íslenskan markað enda ekki svo stór en fyrir utan fólksbílana voru þarna rútur frá 12 framleiðendum, breyttir og endurhannaðir bílar frá 19 aðilum, 977 fyrirtæki sýndu ýmsa fylgihluti, 59 aðilar breiddu úr kotum sínum og bókum sem viðkom bílum og 19 rafbílaframleiðendur sýndu sína vöru.

Segja má þó að færri nýjungar hafi verið opinberaðar í Genf nú en í fyrra, að minnsta kosti af þeim sem hingað koma. Nýr Subaru Legacy, nýr Opel Omega, Mercedes Benz E 200 blæjubíll og A línan sem hefja á framleiðslu á árið 1997 og Audi A8 eru merki sem koma í fljótheitum í hugann og síðan gat að líta ótölulegan fjölda framtíðarbíla sem verksmiðjurnar tefla gjarnan fram á þessum sýningum svo að gestir geri sér grein fyrir að stöðug þróun er í gangi og sífellt verið að leita að hinum fullkomna bíl. Við greinum frá ýmsu sem fyrir augu bar í næstu bílaþáttum og verður meðal annars moðað úr þeim hálfa metra og 20 kg af efni sem blaðamaður Mbl. flutti með sér heim.

Sýnendur beita ýmsum ráðum til að ná athygli. Hefðbundna aðferðin er aðlaðandi bás með nokkrum vel til höfðum sýningarstúlkum. Síðan er bætt við þverskornum bílum og glærum mótorum sem sýna uppbyggingu öryggiskerfa og gang vélanna og ef þetta dugar ekki er alltaf hægt að ná athygli með uppákomum. Sameiginlega efna sýnendur til happdrættis á hverjum degi og heppinn sýningargestur ekur heim á nýjum bíl og getur tekið undir kjörorð sýningarinnar um ánægju í akstri.

Og til að vita hvort menn eru á réttri leið í sýningarhaldinu héldu nokkrir sýnendur uppi skoðanakönnun á básum sínum og spurðu menn hvernig þeim litist á framsetninguna, stærðina og annað sem þar gat að líta.

jt

Morgunblaðið/jt

Á yfir 70 þúsund fermetra svæði í Palexpo sýningarhöllinni í Genf breiða bílaframleiðendur og framleiðendur fylgihluta úr sér með hafurtask sitt. Fljótlega fá þeir enn tvöfalt það rými því verið er að reisa nýja höll á svæðinu.

Fulltrúi á bás Toyota hremmdi blaðamann DV, Sigurð Hreiðar, til að svara spurningum í skoðanakönnun um álit gesta á bás fyrirtækisins.

Bílarnir eru skoðaðir í krók og kring. Japanir eru manna duglegastir við að reka nefið ofan í hvert smáatriði og mæla þau og mynda.