Sjónvarpið dragi úr mannfjölgun ÍBÚAR norðurhluta Filippseyja eru svo duglegir við að fjölga mannkyninu að Fidel Ramos forseti hefur ákveðið að sjá þeim fyrir kapalsjónvarpi þannig að þeir geti haft eitthvað annað fyrir stafni.

Sjónvarpið dragi úr mannfjölgun

ÍBÚAR norðurhluta Filippseyja eru svo duglegir við að fjölga mannkyninu að Fidel Ramos forseti hefur ákveðið að sjá þeim fyrir kapalsjónvarpi þannig að þeir geti haft eitthvað annað fyrir stafni. Ramos hélt upp á 66 ára afmæli sitt í Bontoc-héraði og kvaðst hafa áhyggjur af mikilli fjölgun íbúanna. Hann hefði því ákveðið að greiða þeim jafnvirði 7,7 milljóna króna svo þeir gætu tengst kapalsjónvarpi. "Þannig ættuð þið að geta haft eitthvað annað að gera á kvöldin, þegar dimma tekur," sagði forsetinn. Íbúar Filippseyja eru um 65 milljónir og þeim fjölgar um rúm 3% á ári.

Kulvísir Kanar

hafðir að spotti

VETURINN hefur verið langur og erfiður fyrir Bandaríkjamenn, sem eru ekki allir vanir kuldum og fannfergi. Kanadamenn eru öllu vanari vetrarhörkunum og kanadíska dagblaðið Toronto Star hefur að undanförnu birt daglega dálka um furðuleg uppátæki nágrannanna í suðri vegna kuldanna. Blaðið segir meðal annars frá því að Bandaríkjamaður nokkur hafi ekki komið bílnum sínum í gang vegna ísingar í bensínleiðslum vélarinnar. "Heitt bensín hlýtur að fá leiðslurnar til að þiðna," hugsaði maðurinn með sér og ákvað að hita nokkra lítra af bensíni á eldavélinni í eldhúsinu. Húsið brann til kaldra kola ­ en blaðið upplýsir ekki hvort bíllinn hafi komist í gang í öllum hitanum.

Ilmvötn bönnuð

í dýragarðinum

STARFSMÖNNUM dýragarðs í Englandi hefur verið bannað að nota sterk ilmvötn eða rakspíra, að sögn breska dagblaðsins The Independent. Blaðið hefur eftir eigandanum að ljón, hlébarðar og apar verði "hræðilega lostafullir" af slíkum ilmi. "Ég tel að það sé vegna gulleits ilmefnis sem kirtlar deskattar gefa frá sér og er notað í ilmvötn," sagði hann. "Það er líkt þeim þef sem dýr gefa frá sér þegar þau laðast hvert að öðru."

Fidel Ramos