Fyrirlestur um orðafar í Íslendingasögum EIRÍKUR Rögnvaldsson, prófessor við Háskóla Íslands, og Örnólfur Thorsson, stundakennari við Kennaraháskóla Íslands, flytja þriðjudaginn 22. mars kl. 16.15 fyrirlestur í boði Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla...

Fyrirlestur um orðafar í Íslendingasögum

EIRÍKUR Rögnvaldsson, prófessor við Háskóla Íslands, og Örnólfur Thorsson, stundakennari við Kennaraháskóla Íslands, flytja þriðjudaginn 22. mars kl. 16.15 fyrirlestur í boði Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands. Fyrirlesturinn nefnist: Um orðafar í Íslendinga sögum.

Undanfarin ár hefur hópur fræðimanna unnið að svokölluðum Orðstöðulykli Íslendinga sagna. Þar er um að ræða skrá um öll orð sem fyrir koma í sögunum, þar sem sýnt er í hvaða samhengi þau standa. Slíkir lyklar auðvelda mjög hvers kyns athuganir á orðafari og orðanotkun og gagnast málfræðingum, bókmenntafræðingum, sagnfræðingum og ýmsum öðrum sem skyggnast vilja í merkingarheim þessara bókmennta. Þess má vænta að Orðstöðulykill Íslendinga sagna verði gefinn út á geisladiski síðar á þessu ári, en jafnframt hefur verið unnið að orðstöðulyklum annarra forntexta, einkum Sturlunga sögu og Heimskringlu Snorra Sturlusonar.

Í framhaldi af gerð orðstöðulyklanna hefur verið unnið að ýmiss konar rannsóknum á orðaforða textanna og í fyrirlestrinum verða kynntar nokkrar niðurstöður þeirra rannsókna.

Fyrirlesturinn verður í stofu M-301 í Kennaraháskóla Íslands og er öllum opinn.