Sögulegt Mikill titringur var innan sem utan veggja Alþingis. Þúsundir mótmæltu meðan stjórnin liðaðist í sundur.
Sögulegt Mikill titringur var innan sem utan veggja Alþingis. Þúsundir mótmæltu meðan stjórnin liðaðist í sundur. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þúsundir manna mættu á fjölda borgarafunda sem haldnir voru síðasta vetur. Þúsundir manna gerðu sér ferð viku eftir viku á Austurvöll til að hlýða á ræður og tjá skoðun sína.

Þúsundir manna mættu á fjölda borgarafunda sem haldnir voru síðasta vetur. Þúsundir manna gerðu sér ferð viku eftir viku á Austurvöll til að hlýða á ræður og tjá skoðun sína. Þúsundir manna æptu „vanhæf ríkisstjórn“ og létu í sér heyra með látum í róstusömum mótmælum sem á köflum fóru úr böndunum við Alþingishúsið. Þúsundir manna kröfðust róttækra breytinga, nýrra hugsunarhátta, nýs Íslands. Sú tilfinning var ríkjandi síðasta vetur að íslenska þjóðin stæði á miklum tímamótum enda hefur borgaraleg virkni sjaldan verið meiri á Íslandi, en undanfarna mánuði hafa þessar raddir smám saman hljóðnað þótt mörgum finnist lítið hafa breyst. Varð Nýja-Ísland einhvern tíma til? Er það enn í mótun eða er tækifærið til breytinga ef til vill liðið hjá?

Eftir Unu Sighvatsdóttur

una@mbl.is

Það er sjaldgæft að borgarar taki í miklum mæli virkan þátt í stjórnmálum, ekki bara á Íslandi heldur almennt um heiminn allan.

Á því varð þó undantekning síðasta vetur þegar fjölmargir Íslendingar risu upp og létu til sín taka. Einstaklingsframtakið var áberandi í því mikla umróti sem varð enda var þörfin fyrir opnar umræður augljós.

Þjóðin vaknaði upp í miðri martröð atburða sem fæstir skyldu til fulls og enginn hafði fulla stjórn á en flestir vildu hafa eitthvað um að segja, þegar ljóst varð að afleiðingarnar yrðu langvarandi.

Strax á fyrstu dögum hrunsins urðu til borgaralegar samkomur þar sem almenningur steig á stokk og hóf upp raust sína. Fyrsti mótmælafundurinn í nafni Radda fólksins var haldinn á Austurvelli laugardaginn 11. október. Þeir urðu alls 31 talsins og Íslendingar nýttu sér vettvanginn í þúsundatali þótt mæting væri misjöfn eftir vikum.

Fjölmargir borgarafundir voru einnig haldnir þar sem ákveðin málefni voru tekin fyrir hverju sinni, fyrst í Iðnó, svo í Háskólabíó og var iðulega fullt út úr dyrum.

Þess fyrir utan spratt upp ógrynni vefsíðna þar sem fluttar voru fréttir og birtar myndir frá mótmælunum, ræður og pistlar birtir og skoðanaskipti fóru fram.

Nýtt lýðveldi tímabært

Á þessum umræðuvettvangi voru margar kröfur uppi: kröfur um að ábyrgðarmenn hrunsins tækju pokann sinn, kröfur um að létta skuldabyrðum af almenningi, um stjórnarskipti og upprætingu spillingar.

Undirliggjandi var þó krafa sem risti dýpra en allt annað, það var krafan um varanlegar breytingar og uppbyggingu betra samfélags til framtíðar á rústum góðærisins. Þetta óljósa ákall eftir breytingum tók að miklu leyti á sig form í hugmyndum Njarðar P. Njarðvík um nýtt og betra lýðveldi.

„Ísland er ekki lýðveldi. Ísland er flokksveldi,“ skrifaði Njörður í Fréttablaðið 21. desember. Hann vísaði m.a. í Frakkland sem fyrirmynd, þar sem reglulega hafa orðið greinileg skil í stjórnarfari og fimmta lýðveldið stendur nú yfir.

Þegar þjóðfélag hrynur

Bylgja reiði og vantrausts sem tröllreið íslensku samfélagi síðasta vetur virðist hafa sjatnað að einhverju leyti en Njörður er eftir sem áður á þeirri skoðun að enn sé sár þörf fyrir róttækari breytingar.

„Mín skoðun er sú að þegar þjóðfélag hrynur þá verður að byrja upp á nýtt. Við vorum stödd í tómarúmi og út úr því tómarúmi þarf að finna nýja leið, en ekki sömu leið og áður.

Við þurfum nýja stjórnarskrá og nýja stjórnarhætti sem eru það vel leiðbeineinandi að samskonar spilling og hér hefur ríkt geti ekki haldið áfram. Það er ekkert sem bannar henni að halda áfram núna.“

Háværasta krafa mótmælenda um stjórnarslit og kosningar gekk eftir síðasta vetur en minna hefur borið á því að menn játi á sig mistök eða ábyrgð. Margt bendir hinsvegar til að stjórnarskiptin hafi á endanum verið nóg til að lægja öldurnar og margir sem spyrja sig nú hvort viljinn til breytinga hafi eftir allt saman ekki rist dýpra en svo.

Þjóð á krossgötum

Hugmyndir um stjórnlagaþing sem endurskoða skuli stjórnarskrána hafa verið uppi frá því fyrir stofnun lýðveldisins 1944 en samt sem áður hefur aldrei verið boðað til slíks þings á Íslandi.

Fannst mörgum sem þjóðin stæði á slíkum krossgötum síðastliðinn vetur að stundin væri komin til að endurskipuleggja stjórnskipan landsins frá grunni.

„Það sem vakti fyrir mér var stjórnlagaþing óháð Alþingi sem semdi nýja stjórnarskrá og þær tillögur yrðu bornar beint undir þjóðina, milliliðalaust,“ segir Njörður.

Tillögum Njarðar var sáð í frjóan svörð en urðu aldrei fullvaxta og í dag segist hann óttast að Íslendingar séu fallnir aftur í sama farið. Veturinn 2008-2009 hafi ekki verið þau tímamót sem vonast hafi verið til. Engu að síður eru breytingar á stjórnskipanekki alveg úr sögunni; Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra lagði í júlí fyrir Alþingi frumvarp til laga um ráðgefandi stjórnlagaþing, en Njörður er efins.

„Nú þegar þessir blessuðu stjórnmálamenn ætla að láta undan og hafa stjórnlagaþing þá á það bara að vera ráðgefandi. Til hvers er það? Þeir sem ráða stjórnmálaflokkum vilja ekki missa sín völd. Í staðinn fyrir Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu, þá höfum við núna Samfylkingu og Vinstri Græna. Og hvað svo?

Það eru kannski svolítið breyttar áherslur, en nýjar klíkur. Svo rennur allt í sama farið aftur.“

Hvað?

Óánægjan sem kraumaði meðal almennings síðasta vetur braust fljótt út í borgara- og mótmælafundum þar sem margir létu í sér heyra. Mótmælin urðu fjölmennari og fjölmennari eftir því sem á leið og þegar viðbrögð stjórnvalda létu á sér standa varð staðan smám saman viðkvæmari þar til á endanum sauð upp úr og óeirðir brutust út við Alþingi Íslendinga.

Hver?

Lára Hanna Einarsdóttir og Njörður P. Njarðvík áttu bæði sinn skerf í almenningsumræðunni síðasta vetur hvort með sínum hætti. Njörður setti fram hugmyndir um stjórnlagaþing og endurnýjun lýðveldisins. Lára Hanna segir ekki sanngjarnt að dæma byltingarandann strax úr leik en nú líti þó út fyrir að síðasti vetur hafi ekki verið þau tímamót sem vonast var til.

Hvernig?

meðan mótmælin stóðu sem hæst fjaraði smátt og smátt undan stjórnarsamstarfi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Innanflokksátök voru mikil. Innan Samfylkingarinnar var valdabarátta. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir treysti ekki Björgvini G. Sigurðssyni og stuðningsmenn hennar unnu gegn honum. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins reyndu að standa saman.

Pólitískur titringur á öllum vígstöðvum

Augljós innanflokksátök hjá stjórnvöldum

HRUN bankakerfisins aðdragandi þess olli miklum pólitískum skjálfta í baklandi stjórnarflokkanna á þeim tíma, Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Á sama tíma var nær algjör óvissa um framtíðina hjá íslenskum almenningi sem vissi ekki sitt rjúkandi ráð.

Fyrirtæki vissu ekki hvort, og þá hvernig, þeim yrði bjargað frá gjaldþroti auk þess sem fjárhags áhyggjur fólks almennt mögnuðust. Innan Sjálfstæðisflokksins var deilt um nauðsyn þess að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þegar allt var hrunið. Flokkurinn skiptist í hópa þeirra sem voru með því og á móti.

Auk þess var reiði í baklandi flokksins vegna bankahrunsins og þeirrar ábyrgðar sem flokkurinn bar á því á mörgum vígstöðum. Ráðherrar flokksins stóðu þó saman og reyndu eftir fremsta megni að sína samstöðu, skv. heimildum Morgunblaðsins.

Innan Samfylkingarinnar var þó enn meiri togstreita. „Hún gjörsamlega logaði stafna á milli yfir langt tímabil,“ sagði einn ráðherra Samfylkingarinnar í samtali við blaðamann. Hann vildi ekki koma fram undir nafni, frekar en margir aðrir heimildarmenn, í ljósi þess að Rannsóknarnefnd Alþingis skilar skýrslu sinni vegna bankarhrunsins 1. nóvember.

Augljóst vantraust

Ágreiningurinn innan Samfylkingarinnar var djúpstæðari en hjá Sjálfstæðisflokknum. Baklandi Samfylkingarinnar, þ.e. óbreyttir flokksmenn og ekki síst ungliðahreyfingin, tóku virkan þátt í þeirri reiðiöldu sem magnaðist sífellt í kjölfar hrunsins.

Þá ríkti á sama tíma vantraust milli helstu forystumanna flokksins. Það átti að hluta til rætur í því að Björgvini G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra og þar með ráðherra bankamála hafði verið haldið utan við helstu ákvarðanir er vörðuðu neyðarlögin og bankahrunið.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, treysti honum ekki. Össur Skarphéðinsson hélt því um taumana fyrir hönd Samfylkingarinnar í fjarveru Ingibjargar Sólrúnar þegar hún var glíma við veikindi.

Eftir að neyðarlögin höfðu verið samþykkt og bankarnir hrundu einn af öðrum lögðu stjórnvöld mikla áherslu á skilvirka upplýsingagjöf með daglegum blaðamannafundum.

Allra augu voru á Geir H. Haarde og Björgvini G. Sigurðssyni á þeim. Þeir svöruðu þá spurningum innlendra og erlendra fréttamanna. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins létu stjórnvöld mæla sérstaklega, með sérstökum könnunum, hvernig skilaboðum Björgvins og Geirs var tekið. Voru niðurstöðurnar almennt góðar að mati stjórnvalda.

Innan Samfylkingarinnar var ekki einhugur um það að Björgvin skyldi koma fram við hlið Geirs. Töldu menn hann „skyggja á“ Ingibjörgu Sólrúnu eins og einn heimildarmanna komst að orði. Þar var helstu stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar fremstir í flokki, þ.á.m. Skúli Helgason þingmaður, sem þá var framkvæmdastjóri flokksins.

Davíð burt

Svo fór að lokum að daglegu blaðamannafundirnir voru slegnir af, vegna ósættis um skipulag þeirra. Andri Óttarsson, þáverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, var meðal þeirra sem lagðist gegn því að blaðamannafundirnir yrðu slegnir af samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

Óttinn við að óstöðugleikinn meðal almennings myndi magnast enn frekar var farinn að hafa veruleg áhrif á ákvörðunartökur stjórnvalda á þessum tímapunkti.

Eftir því sem lengra leið frá hruni varð reiði Samfylkingarinnar í garð Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabankans, meiri og meiri. Forystumenn flokksins vildu hann burtu, allir sem einn.

Sérstaklega varð reiðin mikil eftir að Davíð kom fram í viðtali í Kastljósþætti RÚV-sjónvarps og sagði Íslendinga ekki ætla að greiða skuldir óreiðumanna í útlöndum. Ingibjörg Sólrún sendi Geir þá smáskilaboð og fór fram á að Davíð yrði rekinn, eins og upplýst er í bók Guðna Th. Jóhannessonar, Hruninu.

Sú krafa magnaðist eftir því sem frá hruni bankanna leið. Í desember og janúar, þegar mótmælin stóðu sem hæst, var ástandið á suðupunkti. Innan Sjálfstæðisflokksins voru einnig háværar kröfur um endurnýjun ekki síst hjá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum, þar sem Jónas Fr. Jónsson og Davíð voru við stýrið. Róttæk uppstokkun á ríkisstjórninni og eftirlitsstofnunum var skipulögð eftir að krafan um endurnýjun gerðist hávær innan beggja flokka.

Veikindi Ingibjargar Sólrúnar gerði stöðuna hins vegar erfiða. Hún var löngum stundum erlendis í læknismeðferð vegna heilaæxlis og á meðan var Samfylkingin sem „höfuðlaus her“ eins og heimildarmenn innan Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar komust að orði. Á meðan mótmæli urðu sífellt stærri og fjölmennari á Austuvelli var ríkisstjórnin völt í sessi. Eftir mikil mótmæli, sem náðu hámarki 21. janúar, var ljóst að ríkisstjórninni yrði ekki bjargað. Samfylkingarfélag Reykjavíkur samþykkti þar ályktun um stjórnarslit.

Ingibjörg Sólrún var ekki á fundinum þar sem hún var erlendis í læknismeðferð. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, var hins vegar á fundinum og sagði að fundinum loknum að krafan væri skýr.

Ofan í mótmælin og reiðina í baklandi Samfylkingarinnar birtist niðurstaða könnunar á fylgi flokkanna sem sýndi algjört hrun hjá Samfylkingunni niður í rúm 17 prósent. Sem var um helmingur þess þegar það mældist mest. Þetta hafði einnig áhrif á það að stjórnin féll 26. janúar.

Veikindin tóku sinn toll

Þreifingar um myndun ríkisstjórna höfðu þá staðið yfir í nokkurn tíma. Geir lagði áherslu að þjóðstjórn yrði mynduð. Niðurstaðan varð sú að Samfylking og Vinstri græn mynduðu ríkisstjórn sem varin var falli af Framsóknarflokknum fram að kosningum 25. apríl. Einn heimildarmanna orðaði það þannig að Ingibjörg Sólrún hefði næstum „fórnað lífi sínu, í bókstaflegri merkingu“ til að halda Samfylkingunni á floti.

Ef hún hefði ekki tekið af skarið með stjórnarslit og síðar stjórnarmyndun við VG hefði flokkurinn getað hæglega getað klofnað. Mörgum var ljóst að hún var líkamlega næstum örmagna á síðustu dögum ríkisstjórnarinnar. Fundahöld á heimili Geirs voru síðustu verk Ingibjargar Sólrúnar. Þá réðst það endanlega að stjórnin gæti ekki haldið áfram.

Reyndu að ná saman

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde hittust á fundum á heimili þess síðarnefnda í janúar til að freista þess að ná sáttum um áframhald samstarf flokkanna. Á þessum fundum komu fram kröfur flokkanna um breytingar. Samfylkingin krafðist þess meðal annars að fá forsætisráðuneytið. Var meðal annars reifuð sú hugmynd að ráðherrann kæmi utan að og var nafn Dags B. Eggertssonar nefnt í því sambandi. Einnig var uppi hávær krafa hjá Samfylkingunni um að Evrópumálin yrðu sett á oddinn. Sjálfstæðismenn voru ekki tilbúnir til þess að fallast á þessi skilyrði, allra síst það að láta frá sér forsætisráðuneytið. Tillögurnar sem ræddar voru á fundunum voru flestar hverjar undirbúnar í baklandi flokkanna, af nánustu samstarfsmönnum Geirs og Ingibjargar. Össur Skarphéðinsson var Ingibjörgu til halds og trausts á fundunum, en á þeim tíma sem fundirnir fóru fram var hún þreytuleg að sjá eftir erfiðar læknismeðferðir. Eftir að viðræðurnar höfðu farið út um þúfur og Samfylkingin myndað minnihlutastjórn sagði Geir á fundi með sjálfstæðismönnum að aldrei hefði komið til greina að gefa eftir forsætisráðuneytið.

Orkan búin þegar kreppir harðar að

ESB og Icesave skyggt á alla umræðu

„ENGINN talar um nýtt lýðveldi núna og ég hef ekki heyrt minnst á stjórnlagaþing eða nýja stjórnarskrá mánuðum saman. Þetta eru allt breytingar sem fólk talaði um síðasta vetur en hefur ekki verið minnst á síðan,“ segir Lára Hanna Einarsdóttir, þýðandi, leiðsögumaður og bloggari.

Lára Hanna er gott dæmi um vægi einstaklingsframtaksins í umræðunni. Hún hefur lagt mikla áherslu á að safna og miðla áfram upplýsingum um samfélagsmál á blogginu þar sem hún hefur enn daglega upp raust sína þrátt fyrir að aðrar raddir hafi hljóðnað.

Aðspurð hvort byltingarandinn hafi vikið að nýju fyrir doðanum segir hún vissulega hætt við því. „En það er kannski ósanngjarnt að fella þann dóm alveg strax. Fólkið er þarna ennþá og það eru margir enn að gera góða hluti, t.d. Hagsmunasamtök heimilanna og fleiri duglegir einstaklingar hér og þar.“

Kreppir verulega að núna

Þrátt fyrir allt hafa þó ekki orðið þær framfarir sem vonast var til og Lára Hanna segir það m.a. skýrast á því að þjóðin standi enn í sömu óvissusporum. „Kosningabaráttan í vor gekk öll út á ESB og Icesave og þessi tvö mál hafa haft kverkatak á þjóðinni síðan og haldið okkur í heljargreipum. Þetta hefur skyggt á alla aðra umræðu og á meðan miðar okkur ekkert áfram.“

Sjálf hefur Lára Hanna tekið að beina kastljósinu að nýju að náttúruvernd og stóriðjuframkvæmdum. „Nú er Bitruvirkjun komin upp á borðið aftur. Sömu hugmyndirnar sem valda sömu þenslunni og áður, þetta er engin lausn, fólk hugsar ekkert út fyrir kassann.“

Hún segir þó skiljanlegt þótt fólk missi kraftinn og úthaldið til að fylgjast með og veita stjórnvöldum aðhald. „Í fyrravetur var reiðin svo sterk, fólk hugsaði „við verðum að gera eitthvað, við verðum að breyta þessu, það er hægt,“ en það var náttúrlega vitað að með haustinu myndi fyrst byrja að kreppa verulega að hjá fólki og þá er spurning hversu mikil orka er eftir.“ Erfitt sé að spá fyrir um hvernig stemningin verði í þjóðfélaginu þennan vetur sem í vændum er. „Það fer svolítið eftir því hvað gerist núna á næstu vikum, hvort okkur verður gert kleift að lifa af því það ríkir enn svo mikil óvissa um húsnæðismálin, bílalánin og þetta blessaða Icesave.“

Lára Hanna er meðal þeirra sem hrifust af hugmyndum um nýtt lýðveldi. Umræðan sem þá var hafi opnað augu fólks fyrir nýjum möguleikum um betra Ísland.

„Þessi möguleiki er að sjálfsögðu enn fyrir hendi nú eins og þá og jafnvel enn frekar kannski, en hvort síðasti vetur hafi verið þær krossgötur sem að fólk hélt þá, það lítur ekki út fyrir það eins og staðan er núna, því miður.“ una@mbl.is

Mestu mótmæli í 50 ár og kostuðu sitt

Mótmælin í kjölfar bankahrunsins reyndust verða þau mestu á Íslandi frá árinu 1949 þegar inngöngu Íslands í Nató var mótmælt.

Þótt þau hafi að mestu verið á friðsamlegum nótum fóru þau stundum úr böndunum og nokkrum sinnum brutust út óeirðir sem urðu m.a. til þess að lögreglan sá sig knúna til að beita táragasi í fyrsta skipti í hálfa öld.

Ein ljótasta birtingarmynd óeirðanna var ofbeldi sem beint var gegn lögregluþjónum. Aðfaranótt fimmtudagsins 22. janúar slösuðust 7 lögreglumenn þegar þeir urðu fyrir grjótkasti.

Beinn kostnaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna mótmælanna var um 42 milljónir kr. og óbeinn um 5-8 milljónir.

Þá var heildarkostnaður vegna viðgerða og þrifa á Alþingishúsinu í kjölfar mótmælanna, launakostnaðar og uppsetningar á búnaði til styrkingar vörnum hússins er áætlaður um 19 milljónir kr. Má því áætla að 6 mánaða mótmæli, frá október fram í mars, hafi kostað skattgreiðendur um 69 milljónir.

Úr ræðunum á Austurvelli

 • Þessi lýðræðisskortur er alvarlegri vandi en svo að það dugi að fá eitt lán frá Alþjóðagjaleyrissjóðnum, eða ganga í Evrópusambandið, taka upp evru eða skipta yfir í vinstri stjórn í eitt eða tvö kjörtímabil [...] Það mun fara aftur í sama farið innan fárra ára nema gripið verði til róttækra aðgerða.“

  Viðar Þorsteinsson 15. okt.

 • En leikritið er búið. Tjaldið er fallið. Við viljum nýjar leikreglur sem byggjast á þörfum venjulegs fólks en ekki hagsmunum pókerspilara. Við viljum lýðræði.“

  Stefán Jónsson 29. nóv.

 • Kæra þjóð! Beislum kraftinn sem hér er, virkjum allt hugsandi fólk. Náum saman í grasrótinni og búum til nýtt Ísland þar sem okkur öllum getur liðið vel. Við erum þjóðin og valdið er okkar.“

  Kristín Tómasdóttir 29. nóv.

 • Þetta snýst nefnilega ekki lengur um pólitíska flokka. Þess vegna þurfum við nýtt afl. Við þurfum öll að sameinast, jafnvel þótt okkur greini á um einstaka mál.“

  Einar Már Guðmundsson 3. jan.

 • Við þurfum byltingu – núna – áður en það verður of seint. Og ég er ekkert að tala um ofbeldi eða neinn þess háttar hrylling, ég meina pólitíska,vitsmunalega og andlega byltingu. Nýjan hugsunarhátt. Byltingu í hegðun, atferli og framkomu.“

  Halldóra Ísleifsdóttir 3. jan.

 • Við Íslendingar látum ekki sefa okkur! Og í þetta sinn munum við Íslendingar ekki dofna og gleyma!“

  Katrín Oddsdóttir 22. nóv.

 • Á morgun verður fjallað um stöðu mála í dag og hvað framundan er.