SÍMTALIÐ... ER VIÐ HILDIGUNNI ÓLAFSDÓTTUR AFBROTAFRÆÐING Hvað er ÁRA? 601713 Hildigunnur. - Góðan dag. Ég heiti Páll Þórhallsson blaðamaður á Morgunblaðinu. Hvað er ÁRA? Það er skammstöfun fyrir Áhugahóp um refsistefnur og afbrotafræði.

SÍMTALIÐ... ER VIÐ HILDIGUNNI ÓLAFSDÓTTUR AFBROTAFRÆÐING Hvað er ÁRA? 601713 Hildigunnur. - Góðan dag. Ég heiti Páll Þórhallsson blaðamaður á Morgunblaðinu. Hvað er ÁRA? Það er skammstöfun fyrir Áhugahóp um refsistefnur og afbrotafræði. Hópurinn var stofnaður 2. desember síðastliðinn og er markmiðið að auka áhuga á og koma af stað meiri umræðu um refsipólitík, viðurlagaúrræði og afbrotafræði. Þetta er faghópur sem er öllum opinn og á að vera vettvangur fyrir að ræða þessi efni. Í framkvæmdanefnd eru auk mín Hansína B. Einarsdóttir, sem einnig er afbrotafræðingur, og Ragnheiður Bragadóttir lögfræðingur og lektor.

- Hvað hefur hópurinn gert til þessa?

Við höfum haldið tvo fundi. Á þeim fyrri flutti Jón Friðrik Sigurðsson, sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun, fyrirlestur sem hét: "Hvers vegna játar fólk afbrot við yfirheyrslur hjá lögreglu?" Kom fram hjá honum að það er algengara að grunaðir játi hér en í Englandi til dæmis. Ein helsta ástæðan er sú að sakborningur telur að lögreglan hafi það mikið af sönnunargögnum að það sé tilgangslaust annað en að játa. Þetta skýrist af því að við búum í litlu og fámennu þjóðfélagi hér þannig að lögregluvinna er væntanlega auðveldari. Svo vorum við með ráðstefnu í vikunni um hræðslu við afbrot, brotaþola og forvarnir.

- Ber stofnun þessa hóps vott um að mönnum finnist umræða um þessi efni hafa verið of lítil?

Hún ber kannski helst vott um að áherslan í umræðunni sé ekki eins æskileg og hún gæti verið. Hér eins og kannski víðar vill fólk yfirleitt þyngja refsingar þegar það er spurt að óathuguðu máli. En þegar farið er að fylgja því betur eftir áttar fólk sig oft á því að það vinnst ekkert með því að herða refsingar annað en það að hefndinni er fullnægt. Að minnsta kosti eru engar rannsóknir til sem mæla með hertum refsingum. Einnig hafa Íslendingar verið seinir að taka upp nýjar refsileiðir. Samfélagsþjónusta er til dæmis alls staðar orðin töluvert umfangsmikil en hefur ekki enn verið innleidd hér á landi. Svokölluð ágreiningsráð hafa einnig víða borið árangur. Þau eru vettvangur fyrir brotamann og brotaþola að sættast. Brotaþolinn fær þá eitthvað út úr afgreiðslunni.

- Henta slíkar sáttanefndir fyrir öll afbrot?

Það virðist vera mjög breytilegt eftir löndum hvaða mál eru valin til þess að fara fyrir slík ráð. Minniháttar líkamsmeiðingar henta ágætlega, en líklega væri erfitt að koma því við þegar um efnahagsbrot er að ræða, eins og þegar fyrirtæki eða stofnun er völd að brotinu eða brotaþolinn er samfélagið í heild.

- Hvað með nauðgunarmál?

Þau gætu alveg komið til greina ekki síst vegna þess að í litlu samfélagi eins og á Íslandi eru ætíð líkur á að fórnarlamb hitti afbrotamanninn aftur. Það getur verið sársaukafullt og þá gæti verið ákjósanlegt að þau hefðu gert upp sakirnar með öðrum hætti en nú er.