Helgi Helgason - viðbót Guð hefur tekið afa minn frá mér, en enginn getur tekið frá mér minningarnar um hann og hvað ég elskaði hann mikið. Þegar mér var sagt frá því að hann afi minn væri dáinn, sagði ég bara: "Nei, hann afi minn er sko ekki dáinn." Hvernig gat afi minn verið dáinn? Hann sem ég hafði verið í nálægð við allt mitt líf.

Ég er bara svo heppin því að þó að afi sé dáinn á ég svo mikið af fallegum og góðum minningum um hann. Ég þakka bara fyrir þann tíma sem ég fékk að eiga með honum, áður en hann fór. Ég á eftir að sakna hans alveg rosalega mikið, en ég verð að trúa því að hann sé nú á góðum stað og líði betur nú en honum hefur liðið undanfarið vegna veikinda sinna.

Himinljós um heiða nátt

hýrt þér benda og skína

þangað, sem þú öðlast átt

aftur vini þína.

Ó, hve bjartan endurfund

eilífð brosa lætur,

fölnuð blóm úr foldarlund

fá þar nýjar rætur.

(Guðrún Magnúsdóttir.)

Edda Björk Friðriksdóttir.