Jóhanna Elíasdóttir - Minning Fædd 7. desember 1910 Dáin 11. mars 1994 Að eilífðar ljósi bjarma ber, sem brautina þungu greiðir. Vort líf, sem svo stutt og stopult er, það stefnir á æðri leiðir. Og upphiminn fegri' en auga sér mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Benediktsson)

Fregnin um andlát virðist alltaf jafn óvænt þó að vitneskjan um alvarleg veikindi sé fyrir hendi. Mörg síðustu árin gekk Jóhanna ekki heil til skógar. Hún tók veikindum sínum af miklu æðruleysi, og af ótrúlegum styrk, allt til þess síðasta.

Jóhanna hafði til að bera fallegan þokka og reisn, sem varð til þess að allir sem umgengust hana báru sjálfkrafa virðingu fyrir henni. Hún tranaði sér aldrei fram og hún talaði ekki hátt. Samt hlustuðu allir á hana. Hún var hreinskiptin og ákveðin kona og hún var miðpunkturinn í sinni samheldnu fjölskyldu.

Jóhanna Elíasdóttir var fædd í Bolungarvík 7. desember 1910. Foreldrar hennar voru Margrét Guðrún Kristjánsdóttir, fædd 22. ágúst 1889 í Hælavík, hún lét 14. febrúar 1976, og Elías Sigurður Angantýsson, fæddur 29. október 1886 í Grunnavík. Hann drukknaði í fiskiróðri 7. nóvember 1923 er vélbáturinn Egill frá Bolungarvík fórst. Jóhanna fluttist með móður sinni til Akureyrar og síðar til Siglufjarðar, þar sem hún vann við síldarsöltun. Þar kynntist hún verðandi eiginmanni sínum, Kristjáni Þorvarðssyni, fæddum 19. ágúst 1904, læknanema frá Vík í Mýrdal, en hann starfaði um tíma við að meta síld. Síðar starfaði Jóhann í Konfektbúð á Hótel Íslandi í Reykjavík.

29. júní 1935 giftist Jóhanna Kristjáni og fylgdi honum til Danmerkur 1937, en þar stundaði Kristján framhaldsnám í læknisfræði, tauga- og geðlæknisfræði. Í Danmörku voru þau hjónin til loka seinni heimsstyrjaldarinnar, eða þar til í nóvember 1945.

Börn þeirra hjóna eru: Andrea Elísabet, fædd í Reykjavík 1. júní 1936, meinatæknir á Landakoti. Margrét, fædd 9. júní 1941 í Hróarskeldu, gift Jóni Friðgeir Einarssyni, framkvæmdastjóra í Bolungarvík. Sonur þeirra er Kristján, fæddur 9. ágúst 1977. Börn Jóns frá fyrra hjónabandi eru Margrét, Einar Þór og Ásgeir Þór. Bragi, lögfræðingur í Reykjavík, fæddur 8. janúar 1945 í Sorø, kvæntur Bjarnfríði Árnadóttur, bankastarfsmanni. Börn þeirra eru Jóhanna Margrét, fædd 20. nóvember 1976 og Berglind Björk, fædd 13. apríl 1982. Sjöfn, læknir, fædd í Reykjavík 4. júlí 1951.

Eftirlifandi systkini Jóhönnu eru Kristjana, búsett í Bandaríkjunum, Gísli, Guðrún og Elísa öll búsett í Reykjavík.

Jóhanna og Kristján bjuggu fyrstu árin eftir heimkomuna frá Danmörku á Skúlagötu í Reykjavík, en síðar eignuðust þau sitt góða og fallega heimili að Grenimel 30, þar sem Jóhanna rak og stjórnaði stóru heimili styrkri hendi og með miklum glæsibrag. Þar fann maður sig ætíð velkominn, var tekið með glaðværð og mikilli gestrisni.

Kristján var mikið að heiman vegna starfs síns, ófáar voru vitjanirnar sem hann fór á öllum tímum sólarhringsins. Alla tíð stóð Jóhanna sem klettur við hlið manns síns. Það var aðdáunarvert að sjá hvað þau töluðu saman af mikilli virðingu og hlýju og allt til þess síðasta, en Kristján lést í nóvember á síðasta ári. Jóhanna og Kristján voru afar samhent hjón. Hjónaband þeirra byggðist upp á gagnkvæmri ást, virðingu og vináttu sem aldrei bar skugga á. Missir Jóhönnu var því mikill eftir að Kristján hvarf á braut. Þau voru þeirrar gæfu aðnjótandi að geta búið á heimili sínu til þess síðasta, og er það börnum þeirra að þakka, sérlega Elísabetu sem alla tíð hefur hugsað um foreldra sína af stakri natni.

Við biðjum Guð að blessa minningu Jóhönnu og Kristjáns og þökkum fyrir samverustundirnar sem aldrei gleymast. Börnum og fjölskyldum þeirra vottum við innilega samúð okkar og biðjum þess að minningin um yndislega foreldra styrki þau á þessum erfiðu tímum í lífi þeirra.

Margrét, Einar Þór og Ásgeir Þór.