Í grárri nýbyggingunni Tveir af listamönnunum tíu á sýningunni, þau Ívar Valgarðsson og Sara Björnsdóttir, unnu að uppsetningu verka sinna í Garðabænum í gær. „Verkin eru mjög fjölbreytileg,“ segir sýningarstjórinn.
Í grárri nýbyggingunni Tveir af listamönnunum tíu á sýningunni, þau Ívar Valgarðsson og Sara Björnsdóttir, unnu að uppsetningu verka sinna í Garðabænum í gær. „Verkin eru mjög fjölbreytileg,“ segir sýningarstjórinn. — Morgunblaðið/Heiddi
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is „Í DAG er fullkomlega eðlilegt að setja upp sýningu í fokheldu húsnæði. Það endurspeglar samtímann,“ segir sýningarstjórinn og myndlistarmaðurinn Þóroddur Bjarnason.

Eftir Einar Fal Ingólfsson

efi@mbl.is

„Í DAG er fullkomlega eðlilegt að setja upp sýningu í fokheldu húsnæði. Það endurspeglar samtímann,“ segir sýningarstjórinn og myndlistarmaðurinn Þóroddur Bjarnason. Hann er að tala um sýninguna Fokhelt sem hann hefur sett saman en hún verður opnuð á morgun klukkan 15.00 í tveimur samliggjandi raðhúsum í Akrahverfinu í Garðabæ, að Breiðakri 17 og 19.

Auk Þórodds, sem hefur unnið að ýmsum sýningastjóraverkefnum og unnið að myndlist í fjölda ára, setja upp verk í húsunum þau Erla Haraldsdóttir, Finnur Arnar Arnarson, Helga G. Óskarsdóttir, Hildigunnur Birgisdóttir, Ingólfur Örn Arnarson, Ívar Valgarðsson, Kristinn G. Harðarson og Sara Björnsdóttir. Rúnar Helgi Vignisson rithöfundur og þýðandi ritar inngang að sýningunni.

Söluskilti í gluggum

„Það er alltaf svolítið mál að fá húsnæði að sýna í, hvort sem það er svona húsnæði eða eitthvert annað. Ég var svo heppinn að fá leyfi hjá húseigandanum, sem féllst á að hleypa inn hópi af listamönnum, sem er vitaskuld ekkert sjálfsagt. Þessi hús eru til sölu, eru vara á markaðinum. Það eru söluskilti í gluggunum,“ segir Þóroddur.

„Ég fékk húsin lánuð í vor og tók þá áhættu að þau gætu selst á undirbúningstímanum. En eins og ástandið er var sú áhætta ekki jafn mikil og fyrir tveimur árum.“

Þóroddur tók sér tíma í að hugsa um hverskonar sýningu hann vildi setja upp í húsunum, hvort hann ætti að sýna einn, eða hvort listamennirnir ættu að vera tveir eða fjórir. Hann hitti Söru Björnsdóttur á förnum vegi, bar hugmyndina upp við hana og þegar henni leist vel á fór hugmyndin að þróast í áttina að því sem gestir geta séð næstu fjórar helgar í húsunum við Breiðakur, en opið er um helgar, frá klukkan 12 til 16.

„Hér eru hvorki lýsing né hiti og þess vegna þarf sýningin að vera opin á þessum tíma. Þetta snýst um birtuna. Við notum húsið hrátt og kalt eins og það er,“ segir Þóroddur.

„Í upphafi var ég hálfsmeykur við að bjóða listamönnunum að sýna í þessum aðstæðum, óttaðist að þær féllu ekki öllum í geð, en það var misskilningur. Á endanum voru allir tilbúnir og sköpuðu verk sem pössuðu í þetta umhverfi. Kristinn og Ívar áttu til að mynda báðir verk sem þeir höfðu hugsað í „svona“ húsnæði. Þetta hefur því gengið vel og átakalaust.“

Mjög fjölbreytileg verk

Þóroddur segir þetta allt listamenn sem passi einstaklega vel við sýninguna, hver á sinn hátt. Þeir geti tekist á við óvæntar aðstæður, sumir hafa unnið með hversdagslegan efnivið á borð við byggingarefni og hugmyndir um íbúðir; verkin á sýningunni taka óneitanlega mið af þeim tíma og þeim stað sem þau eru sýnd á.

„Á sýningunni er veggmálverk, málverk á striga, skúlptúrar, lágmyndir, ljósmyndaverk, blýantsteikningar á vegg, meira að segja fasteignaauglýsingar! segir hann og hlær. „Verkin eru mjög fjölbreytileg.“

Þóroddur kynntist Rúnari Helga fyrir nokkrum árum á fótboltaleikjum í Garðabæ, en þeir eru báðir aðfluttir Garðbæingar. „Ég hafði lesið eftir hann þýðingar og greinar og þar á meðal grein í Morgunblaðinu með yfirskriftinni: „Hvað ert þú að gera í Garðabæ? Ég var oft spurður að því þegar ég flutti hingað. Ég hugsaði strax til Rúnars Helga þegar ég ákvað að gera þessa sýningu, talaði um að hann skrifaði inngang en það hefur þróast á óhefðbundinn hátt, hann er eiginlega hluti af listamannateyminu.“

Engin kreppusýning

„Sýningin er orðin til fyrir velvilja listamannanna og annarra sem koma að henni,“ segir hann. „Þetta er engin kreppusýning – en auðvitað má túlka hana á ýmsan hátt.“