Guðmundur Halldór Atlason fæddist í Reykjavík 2. janúar 1958. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ þann 18. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sif Áslaug Johnsen, húsmóðir, f.25.ágúst 1926, d.12.maí 2006 og Atli Helgason, skipstjóri, f.7.júlí 1926, d.18.september 2001. Systkyni hans eru 1) Lárus Johnsen Atlason f. 22.september 1951, maki Nanna Guðrún Zoëga f.1951. Börn þeirra a) Una Marsibil, b) Atli Sveinn, c) Kristinn Ingi, d) Lárus Helgi, e) Sigurjón Örn og f) Guðjón Hrafn. 2) Atli Helgi Atlason f.25.maí 1965, sambýliskona Ingibjörg Gréta Gísladóttir f.1966. Börn hennar a)Mario Ingi og b) Jóhanna Alba og 3) Dóra Elín Atladóttir Johnsen f. 10.janúar 1968, maki Birgir Bárðarson f. 1965. Börn þeirra a) Guðmundur Halldór, b) Silvía Sif og c) Ísabel Dóra. Guðmundur ólst upp í Holtagerði í Kópavogi og gekk ætíð undir nafninu Muggur af vinum og fjölskyldu. Hann gekk í Kársnesskóla, Þingholtsskóla og Verzlunarskóla Íslands. Hann lagði einnig tímabundið stund á lögfræði við Háskóla Íslands. Árið 1991 fór hann í Sheffield School of Aeronautics í Ft. Lauderdale, Florida og lauk þar námi í flugumsjón. Guðmundur fór ungur á sjó, vann fyrst sem vikadrengur og síðar háseti á millilandaskipum Eimskips hjá föður sínum. Eftir að námi lauk starfaði hann hjá Hafskip bæði á Íslandi sem og í Englandi. Fyrst sem forstöðumaður tjónadeildar Hafskips í Reykjavik en siðan sem aðstoðarmaður framkvæmdarstjóra í Ipswich. Eftir heimkomu frá Bretlandi réð hann sig til Sölumiðstöðvar Hraðfrystihúsanna þar sem hann sinnti sölu- og útflutningi. Guðmundi bauðst síðan að taka að sér starf bæjarritara hjá Dalvíkurbæ og sinnti hann því uns hann hóf störf hjá flugfélaginu Atlanta. Guðmundur starfaði nær óslitið hjá flugfélaginu Atlanta frá árinu 1990 – 2005 með einu hléi , þegar hann tók sér í leyfi í rúmt ár til að sinna stöðu flugrekstrarstjóra hjá MD Airlines í Kópavogi. Guðmundur sinnti ýmsum störfum innan veggja flugfélagsins Atlanta, meðal annars í flugrekstrardeild, sem starfsmannastjóri, stöðvarstjóri og loks sem flugumsjónarmaður. Hann ferðaðist mikið á vegum vinnu sinnar og dvaldi oft langdvölum á framandi slóðum, meðal annars í Indónesíu og Túnis. Guðmundur var við störf á skrifstofu Atlanta er hann veiktist og fékk heilablóðfall í janúar 2005. Hann dvaldi fyrst á Reykjalundi en fluttist þaðan á hjúkrunarheimilið Skógarbæ þar sem hann lést þann 18.júní síðastliðinn. Guðmundur var unnandi íslenskrar náttúru og mikill útivistarmaður. Hann naut þess að vera í kyrrð og ró og renna fyrir fisk þegar færi gafst. Guðmundur ferðaðist mikið innanlands sem utan og hafði gaman að fræðast um þá staði sem hann heimsótti. Hann var fjölfróður um landið og óþrjótandi uppspretta fróðleiks um alla hluti er vöktu áhuga hans. Útför Guðmundar Halldórs er frá Háteigskirkju 29. júní kl.15.

Okkur var brugðið þegar við fréttum andlát vinar okkar Guðmundar Atlasonar.

Kynni okkar hófust þegar við fórum að vinna saman hjá flugfélaginu Atlanta. Fyrstu árin var Guðmundur langdvölum erlendis við störf á vegum fyrirtækisins, en hann var á þessum árum stöðvarstjóri víðsvegar á áfangastöðum Atlanta, í Malasíu, Algier og víðar.

Að lokinni útivistinni hóf hann störf á skrifstofu Atlanta í Mosfellsbæ og þar lágu leiðir okkar saman við störf við launabókhald og starfsmannastjórn fyrirtækisins.  Unnum við þar saman í mörg ár og kynntist ég Guðmundi betur þá.  Hann var sérstaklega vandvirkur og samviskusamur starfsmaður og naut trausts og virðingar  samstarfsmanna sinna.

Síðar  lærði Guðmundur flugumsjón og starfaði  sem flugumsjónarmaður hjá Atlanta allt þar til hann varð fyrir alvarlegu áfalli á miðri vakt og náði aldrei heilsu eftir það.  Fyrst eftir að hann losnaði af gjörgæslu dvaldi hann á Reykjalundi.   Síðan flutti hann í Skógarbæ þar sem hann bjó til æviloka.  Á báðum þessum stöðum naut hann umönnunar og aðstoðar elskulegs starfsfólks.

Guðmundur hafði skemmtilega kímnigáfu og varð okkur fljótt vel til vina,  þrátt fyrir mikinn aldursmun. Hann hafði gaman af útivist og veiðiskap.  Í einu slíku ferðalagi varð hann var við okkur austur á fjörðum og hafði gaman af að stríða okkur,  án þess að við vissum hvaðan stríðnin kom.  Var oft síðar hægt að rifja þetta upp og hlæja að.

Við Ásta heimsóttum Guðmund nokkuð oft og gátum ekki annað en dáðst að dugnaði hans við að takast á við fötlun sína.  Var gaman að ræða við hann um ferðalög hans og áhugamál, hann hafði engu gleymt  og fylgdist með öllu innanlands og utan og hafði sínar skoðanir á heimsmálunum.

Oft gaf hann okkur góðar ábendingar um staði sem vert væri að skoða þegar við vorum á leið til útlanda.  Ungur hafði hann farið utan með pabba sínum og lært mikið á því, mundi hann það eins og það hefði gerst í gær og var gaman að heyra hann segja frá.

Hann naut þess einnig að víkka sjóndeildarhringinn með því að leita að upplýsingum á netinu fyrir sjálfan sig og aðra þrátt fyrir dapra sjón. Einnig átti hann erfitt með handa- og fingrahreyfingar og háði það honum mjög þegar hann vann við tölvuna, en hann gafst aldrei upp.

Með þessum fátæklegu orðum kveðjum við Ásta mjög kæran og traustan vin sem nú er horfinn langt um aldur fram, við söknum hans.

Við þökkum honum  hlýhuginn og vináttuna sem við nutum alla tíð. Vertu blessaður elsku Muggur.

Ásta og Jón R. Sigurjónsson.

Við kveðjum Guðmund langt um aldur fram.

Ég vil í fáeinum orðum þakka Guðmundi fyrir hönd allra sem störfuðu með honum í flugrekstrardeild Flugfélagsins Atlanta á sínum tíma.

Guðmundur var einn fyrsti starfsmaður félagsins á upphafsárum þess og tók hann mér vel þegar ég kom til starfa aðeins seinna til liðs við fámennan og samstilltan hóp með höfuðstöðvar í tveimur herbergjum í Mosfellsbæ.

Guðmundur starfaði í flugumsjón bæði hér heima og erlendis og var hann sannkallaður fagmaður í sínu starfi og vann óeigingjarnt starf fyrir félag í örum vexti og lagði ófár vinnustundir af hendi og lét sér hag félagsins miklu skipta. Hann ver vel liðinn af öllum starfsmönnum félagsins.

Við kveðjum góðann dreng og við þökkum fyrir samveruna sem var styttri en áætlað var. Nú munu Guðmundur og Sigurjón Alfreðs standa vaktina í flugumsjón fyrir handan eins og þeir gerðu saman á fyrstu dögum Flugfélagsins Atlanta.

Lárus, Nanna og fjölskyldan öll, innilegar samúðarkveðjur.

Hafþór Hafsteinsson.

Guðmundur Halldór, Muggur, vinur okkar og frændi er látinn á miðjum aldri eftir langvarandi veikindi. Mig langar nú að minnast hans eftir áratuga góð samskipti og vináttu. Muggur var besti vinur og náfrændi mannsins míns, Jóns Kristjáns, og guðfaðir sonar okkar, Lárusar Kristjáns. Muggur hafði hlýtt og gott viðmót, var glaðsinna og hafði kímnigáfu. Það fylgdi því jafnan ferskur andblær þegar Muggur leit við hjá okkur og gaman var að spjalla við hann um menn og málefni. Hann hafði yndi af að ferðast og fór víða bæði hér á landi og erlendis. Muggur bjó um tíma í Englandi vegna starfs síns.

Fyrir nokkrum árum varð Muggur fyrir alvarlegu heilsuáfalli og bjó í kjölfar þess á hjúkrunarheimilinu Skógabæ. Heilsan hamlaði þá mjög en Muggur fylgdist áfram vel með þjóðmálum og oft voru þau rædd í þaula í   heimsóknum okkar til hans í Mjóddina.

Það er komið að kveðjustund. Margs er að minnast og margt ber að þakka. Við kveðjum góðan vin með þessum orðum.


Far þú í friði

friður guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem)

Blessuð sé minning Guðmundar Halldórs Atlasonar.


Sigrún Gunnarsdóttir

Í október 1998, í einum af þessum fágætu síðsumarsdögum og haustið skartaði sínu fegursta, ákvað Siggi að við kíktum á þig og Óla í sumarbústað á Laugarvatni og Siggi að kynna mig kærustuna í leiðinni.  Siggi hafði sagt mér margar skondnar og skemmtilegar sögur af ykkur og ég hlakkaði til að hitta ykkur.  Til dyra kom myndarlegur glaðlegur maður sem heilsaði mér með þéttu handarbandi.  Við duttum inn á þeim tíma dags sem kvöldgrillið var í fullum undirbúningi hjá ykkur félögum.  Góðlátlegu stríðnisskotin byrjuðu þegar Óli var að kveikja upp í grillinu, hvað skyldi slökkviliðið vera lengi á vettvang!  Steikin komst þó ókoluð á disk okkar allra, það var skrafað, hlegið og skotin hlupu milli ykkar líkt og í ,, Grumpy old man" myndinni skemmtilegu.  Síðar um kvöldið, þegar við vorum komin í bæinn aftur, hringdir þú í Sigga til að segja honum að Óli hefði sagt að nú væru þið búnir búnir að missa hann!  En það gleður hjartað, að hugsa til einstaklega skemmtilegra samverustunda sem upphófust eftir þessi kynni, veitingahúsaferðanna og fleiri stunda sem glæða vináttu lífi.  Muggur minn, þú varst herramaður, vandfýsinn maður með hjartað á réttum stað, hrókur alls fagnaðar, sem sá alltaf spaugilegu hliðarnar á tilverunni.  Ég vissi alltaf við hvern Siggi minnvar að tala við í símanum þegar þú varst á línunni, því þá var hlegið út í eitt!    En þú varst líka fljótur að greina kjarnann frá hisminu,  og lést skoðun þína óspart í ljós ef því var að skipta á þinn kurteisa hátt.  Barngóður varstu og  þér var tíðrætt um systkinabörn þín sem þú barst mikinn hlýhug til.  Þú gafst Sigga syni okkar Sigga kisutuskudýr í fæðingargjöf, sem drengurinn nefndi eftir þér Muggur sem gladdi þig mikið og er tuskudýrið drengnum afar hjartfólgið, svo mikið að á ákveðnu skeiði náði barnið ekki að sofna fyrr en kisi Muggur var kominn við vangann!

En ekkert er tryggt í þessu lífi.  Í janúar 2005 varðstu fyrir varanlegum heilsubresti.  Við tók ströng endurhæfing á Reykjalundi sem þú lagðir allt kapp á.  En síðustu þrjú árin dvaldir þú á Skógarbæ.  Þú varst farin að draga þig verulega í hlé síðustu tvö árin og innst inni fann ég að baráttu þinni var lokið.  En þrátt fyrir það náði ég alltaf góðu samtali við þig og fór alltaf glaðari út frá þér, því þú gafst svo mikið af þér.  Elsku Muggur minn, ég veit að þú ert hvíldinni feginn, vertu sæll að sinni,  og ég er sannfærð um það,  að við munum klára allar skemmtilegu ferðaáætlanirnar í öðru lífi.  Hjartans þakkir fyrir allt kæri vinur.  Ég votta aðstandendum Muggs mína dýpstu samúð, þið stóðuð þétt við bakið á honum.  Minningin lifir um góðan dreng.

Vala Lárusdóttir

Vala Lárusdóttir.