Sveinn Torfi Sveinsson fæddist á Hvítárbakka í Andakílshreppi í Borgarfirði 2. janúar 1925, en ólst upp í Reykjavík. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 20. október 2009. Foreldrar Sveins voru Gústaf Adolf Sveinsson, f. 7.1. 1898, d. 5.1. 1971, hrl. í Reykjavík, og Olga Dagmar Sveinsson, f. Jónsdóttir, f. 15.8. 1898, d. 27.8. 1981, húsmóðir. Systir Sveins er Sigrún Ásdís Sveinsdóttir, f. 15.1. 1935, búsett á Balí, var gift Virko Mir, hagfræðingi. Þau skildu og er sonur þeirra Jón Alexander Mir, f. 16.9. 1962, rafmagnsverkfræðingur, kvæntur Önnu Nusu Mir. Sveinn kvæntist 4.7. 1953 Elísabetu Hinriksdóttur, f. 8.4. 1925, d. 19.8. 2007, húsmóður. Hún er dóttir Henriks Schumanns Wagles, vélgæslumanns af norskum ættum er varð íslenskur ríkisborgari og Önnu Árnadóttur húsmóður. Dætur Sveins og Elísabetar eru: 1) Vilborg Elín, f. 23.10. 1954, hjúkrunarfæðingur og ljósmóðir. Var gift Einari Benediktssyni, f. 21.2. 1952, vélstjóra og eiga þau þrjú börn saman: 1. Linda Einarsdóttir, f. 4.8. 1974, nemi, sambýlismaður hennar er Sigmundur Lárusson, f. 16.10. 1973, símvirki og eiga þau tvö börn, þau Daníel Inga 13 ára og Birgittu Ýr 11 ára. 2. Elísabet Einarsdóttir, f. 13.6. 1985, nemi, í sambúð með Böðvari Reynissyni, f. 1978, tónlistarmanni, sonur þeirra er Eyþór 7 mánaða. 3. Einar Torfi Einarsson, f. 15.10. 1987, píanóleikari og unnusta hans er María Njálsdóttir, f. 1991. Vilborg og Einar skildu árið 1995. Giftist hún síðar Stefáni Sigurðsyni, f. 7.10. 1944, úrsmiði og listmálara. 2) Sonur: óskírður, f. 7.6. 1958, d. 18.6. 1958. 3) Ingibjörg Ásdís, f. 22.5. 1959, húsmóðir. Var gift Jóni Inga Ragnarsyni, f. 8.9. 1978, d. 27.6. 2005, húsgagnasmið og vinnuvélstjóra. Eiga þau saman Inga Þór Jónsson, f. 9.8. 1978, vinnuvélstjóra og nema, unnusta hans er Hella Svavarsdóttir, f. 9.9. 1970, skrifstofumaður/stjóri. Unnusti Ingibjargar er Sveinn Hallgrímsson, f. 23.7. 1961, blikksmiður. Sveinn eignaðist dótturina Ingibjörgu Ernu Sveinsson naglafræðing, f. 16.7. 1962, með Þórunni Árnadóttur, f. 11.6. 1941, ljósmóður. Þórunn er dóttir hjónanna Árna Guðmundssonar, f. 3.12. 1899, læknis og Ingibjargar Guðmundsdóttur, f. 2.4. 1907. Maki Ingibjargar Ernu er Helgi Ólafur Ólafsson líffræðingur, f. 25.6. 1961. Giftust þau 9. júní 1984. Börn þeirra eru: 1. Þórunn Helgadóttir, f. 8.9. 1985, sambýlismaður hennar er Arnór Viðar Baldursson prentari, f. 16.3. 1986. 2. Fanney Dagmar Helgadóttir, f. 3.2. 1990. 3. Helgi Freyr Helgason, f. 24.11. 1995. Sveinn lauk stúdentsprófi frá MR 1944, fyrrihluta-verkfræðiprófi frá HÍ og seinnihluta-verkfræðiprófi frá Danmarks Tekniske Höjskole 1949. Sveinn var verkfræðingur við Hitaveitu Reykjavíkur 1949, deildarverkfræðingur þar 1950-61 en hefur starfrækt eigin verkfræðistofu frá 1961. Sveinn var í ritnefnd Ökuþórs, tímarits FÍB 1950-52, var formaður FÍB 1952-56, í bygginganefnd Garðabæjar og formaður hennar í nokkur ár, í almannavarnanefnd Hafnarfjarðarumdæmis frá 1971 og formaður þar frá 1986, í stjórn Hagtryggingar hf. frá 1965-86, í landsþjónustunefnd AA-samtakanna frá 1994. Hann gekk í Rótarýklúbbinn Görðum 6. des. 1965 og gekk í Frímúrararegluna 1951, í stúkuna Eddu, varð síðan stofnfélagi stúkunnar Hamars í Hafnarfirði og fékk heiðursorðu. Sveinn hefur hlotið fjöldann allan af viðurkenningum, þ.á m. nýverið frá Lagnafélagi Íslands 18. sept. 2009 fyrir frumkvöðulsstarf við endurnýtingu varma með hönnun varmaskifta í hita- og loftræstikerfum. Útför Sveins Torfa fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 27. október 2009, og hefst athöfnin kl. 13.

Liðin er meira en hálf öld síðan leiðir okkar Sveins Torfa lágu saman. Ekki var tilefnið jákvætt. Gagnfræðaskóli Austurbæjar, Vörðuskóli, var ekki nema nokkurra ára gamall þegar í ljós kom að hitakerfi hússins var hrunið. Verkfræðileg mistök orsökuðu það að lagnir brunnu sundur á þessum stutta tíma. Verkefni okkar Sveins Torfa var að bæta úr þeim skaða, hans að hanna nýtt hitakerfi, mitt að leggja kerfið með góðum samstarfsmönnum. Sveinn Torfi var þá nýkominn heim eftir nám ytra, ég enn nemi í pípulögnum. Við þetta verkefni unnum við sumarlangt og tókst að ljúka því áður en skóli hófst að hausti.

Sveinn Torfi kom með talsverðum gusti inn í íslenskan lagnaheim, honum fylgdu tæknilegar nýjungar sem átti vel við mig að meðtaka. Á næstu árum vann ég mörg lagnaverk sem Sveinn Torfi hannaði og voru sum þeirra æði frumleg og full ástæða til að segja frá þeim áður en það verður of seint þó ekki verði gert hér. Geislahitun var þá mjög að ryðja sér til rúms og í nokkur ár voru slík hitakerfi helstu verkefni mín og flest voru þau hönnuð af Sveini Torfa.

Sveinn Torfi hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum og ekki síst á tæknilegum viðfangsefnum. Hann lá ekki á áliti sínu, það hvessti gjarnan ef honum fannst ekki nógu faglega staðið að verkum en hann sparaði heldur ekki hrósyrði ef honum fannst vel unnið.

Það er nokkuð langt um liðið síðan fundum okkar bar saman síðast. Það er mér ánægjuefni að hafa stuðlað að því að Sveinn Torfi fékk á þessu hausti viðurkenningu Lagnafélags Íslands fyrir lífsstarf sitt, það mátti ekki seinna vera og minnir okkur á hvað lífið er fallvalt.

Ég er þakklátur fyrir þau ár sem ég átti því láni að fagna að starfa með Sveini Torfa.

Ég sendi dætrum hans samúðarkveðjur.

Sigurður Grétar Guðmundsson

Látinn er Sveinn Torfi Sveinsson verkfræðingur og formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda frá 1952 til 1956.

Sveinn Torfi starfaði með FÍB í yfir hálfa öld, hugsaði stórt og fór ekki alltaf hefðbundnar leiðir að settu marki. Hann var gerður að heiðursfélaga og  sæmdur gullmerki FÍB fyrir áratuga óeigingjarnt starf.
Sveinn Torfi stundaði framhaldsnám í verkfræði við Kaupmannahafnarháskóla undir miðja síðustu öld og ferðaðist á þeim árum víða um Evrópu. Hann heillaðist af uppbyggingu Þýskalands, sem reis á örfáum árum úr stríðsrústum til nútíma efnahagsstórveldis. Sveinn Torfi hugsaði stórt fyrir hönd þjóðar sinnar og trúði á bjarta framtíð í krafti nýjustu tækni.
Sveinn Torfi tók við formennsku FÍB á tímum innflutningshafta og gjaldeyrisskorts. Undir forystu hins unga og framfarasinnaða verkfræðings tvíefldist félagið og félagsmönnum fjölgaði verulega. Hann var óþreytandi talsmaður þess frelsis sem bíllinn veitir til hvers konar athafna, ferðalaga og skemmtunar. Sveinn Torfi var einbeittur andstæðingur hafta og ríkisforsjár og barðist gegn ofursköttun bílsins langt umfram framkvæmdakostnað við umferðarmannvirki.
Sveinn Torfi hvatti til framsýni í vegagerð og var einn af frumkvöðlum lagningar olíumalar á vegi og götur sem var bylting í gerð slitlags á tímum óvandaðra malarvega og torfærra slóða. Hann skrifaði fjölda greina um hugðarefni sín vegamál, umferðaröryggi og bíltækni.
Stjórn og starfsfólk Félags íslenskra bifreiðaeigenda kveður með söknuði  sterkan liðsmann og leiðtoga sem alla tíð hafði hag bifreiðaeiganda að leiðarljósi. Félagið vottar afkomendum og ástvinum Sveins Torfa Sveinssonar samúð sína.

Stjórn og starfsfólk FÍB

Elsku afi, það er svo erfitt að kveðja.

Ég á svo margar góðar minningar frá ykkur ömmu. Það var alltaf best í heimi að koma í heimsókn til ykkar í Hraungarða. Það var svo vel tekið á móti manni, amma skellti í vöfflur og dró fram stellið og lagði fínt á borð og þú bauðst upp á skrifstofu-kók. Svo var setið og manni gefinn tími til að ræða um allt sem mann lysti á meðan kræsingunum var skolað niður.

Margt af því sem ég geri í dag er mótað af ykkur og þakka ég ykkur fyrir það, ég hef alltaf litið upp til ykkar. Það líður varla sá dagur er ég hugsa ekki um þá tíma sem þið voruð með opna arma og voruð svo þakklát fyrir að ég skyldi nenna í heimsókn til svona gamals fólks en það voru þið sem gáfuð mér svo mikið, að það er ég sem er þakklát.

Ég náði að kveðja þig elsku afi á Hrafnistu kvöldið áður en þú kvaddir og þrátt fyrir að þú værir í djúpum svefni og ættir erfitt með andardrátt hélstu þéttingsfast í hendina á mér og vil ég trúa því að þú hafir vitað af mér þarna grátandi þér við hlið.

Ég vona innilega að þið amma séuð á góðum stað saman og ykkur líði vel, því með því er auðveldara að halda áfram og skilja að svona sé lífið. Þið lifðuð frábæru athafnasömu lífi og fenguð að kynnast barnabarnabörnum sem eiga eftir að muna eftir ykkur sem og við öll hin. Ykkar er og verður sárt saknað.

Ykkar barnabarn

Linda Einarsdóttir