Einar Gíslason fæddist á Akranesi 7. nóvember 1944. Hann lést á heimili sínu, Brekkuflöt 2 á Akranesi, 15. september sl. Foreldrar hans voru Gísli Brynjólfsson, f. 5.8. 1906, d. 3.3. 2000 og kona hans Sigríður Jónsdóttir, f. 24.8. 1916, d. 8.4.1986. Systkini Einars eru Einar Bragi, f. 1938, Brynhildur, f. 1941, Steinunn, f. 1950, Þorbjörn, f. 1955 og Jón, f. 1955. Einar kvæntist 28.10. 1967 Auði S. Óskarsdóttur frá Neskaupstað. Foreldrar Auðar voru Óskar Sigfinnsson skipstjóri og Guðný Þóra Þórðardóttir. Börn Einars og Auðar eru: 1) Gísli, f. 26.1. 1967, fréttamaður. Kona hans er Guðrún Hulda Pálmadóttir. Þau búa í Borgarnesi og eiga 3 börn, Rakel Bryndísi, Rúnar og Kára. 2) Sigríður, f. 17.2. 1969, hjúkrunarfræðingur. Unnusti hennar er Geir Harald Fredrikssen. Sigríður býr í Noregi og á 3 dætur, Særós, Auði og Júlíu. 3) Brynjólfur Óskar, f. 10.7. 1970, málari. Unnusta hans er Berglind Guðmundsdóttir. Brynjólfur býr á Lundi í Lundarreykjadal. 4) Kristín Sigurrós, f. 3.4. 1974, kennari. Eiginmaður hennar er Alfreð Gestur Símonarson. Þau búa á Hólmavík og eiga 2 syni, Einar Friðfinn og Símon Inga. Sonur Alfreðs er Jóhannes Helgi og dóttir Jóhannesar er Louisa Lind. 5) Ástríður, f. 29.1. 1976, kennari. Eiginmaður hennar er Guðmundur Hrafn Björnsson. Þau búa á Hvanneyri og eiga 3 börn, Ísar Þorra, Guðmund Pétur og Hrafnhildi Sögu. Dóttir Auðar er Anna Guðný Sigurgeirsdóttir, f. 3.10. 1962, kennari. Anna Guðný býr á Akureyri og á 2 börn, Önnu Rósu og Sigurgeir. Unnusti Önnu Rósu er Jón Viðar Þorvaldsson. Einar ólst upp á Miðsandi á Hvalfjarðarströnd fyrstu æviárin. Árið 1952 flutti fjölskyldan að Lundi í Lundarreykjadal. Foreldrar hans stunduðu búskap og ólust þau systkinin upp við hefðbundin sveitastörf. Einar gekk í farskóla í sveitinni og lærði á unglingsárum vélvirkjun við Iðnskólann á Akranesi og Skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts. Eftir að hann lauk meistaraprófi í vélvirkjun vann hann meðal annars austur á fjörðum þar sem leiðir hans og Auðar lágu saman. Einar og Auður hófu búskap á Lundi í Lundarreykjadal 1967 og byggðu nýbýlið Lund 2. Bjuggu þau félagsbúi með foreldrum Einars og Þorbirni bróður hans, auk þess sem Einar vann hjá Vélabæ í Bæjarsveit. Árið 1984 flutti fjölskyldan í Bæjarsveit og þaðan á Akranes árið 1988. Gísli faðir Einars og Þorvaldur föðurbróðir Einars bjuggu báðir hjá þeim um nokkurra ára skeið. Á Akranesi sneri Einar aftur til starfa hjá Þ&E og fleiri fyrirtækjum. Frá árinu 1996 starfaði hann hjá Ístaki, þar sem hann lauk starfsævi sinni. Útför Einars verður gerð frá Akraneskirkju í dag, 22. september, kl 14.

Við vorum svo lánsöm fjölskyldan að eiga Einar og fjölskyldu að í slag okkar fyrir bættum lífsgæðum okkar sem erum MND veik. Reyndar voru kynnin allt of stutt eins og vill verða hjá okkur. Það græddu allir á kynnum sínum af Einari. A.m.k. við. Takk fyrir okkur.

Ljóð sem lýsir vel hvað skiptir máli í lífinu á vel við á þessum degi.

Sæluhús

eru bara í óbyggðum þessa lands

Gamalt kex

Saggi

Feitar ryðgaðar niðursuðudósir

Prímusinn bíður þess albúinn

að hvissa bláum loga

Reka saggann burt

Hita vatnið hita andrúmið

Hita andlit okkar og hendur

En við þyrftum ekki síður sæluhús

hér í byggðinni

Ekki útaf kexi og niðursuðudósum

af þeim höfum við nóg

nei, við þyrftum þetta orð

Sæluhús

og við þyrftum þennan loga

sem rekur burt saggann

hitar andlit okkar og hendur

hitar andrúmið

hitar andrúmið milli okkar

þegar við komum kalin heim.

(Sigurður Pálsson)

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Guðjón og Halla.

Ég kynntist Einari fyrst er ég veturinn 1969 þurfti að fá viðgerð á bíl sem ég átti. Þetta leysti hann vel af hendi. Leiðir okkar lágu síðan saman næstu árin eftir að ég fór að læra í Bæ og seinna varð hann meistari minn í vélvirkjun.

Það leiddist engum í nágrenni Einars , hans séstæði húmor og meðfætt skopskyn drógu oftar en ekki fram aðrar hliðar á mannlífinu en flestir horfðu á.

Einar var gæfumaður í einklífinu , fann sína Auði austur á fjörðum og saman eignuðust þau síðan hóp af hraustum og fyrirferðarmiklum börnum.

Ekki held ég að Einar hafi fundið sig í búskapnum enda urðu vélarnar, viðgerðir og smíðar tengdar þeim hans ævistarf.

Eftir að ég flutti alfarið úr Borgafirðinum um 1980 urðu tengslin minni en alltaf gaman að hittast. Að leiðarlokum er þú nú kveður Einar eftir erfið veikindi vil ég þakka fyrir þína góðu nærveru í okkar samskiptum og þann þátt sem þú áttir í að móta mína framtíð.

Kæra Auður börn , tengdabörn og barnabörn sendi ykkur mínar einlægu samúðarkveðjur.

Trausti Ingólfsson.

Trausti Ingólfsson.

Ég kynntist Einari fyrst veturinn 1969 er ég þurfti að fá viðgerðan bíl sem ég átti og fór með bílinn til Einars í Bæ. Þetta verk leysti hann vel af hendi.

Leiðir okkar lágu síðan saman næstu árin eftir að ég fór að læra í Bæ og seinna varð hann meistari minn í vélvirkjun.

Það leiddist engum í návist Einars , hans sérstæði húmor og meðfætt skopskyn drógu oftar en ekki fram aðrar hliðar á mannlífinu en flestir horfðu á.

Einar var gæfumaður í einkalífinu, fann sína Auði ungur austur á Fjörðum og saman stofnuðu þau heimili á Lundi þar sem þau áttu sinn hóp af hraustum og fyrirferðarmiklum börnum.

Ekki held ég að Einar hafi fundið sig í búskapnum enda urðu vélarnar, viðgerðir og smíðar tengdar þeim hans ævistarf.  Eftir að ég flutti alfarinn úr Borgarfirðinum um 1980 urðu tengslin minni en alltaf var gaman að hittast.

Að leiðarlokum er er þú nú kveður Einar eftir erfið veikindi vil ég þakka þér fyrir þína góðu nærveru í okkar samskiptum og þann þátt sem þú áttir í að móta mína framtíð.

Kæra Auður, börn, tengdabörn og barnabörn sendi ykkur mína einlægu samúðarkveðjur.

Trausti Ingólfsson