Eyjólfur Jóhannsson prentari, fæddist á Fæðingardeildinni í Reykjavík 13. maí 1949. Hann lést sunnudaginn 13. september. Foreldrar hans eru Jóhann Eyjólfsson framkvæmdastjóri, f. 19. maí 1919, d. 3. janúar 2006 og fyrri kona hans Elísabet Markúsdóttir, f. 15. júlí 1924. Síðari kona Jóhanns er Fríða Valdimarsdóttir, f. 20. október 1936. Bróðir Eyjólfs er Markús, f. 25. febrúar 1951 og samfeðra systur eru Hanna Fríða, f. 13. mars 1960 og Helga f. 26. október 1963. Fyrri kona Eyjólfs er Guðlaug Kristmundsdóttir, f. 6. janúar 1951. Foreldrar hennar eru Kristmundur Stefánsson, f. 20. janúar 1912 d. 22. nóvember 1993 og Sigurlína Sigurðardóttir f. 15. janúar 1919. Sonur þeirra er Jóhann, f. 8. október 1968. Síðari kona Eyjólfs er Ingibjörg Lydía Yngvadóttir, f. 18. október 1960. Foreldrar hennar eru Yngvi Örn Guðmundsson, f. 19. desember 1938 og Sigrid Anna Jósefsdóttir Felzmann, f. 8. október 1942. Synir þeirra eru Eyjólfur, f. 4. desember 1979, Daði, f. 17. febrúar 1981, unnusta hans er Eva Dröfn Ólafsdóttir, f. 24. febrúar 1987 og Andri, f. 29. október 1985, unnusta hans er Hulda Dröfn Atladóttir, f. 25. júní 1982 og dóttir hennar er Eva Sigríður Jakobsdóttir, f. 5. júní 2004. Eyjólfur nam prentiðn við Iðnskólann í Reykjavík og starfaði fyrst um sinn hjá Borgarprenti og svo hjá Ísafoldarprentsmiðjunni. Mest allan sinn prentaraferil starfaði hann hjá Svansprenti í Kópavogi en einnig nokkur ár hjá Vörumerkingu í Hafnarfirði og Prentmeti í Reykjavík. Eyjólfur var mikill golfari á sínum yngri árum. Hann varð fyrsti Íslandsmeistari unglinga árið 1964 og var virkur meðlimur í Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði í mörg ár. Eyjólfur verður jarðsunginn frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, þriðjudaginn 22. september og hefst athöfnin kl. 13.

Á leið úr sumarbústað komum við Andri bróðir og kærastan hans, Hulda Dröfn, við á Þingvöllum til að tína haustlauf í fyrirhugað listaverk Andra. Þoka lá yfir völlunum og haustlitirnir innan um kynjamyndir hraunklettanna voru svo skærir og fallegir að þeir minntu á málverk meistaranna. Við fundum laufin sem voru veðurbarin eftir vætu og vinda haustsins en líka þau sem voru rauð af sælu eftir sól og blíðu sumarsins. Þennan sama sunnudag varð okkur ljóst að faðir okkar hafði ákveðið að kveðja þennan heim.

Bænum okkar er svarað á óútreiknanlegan hátt og pabbi hefur nú fengið sína lausn. Lífið er brekka segja sumir. Pabbi mátti mæta háum og bröttum brekkum á lífsleiðinni sem reyndust honum erfiðar. Mikil veikindi, bæði líkamleg og andleg, höfðu herjað á hann undanfarin ár og hafði hann oft sýnt ótrúlegan batavilja og þrautseigju.

Þrátt fyrir mótbárur var pabbi með lífsglaðari mönnum og gat snúið nánast hverju sem var upp í stórkostlegan brandara. Hann hafði næmt auga fyrir glettni og húmor hversdagslífsins. Hann naut vinsælda á vinnustöðum og segir sagan að vinnufélagar hafi átt það til að leita til pabba með vandamál í einkalífinu. Pabbi hafði einstakt mannlegt innsæi og var í raun mikill mannvinur. Gat komið auga á rót vandamála annarra og hvernig best væri að vinna úr þeim, en eins og svo oft er hundsaði hann iðulega sín eigin.

Pabbi varðveitti vel barnið í sjálfum sér og var uppátækjasemin eftir því. Hann átti til að skemmta okkur bræðrunum og vinum okkar með mjög eftirminnilegum hætti. Pabbi var alltaf mikið gefinn fyrir golf og naut þeirrar íþróttar mikið. Sú ástríða náði langt út fyrir golfvöllinn á Hvaleyrinni og einn góðan sumardag kemur upp galsi í pabba, hann nær í dræverinn úr golfpokanum, skundar út í garðinn gegnt slippnum, kallar í okkur guttana og glottir. Hann kemur hvítu kúlunni haganlega fyrir á grasfletinum, mundar kylfuna og slær kúlunni á ógnarhraða yfir umferðaþyngstu götu bæjarins og útí sjó. Þetta þótti okkur drengjunum óendalega skemmtileg uppákoma og var Strandgata 79 vitni að mörgum slíkum.

Íþróttaáhugi pabba staðnæmdist ekki við golf heldur hafði hann einstaklega gaman að flestum boltaíþróttum. Hann var félagi í Val frá fæðingu og þótti á sínum tíma afar efnilegur knattspyrnumaður. Daði bróðir erfði boltafimina frá pabba og æfði innan- og utanhússfótbolta með Haukum í mörg ár. Pabbi tók virkan þátt í foreldrastarfinu og þó svo hann hafi aldrei verið neitt sérlega morgunhress var hann alltaf fyrsta foreldrið sem fór á fætur, sama hvernig viðraði, til að skutla Haukapollum á æfinga- og keppnisleiki. Heimilisbíllinn, tékkneskur Skódi, reyndist illa í frosti og þegar frostbitnar hurðirnar vildu ekki lokast aftur var eina ráðið að binda í þær spotta og láta fótboltaguttana halda í á meðan ekið var á áfangastað og þótti mikið gaman. Pabbi reyndist Daða einstaklega vel á sínum fótboltaárum og stendur hann í mikilli þakkarskuld fyrir alla hans hjálp og stuðning sem var honum ómetanlegur.

Þó svo að hugðarefni pabba hafa meira legið á íþróttasviðinu var hann engu að síður liðtækur og hvetjandi þegar kom að tónlistarnámi mínu. Þegar ég var átta ára fékk ég þá flugu í höfuðið að læra á þverflautu. Viku síðar, á laugardegi, ákveður pabbi að drífa mig niður í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar sem þá var staðsettur á Strandgötunni. Húsið var opið og við göngum á flaututóna á annarri hæð sem koma frá stofu eitt. Pabbi bankar á milli flautustróka og til dyra kemur núverandi skólastjóri, Gunnar Gunnarsson, og tók okkur vel en þótti þetta harla óvenjuleg umsókn um skólavist. Gunnar féllst á að leyfa mér að prófa að blása í munnstykki flautunnar og vita hvort kæmi tónn. Loftkenndur byrjandatónninn fyllti stofu eitt og úr varð að ég komst að sem flautunemandi hjá Gunnari. Pabbi minntist oft stoltur á þessa litlu en örlagaríku ferð okkar í Tónlistarskólann, minning sem er mér afar kær.

Pabbi var afskaplega litríkur karakter. Hann bjó yfir sannleiksást sem átti sér margar fallegar birtingarmyndir en átti þ.a.l. mjög erfitt með hvers kyns hroka og hræsni. Hann var mjög blátt áfram í samskiptum og átti það til að koma við kaunin á samferðafólki með hispursleysi sínu. Hann brýndi það oft fyrir okkur bræðrunum að vera góðir við lítilmagnann og eru til margar sögur um góðvild pabba í garð þeirra sem minna máttu sín. Hann bjó við mikið tilfinningaríki og átti auðvelt með að setja sig í spor annarra. Þegar Jói bróðir upplifði sína fyrstu ástarsorg á unglingsaldri leitaði hann huggunar til pabba. Hann sagði honum frá sinni eigin reynslu af svipuðum toga og hvernig hann hefði tekist á við hana. Stuttu eftir fyrsta sambandsslit pabba var hann staddur í miðju golfmóti þegar hann sagðist hafa fengið eitthvað í augað og þyrfti að hætta keppni. Hann fór á afvikinn stað og grét af sorg það sem eftir var dags. Jói fann mikla huggun í að vita til þess að pabbi sinn hefði grátið, því aldrei hafði hann séð hann gráta.

Það eru margar góðar minningar sem koma í hugann þegar litið er yfir lífshlaup pabba. Hann átti nokkur heimatilbúin gullkorn sem hann fleygði fram við hin ýmsu tækifæri. Það eftirminnilegasta og kannski það sem lýsir honum best er einmitt það sem hann naut svo innilega að segja kíminn á svip: Það er bara einn orginal - allir hinir eru feik!"

Pabbi kom í þennan heim að vori til og kvaddi að hausti. Rétt eins og lauf vallarins sem gægjast undan vetrarríkinu og færa okkur von og birtu sumarsins. Sumrin eru allt of fljót að líða og fyrr en varir litast laufin af komu haustsins, visna og deyja. Við tökum á móti vetrinum og bíðum eftir vorinu.

Guð gefi dánum ró en hinum líkn sem lifa.

F. h. okkar bræðra


Eyjólfur Eyjólfsson