Eggert Þór Steinþórsson fæddist í Stykkishólmi 4. janúar 1945. Hann lést á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut 8. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans eru Steinþór Viggó Þorvarðarson og Halldóra Jónsdóttir, búsett í Stykkishólmi. Systkini Eggerts Þórs: Jón Ólafur, Þorgerður, Jónas, Þorvarður Ellert og María. Eggert Þór kvæntist Hannesínu Rut Guðbjarnadóttur 26. júlí 1969. Foreldrar hennar voru Guðbjarni Sigmundsson og Guðný Magnúsdóttir, Ívarshúsum Akranesi. Börn Eggerts Þórs og Hannesínu Rutar eru: 1 ) Guðný bankastarfsmaður, f. 1969, gift Hilmari Sigurjónssyni. Börn þeirra eru Aníta Rut, Andri Snær og Aron Orri. 2) Steinþór Viggó húsasmiður, f. 1971. Börn hans eru Karen Rósa, Eggert Þór og Arnar Daði. 3) Guðbjarni lögmaður, f. 1977, í sambúð með Sigrúnu Rós Elmers. Börn þeirra eru Kjartan Oliver, Baltasar Logi og óskírður Guðbjarnason. Eggert Þór var uppalinn í Stykkishólmi og lauk þaðan gagnfræðaskólaprófi. Hann lærði húsasmíði og lauk sveinsprófi árið 1966 og meistaraprófi 1969 og starfaði sjálfstætt við húsasmíði allt til ársins 1990 er hann hóf störf hjá viðhaldsdeild Háskóla Íslands sem byggingarstjóri Háskólans. Síðustu ár starfaði Eggert Þór sem umsjónamaður fasteigna hjá Háskóla Íslands. Eggert Þór starfaði innan Frímúrarareglunnar á Íslandi og var einn af stofendum St. Andrésarstúkunnar Heklu. Á sínum yngri árum lék Eggert Þór körfubolta með meistaraflokki Snæfells. Útför Eggerts Þórs verður gerð frá Seljakirkju í dag, 17. apríl 2009, kl. 13.

HINSTA KVEÐJA

Starfsfélagi okkar Eggert Þór Steinþórsson hefur kvatt og hoggið stórt skarð í okkar hóp. Um leið og við þökkum viðkynninguna og samstarfið sendum við fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Starfsfélagar í Háskóla Íslands.


Grát og trega greina má,
gerast drengir hljóðir,
þegar nú er fallinn frá,
félagi, vinur, bróðir.

Það er samheldinn hópur sem starfar á Minjasafni Frímúrarareglunnar og þess vegna er það skarð fyrir skildi þegar við verðum að sjá á eftir styrkum hlekk í bræðrahópnum.
Eggert Þór hefur kvatt okkur að sinni en minningin um góðan dreng lifir. Þéttur á velli og þéttur í lund, glaðlyndi og hjálpsemi einkenndi Eggert Þór. Hann starfaði á Minjasafni Reglunnar í átta ár og það var ekki ónýtt að hafa slíkan mann innanborðs. Við bræður á Minjasafninu erum þakklátir fyrir að hafa notið krafta hans, nærveru og áhuga. Við sannarlega þörfnust fleiri manna eins og hans.
Megi höfuðsmiðurinn gæta hans og varðveita á nýjum vegum og veita eftirlifandi eiginkonu, börnum og fjölskyldu styrk í sorg þeirra.




Bræður á Minjasafni Reglunnar.

Eggert Þór Steinþórsson var umsjónarmaður Læknagarðs Háskóla Íslands undanfarin 10 ár að mig minnir, en þar var líka vinnustaður minn til skamms tíma.  Í því húsi eru unnin margvísleg störf, þar sækja nemendur ýmissa heilbrigðisgreina  fyrirlestra og verklega kennslu, þar er lesaðstaða nemenda og þar eru unnin skrifstofustörf, rannsóknastörf, og margvísleg önnur.  Umsjónarmaður þarf því að leysa ólík mál og eiga mikil samskipti.  Þeir umsjónarmenn sem hafa starfað þar gegnum árin hafa verið mjög færir, en þeirra allra færastur var eflaust Eggert Þór, en hann hafði áður verið byggingastjóri Háskólans og þar á undan sjálfstætt starfandi húsasmiður.  Það er því mikill skaði að fráfalli hans fyrir aldur fram.

Starfi mínu var þannig varið að ég hafði mikil samskipti við Eggert Þór, og yfir veturinn var ekki óalgengt að ég hringdi daglega til hans til að bera undir hann eitthvað, t.d. í sambandi við kennsluhúsnæði okkar á Lífeðlisfræðistofnun, eitthvað sem vantaði til að verklega kennslan gæti farið fram eins og til stóð.  Var jafnan auðvelt að ná til hans, hann var alltaf með farsíma sinn við hendina.   Ef vel á að vera þurfa umsjónarmenn að vera mikið á fartinni innanhúss og vera aðgengilegir.  Okkar samskipti voru afar ánægjuleg, þar bar aldrei skugga á.  Vandamálum var tekið á sama rösklega og lipurlega hátt, og ekki spöruð sporin að koma á staðinn til að líta á með eigin augum.  Alltaf var hann  fumlaus og úrræðagoður.  Þess vegna held ég að hann hafi lagt sig fram við starfið, jafnvel þótt það hafi ekki verið eins stórt í sniðum og á árum áður.  Hann var áreiðanleikinn uppmálaður, sagði reyndar stundum:   Best að ég geri þetta strax til að ég gleymi því ekki, maður er orðinn svo gamall".

Það sem einkenndi hann í samskiptum var létt og ljúflegt viðmót og mjög þægileg glettni.   Hann hafði gaman af að ræða landsins gagn og nauðsynjar".  Eins og gengur var hann ekki alltaf ánægður með háskólann, mannlífið eða þjóðlífið, en fjölyrti ekki um það, hann var orðvar, en undir niðri fann maður ríkt skap.

Það er með þakklæti að ég kveð Eggert Þór.  Ég og maður minn, Þór, votta eiginkonu hans, börnum og tengdabörnum samúð okkar.

Jóhanna Jóhannesdóttir.