Vilborg Ingvarsdóttir fæddist að Skipum við Stokkseyri 18.6.1918. Hún lést á Landspítala Landakoti 6.4.2009. Foreldrar Vilborgar voru Ingvar Hannesson, f. 10.2. 1878, d. 16.05.1962, og Guðfinna Guðmundsdóttir, f. 22.8. 1887, d. 16.5.1974, bændur á Skipum við Stokkeyri. Fyrri kona Ingvars var Vilborg Jónsdóttir, f. 2.4.1878, d. 3.8. 1916. Með henni átti Ingvar fimm börn, þau Sigurbjörgu, f. 19.1. 1910, Margréti, f. 23.5. 1911, d. 18.8. 2003, Jón, f. 28.8. 1912, d. 8.5.2008, Gísla, f. 3.12. 1913, d. 28.02. 1941, og Bjarna, f. 2.12.1915, d. 20.5. 1999, ættleiddur til Konráðs Konráðssonar læknis. Alsystkin Vilborgar eru sjö: Guðmundur, f. 1920, dó í æsku, Hannes, f. 31.3. 1922, d. 22.2. 2008, Sigtryggur, f. 26.9. 1923, Guðmunda, f. 30.5. 1925, d. 9.12. 2004, Sigríður, f. 12.10. 1928, Pétur Óskar, f. 3.12.1930, d. 9.0. 2007, og Ásdís, f. 10.1. 1933. Vilborg vann við bú foreldra sinna til tvítugs, þegar hún hóf vinnu við saumaskap á vetrum en vann við búið öll sumur. Síðar vann Vilborg til margra ára við saumaskap. Vilborg byrjaði búskap 1950 með manni sínum, Jóni Ragnari Þórðarsyni, f. 9.6. 1921, d. 22.1. 1970, og eignaðist með honum tvo syni. 1) Gunnar Þjóðbjörn, f. 1.5.1950. Kona hans er Ólöf Sigríður Guðmundsdóttir og eiga þau fjögur börn og sjö barnabörn. Þau eru: a) Jón Ragnar, kvæntur Huldu S. Jóhannsdóttur, eiga þau þrjú börn: Vilborgu Lóu, Jóhann Val og Arnald Gunnar. b) Sandra Borg, gift Borgari H. Árnasyni, börn þeirra eru Þorsteinn Már, Anton Ingi, Alma Maggey og Stefán Logi. c) drengur, dó í fæðingu og d) Berglind, í sambúð með Ólafi Snæbjörnssyni og saman eiga þau lítinn dreng, óskýrðan. 2) Guðmundur. Kona hans er Björk Kolbrún Gunnarsdóttir. Þau eignuðust þrjú börn, a) Jón Gunnar, sem dó ungur, b) Eva Dögg, gift Þorbirni Ingasyni. Saman eiga þau Tómas Friðrik og c) Embla Ýr, gift Daníel Frey Atlasyni. Vilborg verður jarðsungin frá Fossvogskirkju í dag, 15. apríl 2009, kl 13.

Látin er í Reykjavík föðursystir mín Vilborg Ingvarsdóttir. Hún ólst upp á Skipum í Stokkseyrarhreppi í hópi systkina sinna við ástríki foreldra sinna. Afi minn missti fyrri eiginkonu sína 1916 frá 5 börnum og eitt þeirra barna var faðir minn, sem ólst upp annars staðar, en vissi alltaf hvar uppruninn var og kunningsskapur var alla tíð við Skipaheimilið. Seinni eiginkona afa var Guðfinna Guðmundsdóttur og Vilborg var elst þeirra barna sem urðu 8. Þrjár af systrum pabba bjuggu um tíma í Þingholtsstræti í herbergi sem var uppi á lofti og brá ég mér oft þangað til þess að hitta þær Borgu, Mundu og Stellu. Þær voru mér alltaf afskaplega góðar. Þær voru allar bráð myndarlega bæði til munns og handa.
Borga átti heima um tíma á Lokastíg eftir að hún giftist manni sínum og eignaðist tvo myndlega drengi. Oftlega var ég send til Borgu í ýmsum erindagerðum, sem ég man nú ekki gjörla, en hef grun um að það hafi eitthvað tengst saumskap. Hún var meistari í kjólasaum og vann við sauma. Eftir að pabbi missti mömmu átti hann stundum erindi við Borgu og hafa þau sennilega mörg verið í sambandi við viðgerðir á fatnaði. Allt þetta leysti hún ljúflega af hendi. Borga var ákaflega orðvör og vönduð kona. Í áratugi studdi hún bróður sinn Pétur sem gekk ekki heill til skógar og á hún miklar þakkir skyldar fyrir elskusemi og þolinmæði í hans garð. Sl. sumar var haldið upp á 90 ára afmælið hennar í sumarhúsi Guðmundar sonar hennar að Skipum. Veður var bjart og fallegt þann dag og ég var svo heppin að vera einn af afmælisgestunum. Þar voru afkomendur hennar allir mættir og búnir að koma fyrir viðlegubúnaði af ýmsu tagi, sem ég kann ekki að nefna. Eftirlifandi systkini voru einnig þarna og nokkrir afkomendur þeirra. Það var notalegt að eiga þessa samverustund með þessu fólki öllu saman. Það var grillað og farið í leiki úti. Börnin nutu sín og allir voru glaðir og sáttir ekki síst afmælisbarnið, sem gat notið samvistanna við afkomendur og skyldmenni. Ég votta Gunnari, Guðmundi og öðrum aðstandendum mína innilegustu samúð. Blessuð sé minning hennar.

Sigríður Bjarnadóttir.

Elsku amma.

Þú varst fyrirmynd okkar systranna á svo margan hátt.

Afi féll frá ungur og allar götur síðan sást þú ein um uppeldi sona þinna, sinntir starfi og heimili af einstakri snilld. Þú varst glæsileikinn uppmálaður - varst eins og Hollywoodstjarna á myndunum frá því í hússtjórnarskólanum og heimilið þitt var alltaf til fyrirmyndar. Það var gott að koma í heimsókn á Nýbýlaveginn. Fá sér nýbakaðar kökur með kaffinu og spjalla um daginn og veginn.

Þú vannst við saumaskap alla tíð og saumaðir jóla-, fermingar- og dúkkukjóla fyrir okkur systurnar allt í stíl. Pelsinn sem þú saumaðir á mömmu var og er enn nýjasta tíska. Við notum enn stoltar sín hvora loðhúfuna úr þinni smiðju.

Þú varst sjálfstæð og ótrúlega sterk kona. Sinntir heimilinu ein þrátt fyrir háan aldur og þverrandi heilsu. Þó að sjónin gæfi sig á síðustu árum og hjartað væri orðið þreytt léstu það ekki stoppa þig. Við gleymum ekki sumrunum sem við unnum saman að því að reisa sumó á Skipum. Þú bruddir bara sprengitöflurnar en hélst ótrauð áfram án þess að segja orð. Líkaminn gaf sig þó að lokum en hugurinn aldrei.

Þú getur verið viss um að minning þín lifir með okkur fjölskyldunni. Við höfum öll bundist Skipum tryggðarböndum og heyrt skemmtilegar sögur af sundkennslu í lónunum og leikuppfærslum í sveitinni.

Við eigum alltaf eftir að kíkja í gluggann á Nýbýlaveginum þegar við förum þar hjá og minnast þess með bros á vör þegar við komum að sækja þig. Þú sast ALLTAF tilbúin fullklædd við gluggann til að láta ekki bíða eftir þér. Eitthvað sem við systurnar þyrftum að læra af þér.

Elsku amma. Nú leggst þú til hinstu hvílu. Við vonum það heitt og innilega að þú vitir hug okkar, ástina og hlýjuna sem við berum í þinn garð.

Góða nótt.
Guð geymi þig.
Dreymdu fallega.
Sofðu vel.
Við elskum þig.


Eva og Embla.

Okkur langar til að minnast ömmu okkar og langömmu í örfáum orðum.

Þær eru ófáar stundirnar sem við áttum í æsku á Nýbýlaveginum og lékum okkur með dótið hennar ömmu sem var í kökuboxinu, tölur, skeljar, fiskar, tvinnakefli og ýmislegt annað sem okkur þótti hinn mesti fjársjóður, dót sem börnunum okkar þykir alveg jafn merkilegt.  Gistinætur hjá ömmu voru alltaf notalegar iðulega útbjó hún brauð í ofni með ananas og osti, þetta þótti okkur hið mesta lostæti. Ekki má gleyma ferðum í Brekkuval þar sem fjárfest var í smá gotteríi og gosi til að eiga huggulega stund yfir kvölddagskrá RÚV. Þegar það kom að því að fara í háttinn máttum við systur alltaf velja úr náttkjólunum hennar ömmu, þykkir og góðir bómullarnáttkjólar, það þótti okkur einkar skemmtilegt. Diskólampinn", með lituðu perunum, var líka ótrúlega flottur og vinsæll.

Kökurnar hennar ömmu líða seint úr minni og hafa margir reynt að leika eftir hnoðuðu lagkökunni en fáum tekist. Það var alveg sama hvenær maður kom til hennar þá var hún alltaf búin að reiða fram dýrindis bakkelsi innan örfárra mínútna.

Amma nam saum við Iðnskólann og vann við það til fjölda ára og höfum við öll fengið að njóta afrakstursins, bútasaumsteppi, sloppar, dúkkuföt, pels, dragt og svo mætti lengi telja. Þar var mikil natni lögð í verkið og ekkert gert í hálfkáki. Hún amma var með eindæmum vandvirk og eru flíkur sem hún saumaði á sjálfa sig fyrir 40 árum síðan enn í góðu gildi og hin mesta gersemi fyrir okkur uppkomin barnabörn hennar.

Amma var afskaplega nýtin, hógvær og hagsýn, hún eyddi sáralitlu í sjálfa sig en var mjög örlát í garð annarra, hún gaf veglegar gjafir og m.a. bauð hún sonum sínum og fjölskyldum þeirra til Portúgal í ógleymanlega skemmtiferð.

Ömmu þótti alltaf gaman að vera innan um fjölskyldumeðlimina og ekki hvað síst þá yngstu. Það var sérstaklega gaman að fagna níræðisafmæli hennar síðastliðið sumar ásamt allri fjölskyldunni, systkinum hennar, frændfólki, börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Veisluhöldin stóðu yfir heila helgi í yndislegu veðri á æskuslóðum hennar að Skipum. Þar var mikið hlegið og haft gaman. Þetta sama sumar fórum við systur með ömmu í kvennahlaupið, í grenjandi rigningu, þar sem hún fékk viðurkenningu fyrir að vera elsti þátttakandi í kvennahlaupinu í Garðabæ þetta árið. Amma var ekki ekki á því að láta rigninguna stoppa sig og tók stolt við viðurkenningunni í fylgd barnabarnabarnanna sinna sem voru afar stolt af langömmu sinni.

Amma var sjálfstæð, aldrei upp á aðra komin og afar fjölhæf, hún var bakari, hönnuður og mikil handverkskona. Hún var sönn og reyndist okkur alltaf vel. Hún var elskuð og dáð, hennar verður sárt saknað.

Ég veit þú ert þar sem ekkert er húm

en allt eins og barnið þú sefur.

Við leggjum þig út af í uppbúið rúm

því unnið til hvíldar þú hefur.

Oss finnst eins og dimmi sem nálgist nótt

sem nánast þú hefur í minni.

Sofðu í friði, sofðu nú rótt

í síðustu hvílunni þinni

(Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum)

Hvíl í friði elsku amma okkar.

Sandra Borg Gunnarsdóttir, Berglind Gunnarsdóttir, Jón Ragnar Gunnarsson, makar og börn.