Margrét Guðmundsdóttir fæddist á Leiðólfsstöðum í Laxárdal í Dalasýslu 16. mars 1922. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 10. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Guðmundur Guðbrandsson, bóndi og silfursmiður á Leiðólfsstöðum, f. 1886, d. 1960, og Sigríður Einarsdóttir, f. á Hróðnýjarstöðum 1892, d. 1982. Þau eignuðist fimm börn. Systkini Margrétar í aldursröð: Jófríður, f. 1913, d. 2003, Kjartan, f. 1916, Ingiríður, f. 1917, d. 2002 og Ragnar, f. 1929. Margrét giftist árið 1942 Ingva Eyjólfssyni, frá Sólheimum, f. 1915, d. 1994 og hófu þau búskap á Leiðólfsstöðum og eignuðust einn son. Þau skildu. Margrét hóf búskap í Reykjavík árið 1947 með Sigurði Ragnari Björnssyni frá Þorbergsstöðum í Laxárdal, f. 14.6. 1921, d. 1.7. 2002. Foreldrar hans voru Hólmfríður Margrét Benediktsdóttir, f. á Þorbergsstöðum í Laxárdal 1891, d. 1970, og Björn Magnússon, f. á Sveinsstöðum á Snæfellsnesi 1885, d. 1938. Sigurður og Margrét giftu sig 1. júlí 1956. Börn Margrétar eru: 1) Svanur Ingvason, f. 11.7. 1943, maki Rán Einarsdóttir, f. 1944. Dætur þeirra eru Helga Björg, f. 1968, d. 2005, maki Árni Örn Stefánsson, þeirra börn eru Heiðar Már og Una Svava; og Harpa Rut, f. 1975, maki Ólafur Hálfdánarson, þeirra börn eru Hekla, Andri og Sindri. 2) Sigmar Hlynur Sigurðsson, f. 26.2. 1948, maki Anna Guðný Guðjónsdóttir, f. 1952. Fyrrverandi maki er Sæunn Eiríksdóttir, f. 1948. Börn þeirra eru: Berglind, f. 1973, maki Indriði Freyr Indriðason, þeirra sonur er Benedikt Logi; Sigurður Grétar, f. 1979, maki Sara Lynn Schill, þeirra dóttir er Ella Birna; og Sóley, f. 1989. 3) Eygló Björk Sigurðardóttir, f. 31.8. 1949, fyrrverandi maki Rafn Baldursson, f. 1946, dætur þeirra eru Margrét Ögn, f. 1967; og Hrund, f. 1969, maki Rúnar Matthíasson, synir þeirra eru Arnór Fannar, Bergur Elí og Bjarki Rafn. 4) Elfa Brynja Sigurðardóttir, f. 6.8. 1958, maki Sigfús Haraldsson, f. 31.7. 1955. Fyrrverandi maki Þorleifur Thorlacius Sigurjónsson, f. 1958, sonur þeirra er Brynjar Örn, f. 1980, maki Brynhildur Guðmundsdóttir, synir þeirra eru Róbert Örn og Guðmundur Ernir. Margrét ólst upp á Leiðólfsstöðum. Á unglingsárunum tók hún virkan þátt í starfsemi ungmennafélagsins Ólafs Pá í Laxárdal. Hún stundaði nám í Húsmæðraskólanum að Staðarfelli 1940-1941. Árið 1947 hóf hún búskap með Sigurði á Laugavegi 28b í R.vík. Árið 1949 fluttu þau á Sogaveg 152 og árið 1968 fluttu þau að Hraunbæ 87. Margrét var heimavinnandi húsmóður en þegar elstu börnin voru orðin stálpuð þá fór hún út á vinnumarkaðinn og vann við ýmis hlutastörf, í Náttúrulækningafélaginu, Ísfélaginu á Kirkjusandi og á Borgarspítalanum. Lengst starfaði hún við þrif í Menntaskólanum í Reykjavík. Margrét tók virkan þátt í starfi Félags breiðfirskra kvenna. Margrét og Sigurður áttu farsælt hjónaband og deildu áhugamálum. Þar má helst nefna, dans, söng og ferðalög. Lax- og silungsveiði átti hug þeirra allan á sumrin. Útför Margrétar verður gerð frá Langholtskirkju í dag, 22. september, og hefst athöfnin kl. 15.

Elskuleg amma okkar hefur yfirgefið okkur. Það er með sárum söknuði sem við minnumst hennar.

Við systkinin vorum svo lánsöm að geta glatt ömmu af og til með píanóleik. Það fór oftast þannig fram að afi hlustaði á spilið inn í stofu á meðan amma hellti upp á kaffi og bakaði vöfflur. Þegar tónverkin tóku enda heyrðist klapp frá ömmu úr eldhúsinu eða hún kom sérstaklega fram til að tjá hrifningu sína. Hún virkilega naut tónlistarinnar. Amma átti það líka til að setjast sjálf við píanóið og spila gömul lög úr sveitinni. Við urðum því afar stolt þegar hún hafði frumkvæði að því að lög Jóns frá Ljárskógum voru gefin út. Við munum ávallt spila þau lög á píanóið og minnast ömmu.

Amma var alla tíð einstök húsmóðir sem hélt heimilinu svo hlýlegu og hreinu. Sérstaklega minnumst við hátíðleikans á jóladag með einstökum mat og marengstertunnar góðu. Að sama skapi gleymast seint dýrindis máltíðir eins og laxasúpan hennar. Veitingar hennar voru fullar af kærleika sem nærðu sálina. Að sumri til var gestrisnin fullkomnuð með því að gefa eina ilmandi rós úr garðinum.

Í huga okkar voru amma og afi órjúfanleg heild. Amma var ávallt iðin við að halda minningu afa á lofti, því var þægilegt að koma til hennar og hlusta á eitthvað gamalt og gott. Fram á síðasta dag talaði amma um að afi hefði yfirgefið okkur of snemma, því vorum við hjartanlega sammála. Nú hafa þau sameinast á ný og það er ljúf tilfinning að hugsa til þeirra fagnaðarfunda. Það er þessi hlýja minning af þeim saman sem lifir björt í huga okkar.

Við kveðjum ömmu okkar með djúpu þakklæti fyrir allt sem hún gaf okkur í gegnum tíðina, alla ástina, þéttu faðmlögin og umhyggjuna.

Berglind, Sigurður Grétar og Sóley.

Þú varst alls staðar þér til sóma

og þræddir kurteis lífsins hjarn.

Þinn muni er á meðal blóma,

ert mikið náttúrunnar barn.

Hann er frómur, þinn farni vegur,

af friðsemd áttirðu meira en nóg.

Næm við allt sem andann dregur

en alveg sérstök veiðikló.

/

Þú hefur verið hin mjúka mamma

sem mun ei kunna að hlífa sér,

ekki síður einstök amma,

það eftirlæti mun fylgja þér.

(Höf. Ben. Björnsson)

Þetta er hluti af ljóði sem pabbi orti til Möggu mágkonu sinnar þegar hún varð 75 ára.

Magga, var konan hans Sigga föðurbróður míns en hann lést fyrir 7 árum. Heimili þeirra á Sogaveginum og síðar í Hraunbænum var alltaf eins og mitt annað heimili og börnin þeirra svolítið eins og systkini mín.

Þar var alltaf nóg húsrúm og gott að fá að gista hjá Eygló frænku og ekki þótti mér síðra að þar var nóg á borðum. Magga töfraði fram veitingar án þess að maður vissi af, eins og allt annað sem hún gerði, á sinn hljóða, ljúfa og hógværa hátt.

Magga var falleg og fáguð og hafði einstaka næmni á umhverfið  og náttúruna. Hún hafði unun af tónlist og söng, ljóðum og dansi, hún var náttúruperla.

Ég verð ævinlega þakklát fyrir hennar umvefjandi hlýju og traust í gegnum áratugina - ég veit að núna svífur hún í faðmi Sigga síns.

Megi fallegar móðurmyndir milda söknuð frænd"systkina" minna, Eyglóar, Elfu, Sigmars og Svans og fjölskyldna þeirra.

Birna Dís.