Þormóður Geirsson fæddist í Eskilstuna í Svíþjóð 11. september 1979. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 27. október 2009. Foreldrar hans eru Geir Friðgeirsson, f. 18.8. 1947 og Kolbrún Þormóðsdóttir, f. 11.1. 1952. Systur Þormóðs eru: 1) Steinunn, f. 4.3. 1971, maður hennar er Björn Kristinn Broddason, þau eiga 3 dætur; Kolbrúnu Emmu, Kristínu Lind og Dagbjörtu Nönnu. 2) Nanna, f. 23.1. 1975, maður hennar er Martin Trier Risom. 3) Auður, f. 24.3. 1976, hún á 1 son, Guðmund Gabríel Hallgrímsson. Eiginkona Þormóðs er Erla Björk Jónsdóttir, f. 1.12. 1978. Dætur þeirra eru Auður Rós, f. 26.4. 2003 og Freydís Lilja, f. 21.8. 2006. Foreldrar Erlu Bjarkar eru Jón Guðlaugsson, f. 21.4. 1957 og M. Auður Gísladóttir, f. 4.10. 1959. Systur Erlu eru Sif, f. 7.9. 1985 og Andrea, f. 3.4. 1995. Þormóður fæddist í Svíþjóð og bjó þar fyrstu 2 árin með fjölskyldu sinni. Síðan fluttust þau til Húsavíkur og loks til Akureyrar þar sem hann ólst upp og gekk í barnaskóla og menntaskóla. Hann útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 17. júní árið 2000. Fluttist svo til Reykjavíkur og hóf nám í lyfjafræði við Háskóla Íslands haustið 2003. Kláraði M.A. í lyfjafræði sumarið 2008. Vann með skólanum hjá Lyfju og á Tilraunastofu Lyfjafræðideildar. Eftir útskrift 2008 vann hann í hálft ár á Lyfjastofnun en frá 1. janúar 2009 var hann ráðinn framkvæmdastjóri hjá Lipid Pharmaceuticals. Hann var alla tíð mikið í félagsstörfum. Þormóður, Erla og dætur bjuggu á Stúdentagörðunum við Eggertsgötu 6-10 og annaðist hann störf Garðprófasts þegar hann lést. Þormóður verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag, 6. nóvember, og hefst athöfnin klukkan 15.

Vegir guðs eru órannsakanlegir. Hvað veldur að ungur maður í blóma lífsins, faðir tveggja ungra dætra, er hrifsaður burtu án fyrirvara. Er þetta blind tilviljun eða er þetta eitt af mörgum dæmum um óskiljanlega sorg í heimi hins almáttuga guðs. Þormóður Geirsson var nemandi í Menntaskólanum á Akureyri og brautskráðist þaðan 17. júní 2000 ásamt fallegum hópi af glöðum nemendum þar sem sorgin átti ekki heima. Þormóður Geirsson var glæsilegur ungur maður, ljúfur, glaðlyndur og góðviljaður. Það er eftirsjá að honum. Samúðarkveðjur sendi ég konu hans og dætrum, foreldrum og systrum. Blessuð sé minning Þormóðs Geirssonar.

Tryggvi Gíslason.

Elsku Þormóður minn. Þó það sé sárt og óréttlátt að þú sért farinn frá okkur vil ég þakka þér fyrir allar þær stundir sem við áttum saman. Þær eru ógleymanlegar og ég verð þér ævinlega þakklát. Þú fylltir hjörtun okkar af gleði og kærleik og gerðir Erlu mína svo hamingjusama. Þú færðir okkur dætur þínar  tvær, þær Auði Rós og Freydísi Lilju. Minningin um þig mun um alla tíð lifa í þeim. Takk fyrir það sem þú varst mér og dætrum mínum. Ég mun um alla framtíð minnast þín með gleði og þakklæti í hjarta.

Tengdasonur númer eitt!

Vertu ekki grátinn við gröfina mína

góði, ég sef ekki þar.

Ég er í leikandi ljúfum vindum,

ég leiftra sem snjórinn á tindum.

Ég er haustsins regn sem fellur á fold

Og fræið í hlýrri mold.

Í morgunsins kyrrð er vakna þú vilt,

ég er vængjatak fuglanna hljótt og stillt.

Ég er árblik dags um óttubil

og alstirndur himinn að nóttu til.

Gráttu ekki við gröfina hér.

Gáðu ég dó ei, ég lifi í þér.

(Þýð. Ásgerður Ingimarsdóttir).

Þín

Tengdó.

Genginn er drengur góður. Þeir deyja ungir sem guðirnir elska er oft haft á orði, en rasandi stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að Þormóður sé horfinn yfir móðuna miklu.

Þormóði Geirssyni fengum við að kynnast er hann hóf að starfa við fyrirtæki sitt á frumkvöðlasetrinu Kvosinni í Lækjargötu. Hann var einstaklega þægilegur í öllum samskiptum og hafði góða nærveru, var bæði hugmyndaríkur og úrræðagóður. Hans verður sárt saknað.

Aðstandendum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Samstarfsfólk á frumkvöðlasetrinu Kvosinni og á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.