Guðrún Heba Andrésdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 6. október 1989. Hún lést á Landspítalanum fimmtudaginn 29. október 2009. Foreldrar Guðrúnar Hebu eru Andrés Sigmundsson bakarameistari, f. 11.12. 1949, og Þuríður Freysdóttir leikskólakennari, f. 25.11. 1951. Foreldrar Andrésar eru Sigmundur Andrésson bakarameistari, f. á Eyrarbakka 20.8. 1922, og Dóra Hanna Magnúsdóttir, f. í Vestmannaeyjum 27.6. 1925. Foreldrar Þuríðar voru Hallmar Freyr Bjarnason múrarameistari, f. á Húsavík 21.11. 1932 , d. 1987, og Guðrún H. Ingólfsdóttir, f. á Húsavík 23.10. 1932, d. 2008. Systkini Guðrúnar Hebu eru: 1) Sigmundur Andrésson, f. 14.8. 1968, kvæntur Azadeh Masoumi. 2) Sigurjón Andrésson, f. 10.12. 1970, kvæntur Margréti Söru Guðjónsdóttir, dætur Sigurjóns og Söru eru Hrafnhildur Svala, f. 1998, og Hekla Sif, f. 2000. 3) Agnes Sif Andrésdóttir, f. 31.5. 1973. 4) Ágúst Örn Gíslason, f. 30.9. 1976. Guðrún Heba ólst upp í Vestmannaeyjum og hóf sína skólagöngu þar. Hún stundaði nám við Menntaskólanum við Hamrahlíð og hefði lokið stúdentsprófi nú í desember. Hún hugðist flytja til Danmerkur eftir áramót til frekara náms. Með námi vann Guðrún Heba á Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili. Útför Guðrúnar Hebu fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 6. nóvember, kl. 15. Jarðsett verður í Garðakirkjugarði á Álftanesi.

Elsku hjartans vinkona mín.

Hvar ertu? Ég veit hreinlega ekki mitt rjúkandi ráð. Þetta eru miður góðar aðstæður og erum við öll afar slegin. Þú, Guðrún Heba, varst og verður alltaf stór steinn í hjarta mér. Það hellist yfir mann núna hvað maður sagði sjaldan við þig hvað þú værir skemmtileg, góð, hlý og sæt, hvað maður leyfði þér sjaldan að njóta þeirra orða sem manni fannst um þig. Þau eru ófá lýsingarorðin um þig og þau hlýja mér og fá mig til að líða örlítið betur. Þú varst eins og útsprungin rós í blóma lífsins. Ég er ofboðslega reið, sár og sorgmædd, þetta er svo ósanngjarnt! Ég er ekki að þola að tala um þig í þátíð.

Við Guðrún Heba kynnumst þegar við vorum fjögurra ára að verða fimm, þau kynni hófust nú með því að Rúrý, Andrés og Guðrún Heba og pabbi minn og afi bjuggu hlið við hlið á Brimhólabrautinni, pabbi bjó á 12 og þau á 10. Þetta sumar höfðu þau ákveðið að skipta görðunum niður með nokkrum trjám sem búið var að gróðursetja þegar Guðrún Heba og Þórarinn Ingi voru úti að leika þeirra" megin við trjén og ég og Hekla, sem þá var vinkona mín, vorum líka að leika okkur og fórum við óvart örlítið yfir á þeirra helming. Guðrún segir þá mjög groddaralega Hvað eruð þið að gera í garðinum mínum? Þið megið ekkert vera í garðinum mínum!" og hófust smávægileg rifrildi um hver var staðsettur hvar og við byrjum þá að hrækja öll hvert á annað, sem okkur fannst mjög fyndið í dag. Guðrún Heba var send yfir til mín, að skipun foreldra sinna, sama dag, til þess að biðjast afsökunar og höfum við verið bestustu" bestu vinkonur upp frá því!

Þvílíkar minningar sem ganga í gegnum hugsanir mínar, það sem við gátum brallað! Ég get ekki annað en hlegið, elsku Guðrún Heba mín, ég heyri ferlega smitandi hláturinn þinn í hausnum á mér og vildi helst að ég ætti hann sem hringitón í símanum mínum því þá væri alltaf gaman þegar síminn hringdi, þó það væri ekki símtal frá þér. Sem betur fer á ekkert okkar sem minnast þín slæmar minningar af þér, að ein manneskja skuli alltaf koma manni í gírinn, þú varst alltaf hress sama hvað á gekk, alltaf slóstu alvarlegustu málum upp í grín.

Við tvær erum ábyggilega þær allra ákveðnustu og frekustu og vildum báðar hafa rétt fyrir okkur og eiga síðasta orðið en þegar við fórum að fullorðnast þá föttuðum við að það geta ekki tveir aðilar átt síðasta orðið og vorum við því yfirleitt alltaf sammála hvorri annarri, okkur gat alveg fundist hvor önnur ömurleg þetta korterið en alltaf náðum við sáttum á no time". Við sem áttum alveg eins Spice Girls dress, mig minnir að ég hafi fengið grænt og þú fékkst bleikt og saman vorum við í þessu að róla okkur í garðinum á Brimó og ímynduðum okkur að rólurnar væru flugvél og við lékum flugfreyjur heilt sumar á milli þess sem við fórum upp á bílskúrsþak í flugfreyju dressunum okkar að skera rabbabara sem átti að vera maturinn handa fólkinu í flugvélinni. Ímyndunaraflið var ansi gott! Leikurinn hringur og punktur var svo leikinn eftir kvöldmat öll kvöld með öllum krökkunum í hverfinu, þú varst alltaf svo vinsæl og vinamörg enda opin og jákvæð stelpa. Ég hef svo margt að segja en verð stundum alveg strand því ég veit ekki hvort ég komi þessu öllu niður á blað. Elsku litla dekurdrós, manstu þegar ég kom til þín einhvern dag í desember og jólasveininn farinn að gefa í skóinn og þú fékkst DIESEL gallabuxur í skóinn á meðan ég fékk happaþrennu sem kostaði fimmtíukall og mandarínu. Þú varst alveg með svör við því, ég hlaut bara að vera alltaf svona óþekk. Manstu eftir öllum fimleikasýningunum sem enginn fullorðinn nennti að horfa á inni í stofu hinum megin hjá mér, þegar stóðu yfir framkvæmdir á húsinu ykkar og við hjúfruðum vel um okkur öll saman heima hjá pabba og afa Gústa, guð hvað það gat verið kósý hjá okkur. Það var þá sem frjókornaofnæmið og smávægileg astmaköst uppgvötuðust hjá þér, ég var oft svo hrædd um þig þá, helvítis teppið sem var á öllum gólfum, en það fór allt vel. Þegar við kláruðum alltaf öll sjampóin á heimilinu vegna þess að við ímynduðum okkur að baðherbergisglugginn hjá pabba væri bílalúga í ísbúð og notuðum við sjampóin sem íssósur því þau voru til í nokkrum litum. Aumingja Rúrý að gera ekki annað en að kaupa ný og ný sjampó. Sá leikur hætti að vera skemmtilegur eftir að ég datt í brennandi heitt baðið í öllum fötunum, en það hefur okkur fundist ómótstæðilega fyndið atriði og rifjuðum það oft upp.

Skrítið, allt sem ég er að rifja upp gerist á sólríkum degi, ég veit ekki hvort að mér finnist það bara vegna þess að við skemmtum okkur svo vel og þá er allt svo fallegt eða þá að það er bara hrein og bein tilviljun, var alltaf sól og blíða í gamla daga"? Guðrún, þú veist hvað við vorum fyndnar og alveg hreint stórkostlegar, ég þarf varla að telja það allt upp hér, enda vil ég ekki taka alveg allt plássið, það þurfa svo margir að minnast þín. Við fórum á gelgjuskeiðið þegar við vorum sex ára og hefur það skeið aldrei tekið almennilegan endi þrátt fyrir hvað við vorum taldar þroskaðar og gamlar sálir. Pabbi þinn og mamma voru svo dugleg að fræða þig, lesa fyrir þig og hvaðeina enda ertu algjört gáfnaljós og varst farin að þylja upp kennitölur foreldra þinna þegar við vorum sjö ára og ég vissi þá ekki einu sinni hvað kennitala var. Þegar í grunnskóla var komið brölluðum við ýmislegt líka, við vorum alltaf í sitthvorum bekknum og áttum við erfitt með að sætta okkur við það öll grunnskóla árin. Þú og Vera Dögg náðuð rosalega vel saman og voruð algjörir lærdómshestar. Við stunduðum íþróttir og prófuðum okkur held ég áfram í allri þeirri iðkun sem var í boði í Vestmannaeyjum á þessum árum. Við héldumst þó lengst í fótboltanum og handboltanum, þó við fengum nú verðlaunapening á Krónumótinu í sundi. Ég get ekki annað en vorkennt Svavari Vignis og Elísu sem þjálfuðu okkur þegar við vorum í handbolta á alversta gelgjutímanum. Almáttugur hvað við vorum erfiðar, en jafnframt alveg hrikalega uppátækjasamar og skemmtilegar. Þú varst líka í kór og var mikið að gera hjá þér þar, alltaf mætti ég með mömmu þinni og pabba að horfa á, ég fylltist alltaf vissu stolti, þó svo að ég hafi ekki haft orð á því þá, á seinni árum varstu svo klár að syngja og er ég ekki sátt með að þú gerðir aldrei neitt í því, þú hefðir komist svo langt í leik og söng.

Það er svo margt sem hægt er að rifja upp frá skólaárunum, vesalings kennararnir, við vorum með svör við öllu án þess að rífa við þá kjaft. Matarslagur og eilíf mótmæli. Við náðum okkur niður á þeim með því að gera hrikalega mikið grín af þeim í árshátíðarleikritunum öllum og fórum að vanda vel með það. Ég get ekki annað en sagt frá hugmynd þinni um að gera miða um að það gengi flatlús í Barnaskóla Vestmannaeyja og þyrftu því allir nemendur að raka af sér þarmaskeggið eins glögglega þú orðaðir það, við fórum heim til þín og sömdum bréf sem við prentuðum svo út og vorum tilbúnar að senda til allra í skólanum og báðum um undirskrift frá foreldrum, þangað til Bjössi stoppaði okkur af. Hönnu, kennaranum þínum, fannst þetta bara skemmtilegt og var mikið til í að standa í þessu með okkur. Okkur fannst alltaf gaman í grunnskóla og er það mjög ólíkt öllum krökkum, við töluðum oft um þetta og hvað við söknuðum Barnaskólans hrikalega mikið og vildum alls ekki að honum yrði breytt á nokkurn hátt! Svo kom að því að útskrifast úr grunnskólanum og var góð athöfn haldin í sal skólans. Þér var að sjálfsögðu falið það verkefni að halda ræðu um öll árin okkar og þessi ófáu prakkastrik sem við framkvæmdum. Almáttugur minn, Guðrún Heba hvað þessi ræða var falleg! Meira en hálfur árgangurinn grét og vildum við varla útskrifast þaðan. Þú varst svo rosalega góður penni og sagðir svo rétt og bókstaflega frá. Við vorum alltaf öll sammála um það að þú yrðir formaður árgangsnefndar og ég yrði aðstoðar formaður, þú varst svo góður leiðtogi, það klúðraðist aldrei neitt undir þinni stjórn með mig fyrir aftan. Á seinni árum okkar í grunnskóla eignuðumst við einn stóran vinkvennahóp sem var blandaður úr bekkjum okkar beggja. Við stofnuðum bloggsíðu allar saman og var sú síða allra vinsælasta í bloggheiminum. Við ákváðum að kalla okkur Skirmish-, svo vel valinn hópur kvenna og lentum við tvær og Lella í því á einhverju skólaballi að nokkrir strákar sögðust vera tilbúnir að éta upp ælu fyrir Skirmish því þeim fannst við svo flottar, það var eitthvað sem okkur þótti mjög sérstakt og upplifðum við okkur mjög frægar". Mörg svona óviðeigandi dæmi eru til í minningum okkar sem ekki þurfa að koma fram en það væri nú samt freistandi að nefna þær bara fyrir þig! Þegar við Skirmish vinkonurnar hittumst voru svo mikil læti í okkur að við vorum eins og heilt pæjumót, sungum, hlógum og höguðum okkur eins og bjánar. Yndilsega Costa Del Sol ferðin okkar er mjög minnistæð og var bara eins og hún var. Eins og slagorðið okkar hljómaði What happend in Costa, stays in Costa" og verður því ekki breytt.

Veistu það fallega Guðrún mín, ég á svo bágt með það að vera án þín. Við hvern á ég að tala? Í hvern á ég að hringja þegar ég þarf að kvarta eða þegar ég þarf að taka einhverja ákvörðun? Hver á nú að samgleðjast mér? Hver á að hrósa mér þegar ég geri eitthvað rétt? Hver á að skamma mig þegar ég geri eitthvað rangt? Þú hélst mér að miklu leyti til á réttri braut. Mig langar svo að vera hjá þér, tala við þig og hlægja með þér. Alltaf þegar við hittumst þá vorum við í miðri leiksenu. Við vorum eins og heilt leikrit. Ég man þegar mamma þín og Kata sögðu við okkur hvað það væri nú alltaf skemmtilegt að hlusta á okkur segja frá, við sögðum allt svo skemmtilega frá og rödduðum allt svo vel, hver og ein persóna í sögunni átti sína rödd. Okkur fannst það aldrei við vorum bara að segja frá, svona vorum við bara. Ég á aldrei eftir að skilja hvernig okkur gat komið svona vel saman þar sem að uppruni okkar, gildi og aðstæður voru svo ólíkar. Mamma þín og pabbi voru ágætlega efnuð og höfðu það gott en mamma mín átti varla neitt og pabbi alltaf á sjó. Þú varst yngst þinna systkina en ég er elst. Það er ýmislegt svona sem ég er að hugsa núna og skil ekki en er samt sem áður svo glöð því þetta kennir mér svo margt og ég er svo ánægð með að hafa fengið að eiga þig í lífi mínu. Ég þurfti að passa systkini mín á meðan þú varst á skóladagheimilinu einhverja daga í viku því mamma þín og pabbi unnu svo mikið í bakaríinu sem mér og þér fannst tilvalið að kalla herbúðir Þuríðar því þar fór allt fram undir hennar stjórn og man ég að ég náði oft í þig á skóladagheimilið og labbaði með þér heim til þín og lékum við okkur þar til fólkið kom heim. Ég gisti stundum hjá þér marga marga daga í röð og þá vorum við jafnvel búnar að umturna herberginu þínu í fatabúð, við vorum með föt á herðatrjám búnar að verðmerkja flíkurnar og allt. Barbie húsin á gólfinu í herberginu þínu voru að gera mömmu þína vitlausa, enda ekki skrítið, barbiehúsið var búið að vera á gólfinu í allt að þrjár vikur oft á tíðum og man ég alltaf að í barbie leiknum ætlaði minns að eignast barn þegar minns var orðinn tuttugu ára" það þótti svo hár aldur og hefði ég aldrei, aldrei getað ímyndað mér að aðstæðurnar væru þessar á okkar tvítugsári. Þegar þú fórst í ferðalög með foreldrum þínum var oftar en ekki sem ég fylgdi með. Mannstu þegar við náðum að ljúga að heilu tjaldstæði að við værum tvíburar og allir trúðu því sama hversu ólíkar við vorum í framan og í vexti, ég var ljóshærð og þú dökkhærð, þú með blá augu og ég með græn. Þetta er ótrúlegt, við vorum svo góðir lygarar og ég tala nú ekki um leikaraskapinn. Oh, Guðrún mín! Þú varst upprennandi Helga Braga, alltaf fyndin.

Jæja, eftir grunnskólaárin tók framhaldið við og allar vinkonurnar í Skirmish- ákváðum að halda áfram í skóla, þessi ár voru mjög erfið fyrir þig og fjölskyldu þína en valið var ekki annað en að taka eitt skref í einu. Þú tókst eina önn í Framhaldskólanum í Vestmannaeyjum en svo lá leið ykkar fjölskyldunnar til Reykjavíkur, þið komuð ykkur ágætlega fyrir þar sem og þú gekkst í Menntaskólann við Hamrahlíð. Þér gekk alltaf vel í skólanum en erfiðara reyndist fyrst að eignast vini og töluðum við saman í síman ábyggilega tuttugu og sjö sinnum á dag og ég veit ekki í hvað margar mínútur því söknuðurinn var svo mikill. Ég var ekki lengi að flytja frá Vestmannaeyjum til þín og sváfum við í sama rúmi og deildum öllu saman í rúmt ár þar til ég flutti til ömmu Settu í smá stund. Mamma mín og systkini komu svo sem betur fer í bæinn sama ár og vorum við öll svo ánægð með það, enda mæður okkar góðar vinkonur. Þegar við Bjarki fluttum inn saman hjálpaðir þú að sjálfsögðu við þrifin og flutningarnar og varst meirað segja búin að koma og sjá íbúðina á undan honum. Þú komst svo oft í heimsókn til okkar og borðaðir á þig gat með okkur. En í fleiri skiptin fórum við heim til mömmu og Óskars og létum Óskar baka ofan í okkur ýmislegt góðgæti, þar má vel nefna vöfflur. Það var alltaf svo gaman, þú varst alltaf svo góð við systkinin mín öll sem eitt og dýrka þau þig og dá. Það var svo einstakt þegar þú sagðir í einhverju teiti hjá okkur um daginn að Viktor Nói væri eina manneskjan sem hafi brætt í þér hjartað og það var svo yndislegt hvað þú varst stolt af honum eins og við öll.

Guðrún mín, þú og þín fjölskylda var mín og okkar fjölskylda var þín og vona ég að við sem eftir eru getum haldið því þétt saman án þín, það verður erfitt en það á eftir að skipta okkur öll svo miklu máli að eiga hvort annað. Þér fannst mamma mín alltaf svo mikil pæju mamma og fékkst ekki nóg af því að brandarast með henni. Þið tvær, þú og mamma gátuð gert svo mikið grín að mér, hvað þér fannst óendanlega fyndið hvað ég er með há kollvik, þú veltist um af hlátri í hvert skipti sem ég tók hárið upp og mamma að sjálfsögðu líka, því háu kollvikin fæ ég frá pabba. Hvað þér fannst líka frábært að mamma hafi verið spurð um skilríki á Coldplay tónleikinum en ekki við! Þið mamma nærðust á því að tala um það atvik. Við grétum á þeim tónleikum þegar uppáhaldslagið okkar, lagið Scientist með fyrrnefndri hljómsveit var spilað og gátum við rifist um það hvor okkar ætlaði að giftast Chris Martin söngvara hljómsveitarinnar, en gaf ég þér hann alveg þegar ég hitti hann Bjarka minn. Um daginn þegar þú bauðst okkur Reykjavíkurstelpunum í kökuboð heim til þín og sendir pabba þinn einan í bíó gáfum við þér afmælisgjöf sem þú varst gjörsamlega að elska, enda varstu rosalega mikið fyrir alla hönnun. Ég er svo ánægð að þú hafir fengið að verða tvítug því það skipti þig svo miklu máli að geta farið sjálf í ríkið og keypt Calla í gleri eins og þú kallaðir það. Þó það sé algjörlega óásættanlegt hvað þú fekkst að njóta þess og lífsins stutt. Það var alltaf svo gaman hjá okkur Skirmish, endalaust um að vera og alltaf var verið að skipuleggja og útrétta fyrir næsta game". Á mánudaginn síðasta fórum við saman út að borða, fórum til mömmu í vinnuna og létum hana elda girnilegar samlokur handa okkur sem við átum með stakri snilld, þú sullaðir örítið niður á þig eins og þér einni var lagið og klíndir kokteilsósu í ermina á nýju peysunni sem við gáfum þér í afmælisgjöf. Við áttum svo gott spjall og skemmtilegt kvöld, þú reyndir auðvitað við Bjarka í gríni eins og í hvert skipti sem þið hittust og fannst mér það aldrei athugavert heldur bara æðislegt að þér litist vel á hann, þið náðuð svo vel saman þó svo að þú minntir mig stundum á það að hann væri ekki einu sinni orðinn karlmaður. Þegar þú hringdir í mig og við ætluðum að hittast þá spurðiru mig einum of oft Ertu búin að redda pössun fyrir Bjarka?" eða Er Bjarki á leikskólanum?", eitthvað í þann dúr og Bjarki var farinn að hlægja af þessu með okkur því allt svona var svo mikið þú dúllan okkar. Þér fannst Bjarki svo flottur og mikill töffari og það gerði mig stolta. Bara til þess að létta á áhyggjum þínum þá er Bjarki búinn að lofa að vera stilltur, þú veist hvað ég meina, þú hafðir alltaf meiri áhyggjur af öllum öðrum en sjálfri þér, af því að þú varst svo góð. Mér finnst það eiga svo vel við að segja elsku hjartans gullið mitt" eins og foreldrar þínar sögðu alltaf við þig þegar þú meiddir þig eða varst eitthvað bitur, því þú varst og ert gull sem glóir.

Elsku fallegasti demanturinn minn, þú veist ég sakna þín ólýsanlega mikið og þú getur ekki ímyndað þér hvað ég hlakka til að hitta þig aftur, þá færðu sko Tildu knús og við lögum þá á þér toppinn. Mundu það, engilinn minn, hversu mikið ég elska þig og hvað þú ert mér mikið sá vinskapur sem við veittum hvorri annarri er mér eitt það dýrmætasta! Ég verð aldrei söm án þín.

Elsku Andrés, Rúrý, Ágúst, Agnes, Sigurjón og Sigmundur,Guð gefi ykkur styrk í þessari sáru sorg. Ég kveð með texta, Tvær stjörnur eftir Megas:

Tíminn flýgur áfram og hann teymir mig á eftir sér

og ekki fæ ég miklu ráðið um það hvert hann fer.

En ég vona bara að hann hugsi svolítið hlýlega til mín

og leiði mig á endanum aftur til þín.

Ég gaf þér forðum keðju úr gulli um hálsinn þinn,

svo gleymdir þú mér ekki í dagsins amstri nokkurt sinn.

Í augunum þínum svörtu horfði ég á sjálfan mig um hríð

og ég vonaði að ég fengi bara að vera þar alla tíð.

Það er margt sem angrar en ekki er það þó biðin

Því ég sé það fyrst á rykinu, hve langur tími er liðinn.

Og ég skrifa þar eitthvað með fingrinum sem skiptir öllu máli.

Því að nóttin mín er dimm og ein og dagurinn á báli.

Já, og andlitið þitt málað. Hve ég man það alltaf skýrt,

auglínur og bleikar varir, brosið svo hýrt.

Jú ég veit vel, að ókeypis er allt það sem er best,

En svo þarf ég að greiða dýru verði það sem er verst.

Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér

og ég sakna þín á daginn þegar sólin brosir við mér.

Og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á.

En ég sakna þín mest á nóttinni er svipirnir fara á stjá.

Svo lít ég upp og sé við erum saman þarna tvær

stjörnur á blárri festinguni sem færast nær og nær.

Ég man þig þegar augu mín eru opin, hverja stund.

En þegar ég nú legg þau aftur, fer ég á þinn fund.

Þín vinkona að eilífu,

Ásthildur Hannesdóttir

Nú er hún Guðrún Heba farin, langt um aldur fram. Það er okkur sem eftir sitjum óskiljanlegt hvers vegna ungt fólk í blóma lífsins er kallað burt svo skyndilega en henni er áreiðanlega ætlað stórt hlutverk hinum megin.

Ég kynntist Guðrúnu Hebu fyrst sumarið 1991 þegar ég vann um tíma á leikskólanum Rauðagerði. Hún var þá tæplega tveggja ára glaðlynd skotta, altalandi og hafði alveg ótrúlega mikinn orðaforða og kunni texta við öll þekktustu barnalögin sem hún sönglaði í gríð og erg. Það var aldrei nein ládeyða í kringum hana og tilsvörin mörg skemmtileg.

Leiðir okkar lágu svo aftur saman í Barnaskóla Vestmannaeyja haustið 2002 þegar ég varð umsjónarkennari Guðrúnar Hebu í 8. bekk. Í millitíðinni hafði ég fylgst með henni gegnum fjölskyldu og vini og við heilsuðumst alltaf úti á götu. Bekkurinn minn, 8. og síðar 9. SF, var skemmtilegur og fjörugur og uppátækin fjölmörg. Guðrún Heba var þar jafnan fremst á meðal jafningja við að skipuleggja bekkjarkvöld og aðrar uppákomur og þar var engu til sparað, hvorki í skemmtiatriðum né veitingum. Eftirminnilegast er Stríðsárakvöldið í 9. bekk þegar foreldrum var boðið á kynningu á verkefnum árgangsins um stríðsárin á Íslandi. Vinkonurnar létu sig ekki muna um að snara upp leikriti um ástandið, fengu lánuð föt frá þeim tíma og gættu þess að veitingarnar væru ekki of nútímalegar.

Guðrún Heba átti auðvelt með að sjá spaugilegu hliðarnar á hlutunum en var samt alltaf svo innileg, ljúf og góð. Við héldum kunningsskap og spjölluðum ef við hittumst, sem gerðist helst á Þjóðhátíð hin síðari ár eftir að Guðrún Heba flutti til höfuðborgarinnar. Þá var það oftar en ekki að við mættumst með fangið fullt af bakkelsi og öðrum herlegheitum í tjöldin en þar lét hún ekki sitt eftir liggja. Á síðustu Þjóðhátíð ræddum við lengi saman í blíðunni á sunnudeginum og aðalumræðuefnið var að sjálfsögðu skólinn og framtíðin en Guðrún Heba stefndi á að útskrifast úr skólanum mínum, MH, um áramótin.

Við hittumst svo hinsta sinni við brúðkaup Sigmundar bróður hennar og Azadeh konu hans í Þýskalandi nú í september. Þá grunaði hvoruga að það yrði okkar síðasti fundur en svona er lífið óútreiknanlegt og enginn veit sína ævina fyrr en öll er.

Elskulega fjölskylda og vinir, ég votta ykkur mínar dýpstu samúðarkveðjur. Þið eigið margar góðar minningar um yndislega stúlku sem gaf okkur svo mikið þótt henni væri úthlutað stuttum tíma meðal okkar.

Að lokum hittumst við öll hinum megin og Guðrún Heba mun áreiðanlega ekki láta sitt eftir liggja í móttökunum.

Sigurhanna Friðþórsdóttir.

Elskuleg frænka mín Guðrún Heba er látin aðeins tvítug að aldri. Aldrei óraði okkur fyrir því að þurfa að kveðja þig svona snemma. Þú varst alveg einstök, alltaf svo hress og kát, hrein og bein, og bara þú sjálf.

Ég man hvað ég var spennt að eignast litla frænku og hlakkaði mikið til að fá að passa þig á mínum unglingsárum. Þú varst með svo fallegt bros og bræddir mann með því strax á unga aldri en varst líka mjög snemma ákveðin og ófeimin við að hafa skoðanir á hlutunum.

Ég man eftir einu skipti þegar ég var að passa þig sem ungabarn. Þú vildir sofna hjá mér og grést þangað til ég tók þig fram og leyfði þér vera frammi með mér uns þú sofnaðir í fanginu á mér. Þarna kom strax í ljós hversu ákveðinn og sterkan persónuleika þú hafðir að geyma.

Það var gaman að fylgjast með þér vaxa úr grasi en við misstum aðeins af þér á unglingsárunum þar sem þú fluttir í höfuðborgina og við út til Danmerkur. En við fengum þó fréttir af þér og fjölskyldu þinni í gegnum ömmu og afa og eins náðum við að hittast af og til þessi ár þó það hafi oft verið í stutta stund. Það var alltaf svo gaman að hitta þig því þú varst alltaf hress og kát. Oftar en ekki komst þú með pabba þínum eða mömmu í vinnuna í Magnúsarbakaríi og varstu farin að hjálpa þar til á unga aldri. Það var gaman að fá að vinna með foreldrum þínum, þér og tveimur bræðrum þínum á þessum tíma í fjölskyldufyrirtækinu sem langafi stofnaði og afi og amma ráku á Vestmannabrautinni ásamt pabba þínum.

Þú varst svo dugleg að halda sambandi við ömmu og afa eftir að þú fluttir og dugleg að heimsækja þau þegar þú komst til Eyja. Þegar ég hitti þig síðast á þjóðhátíðinni í ágúst fórstu strax að tala um hvenær þú ætlaðir að heimsækja gömlu hjónin. Þú og pabbi þinn voruð einnig mjög náin og var það einstakt að fylgjast með svona góðu sambandi milli feðgina.

Við eigum öll erfitt með að trúa því að þú sért farin frá okkur. Ég er svo þakklát fyrir samverustundirnar í gegnum árin og vorum við hjónin farin að hlakka til fyrstu jólanna okkar á Vestmannabrautinni. Draumurinn var að ná sem flestum ættingjum saman í eitt gott jólaboð um hátíðarnar, eins og amma, afi og aðrir ættingjar hafa haldið. Þín verður sárt saknað og það er gott að hugga sig við það að þið áttuð öll yndislegan tíma úti í Þýskalandi í brúðkaupi bróður þíns.

Við eigum öll okkar fallegu minningar um þig elsku frænka og við hlýjum okkur við þær á þessum erfiðu tímum. Minningin um einstaka persónu lifir í hjörtum okkar allra.


Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Elsku Andrés, Rúrý, Ágúst, Sigmundur, Sigurjón, Agnes Sif, Sara, Azadeth, Hrafnhildur Svala, Hekla Sif, amma og afi, frænkur, frændur og vinir, missir ykkar er mikill og við vottum ykkur öllum okkar dýpstu samúð á þessum erfiðu tímum.

Dóra Hanna Sigmarsdóttir og fjölskylda.

Elsku Guðrún Heba
Svo lífsglöð og falleg, tekin í burtu frá okkur alltof fljótt.
Við hugsum fallega til allra þeirra frábæru samverustunda sem við áttum saman í leikhúsinu í Vestmannaeyjum.

Þau ljós sem skærast lýsa,
þau ljós sem skína glaðast
þau bera mesta birtu
en brenna líka hraðast
og fyrr en okkur uggir
fer um þau harður bylur
er dauðans dómur fellur
og dóm þann enginn skilur.
/
En skinið loga skæra
sem skamma stund oss gladdi
það kveikti ást og yndi
með öllum sem það kvaddi.
Þótt burt úr heimi hörðum
nú hverfi ljósið bjarta
þá situr eftir ylur
í okkar mædda hjarta.
(Friðrik Guðni Þórleifsson.)

Elsku Andrés, Rúrí, fjölskylda og vinir. Megi Guð styrkja ykkur í þessari miklu sorg.
F.h Leikfélags Vestmannaeyja,

Ásta Steinunn Ástþórsdóttir, Erla Ásmundsdóttir og Guðný Kristjánsdóttir.