Elfa Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík 5. janúar 1960. Hún lést á Landspítalanum 25. október síðastliðinn. Foreldrar hennar eru Gunnar Kjartansson í Fremri Langey á Breiðafirði, f. 1927, d. 1992, og Ólöf Hólmfríður Ágústsdóttir í Dalasýslu, f. 1933. Bróðir Ólafar er Andrés Magnús Ágústsson, f. 1951. Systkini Elfu eru 1) Lára Ágústa, f. 1952, maki Gunnþór Halldórsson, f. 1952. Börn þeirra eru Gunnar, f. 1973, og Anna Dóra, f. 1982. 2) Júlíana, f. 1957, maki Jóhann Þór Sigurðsson, f. 1958. Börn þeirra eru Sigrún, f. 1981, Freyr, f. 1983, og Sunna, f. 1985. 3) Lóa Björk, f. 1972, maki Arnar Pálsson, f. 1973. Börn þeirra eru Melkorka Nótt, f. 1999, Bjarki Dagur, f. 2004, og Dögun Ólína, f. 2007. Sonur Elfu er Orri Óli Emmanuelson, f. 1987. Elfa lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Ármúla árið 1980 og prófi frá Fósturskóla Íslands 1994. Elfa stundaði skrifstofustörf fram að námi sínu við Fósturskólann, að því loknu starfaði hún sem leikskólakennari og síðar sem dagmóðir á heimili sínu. Elfa verður jarðsungin frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 6. nóvember, og hefst athöfnin klukkan 13.

Við urðum þeirrar ánægju aðnjótandi að hún Elfa gætti drengjanna okkar, Stefáns og Markúsar, um nokkurra mánaða skeið þegar þeir voru á öðru ári. Þeim þótti undur vænt um þessa hjartagóðu, röggsömu konu og henni um þá. Elfa náði einstaklega vel til þeirra enda barngóð með eindæmum, og drengirnir þroskuðust mikið og döfnuðu vel á þessum tíma. Aldrei féll tár þegar við skildum við tvíburana í hennar umsjá, heldur vorum við kvödd glaðlega hvert skipti og þeir snéru sér að Elfu sem settist iðulega á gólfið til að leika við þá. Þessi samvera þeirra gekk eins og í sögu, okkur öllum til ómældrar gleði og hamingju.

Við verðum ævinlega þakklát Elfu fyrir að koma eins og himnasending til að passa litlu drengina okkar.

Anna Pála, Böðvar og strákarnir.