Þorbjörg Guðrún Pálsdóttir, myndhöggvari og húsmóðir, fæddist í Reykjavík 10. febrúar 1919. Hún lést miðvikudaginn 11. nóvember 2009.

Foreldrar hennar voru Páll Ólafsson, ræðismaður og útgerðarmaður, og Hildur Stefánsdóttir, húsfreyja. Systkini hennar voru Stefán, tannlæknir, Ingibjörg, listmálari, Ólöf, myndhöggvari, og Jens, mannfræðingur.

6. ágúst 1942 giftist Þorbjörg Andrési Ásmundssyni, lækni, fæddur 30. júní 1916, dáinn 30. október 2006. Börn þeirra eru Ásmundur, f. 1950, d. 1952; Hildur, f. 1953, d. 1955; Stefán, f. 1953, áfangastjóri, maki Þórunn Andrésdóttir, sérkennari; Katrín, f. 1953, íþróttakennari, maki Gunnar Kristjánsson, útibússtjóri; Þóra, f. 1957, hjúkrunarfræðingur, maki Gunnar Halford Roach, bankamaður; Andrés Narfi, f. 1958, arkitekt, maki Ása Sjöfn Lórensdóttir, hjúkrunarfræðingur; og Þorbjörg, f. 1960, d. 1983, bankamaður. Barnabörnin eru 18 og barnabarnabörnin eru 5.

Þorbjörg stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands og í ljósmyndun við Iðnskólann í Reykjavík. Stundaði nám við Berggrens Målarskola og við Konstfack í Stokkhólmi. Eftir heimkomu frá Svíþjóð 1961 stundaði hún nám hjá Ásmundi Sveinssyni, Sigurjóni Ólafssyni og Jóhanni Eyfells. Þorbjörg stofnaði Myndhöggvarafélagið í Reykjavík árið 1972 ásamt nokkrum myndhöggvurum og árið 1997 var hún gerð að heiðursfélaga þess. Þorbjörg tók virkan þátt í útisýningum myndlistarmanna á Skólavörðuholtinu í mörg ár og þar var verkið Dansleikur fyrst sýnt árið 1970. Það hefur síðan verið steypt í brons og sett upp við Perluna. Þorbjörg hefur haldið nokkrar einkasýningar á verkum sínum sem og tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis. Verk eftir Þorbjörgu eru í eigu ýmissa aðila, þ.ám. Listasafns Íslands og Listasafns Reykjavíkur. Fyrir framlag sitt til myndlistar hlaut Þorbjörg starfslaun myndlistarmanna.

Útför Þorbjargar fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 19. nóvember, og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku mamma mín og vinkona.

Það er mikið tómarúm hjá okkur á Sjafnó eftir að þú hvarfst frá okkur. Það vantar svo mikið. Líf þitt var ekki alltaf dans á rósum og þú sást oft ekki til sólar vegna þunglyndis. Það var átakanlegt að horfa á þig kveljast þegar þér leið sem verst. Þú sagðir oft við mig að þú skildir ekkert í því að þér skyldi líða svona illa, þú sem hefðir svo margt að gleðjast yfir. En af nógu var að taka. En alltaf stóðst þú þig vel. Betri móður er ekki hægt að hugsa sér. Þú varst ein yndislegasta, traustasta, skemmtilegasta og litríkasta persóna sem ég hef kynnst. Alltaf varstu tilbúin að rétta hjálparhönd. Þú varst svo hreinskilin að mörgum þótti nóg um.

Ég og fjölskylda mín bjuggum með foreldrum mínum sem stórfjölskylda í 23 yndisleg og reynslurík ár. Þetta var tími sem við hefðum ekki viljað missa af.

Ég veit - er ég dey svo að verði ég grátinn

þar verðurðu eflaust til taks.

En ætlirðu blómsveig að leggj'á mig látinn

- þá láttu mig fá hann strax.

(höf.ókunnur.)

Þakka þér fyrir öll yndislegu árin sem við áttum saman. Ég veit að það verður góður hópur sem tekur á móti þér, elsku mamma mín.

Þín dóttir,

Katrín.

Hvíl í friði, elsku amma, langamma og kæra vinkona.

Við sjáum að dýrð á djúpið slær,

þó degi sé tekið að halla.

Það er eins og festingin færist nær,

og faðmi jörðina alla.

Svo djúp er þögnin við þína sæng,

að þar heyrast englar tala,

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóst þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og sumarnótt,

og svanur á bláan voginn.

(Davíð Stefánsson.)

Jóhannes Páll, Berglind, Emilía Ýr og Kristján Freyr.

Elsku amma.

Ég ætla mér út að halda

örlögin valda því

mörgum á ég greiða að gjalda

það er gömul saga og ný

guð einn veit hvert leið mín liggur

lífið svo flókið er

oft ég er í hjarta hryggur

en harka samt af mér

er mánaljósið fegrar fjöllin

ég feta veginn minn

dyrnar opnar draumahöllin

og dregur mig þar inn

ég þakkir sendi, sendi öllum

þetta er kveðjan mín

ég mun ganga á þessum vegi

uns lífsins dagur dvín.

(Einar Georg Einarsson.)

Hvíldu í friði, elsku amma.

Andrés og Katrín.

Hreinskiptin og heiðarleg. Manneskja sem allir vissu hvar þeir höfðu. Fór sínar eigin leiðir í lífinu og lét engan hafa áhrif á sig. Þorbjörg Pálsdóttir var kona sem við dáðum og elskuðum. Konan hans Andrésar frænda sem tók á móti Lízellu í þennan heim. Þorbjörg var vinkona okkar. Hún var kona að okkar skapi. Sagði það sem henni bjó í brjósti og dró enga dul á skoðanir sínar. Slíkar manneskjur eru í dag vandfundnar perlur.

Þorbjörg Pálsdóttir þurfti að bera þungar byrðar og miklar sorgir. Himnasmiðurinn fól henni ótrúlega erfið verkefni. Hún gekk í gegnum þá sorg að missa fóstur; beit í koddann sinn á sjúkrahúsinu svo enginn heyrði grátinn. Hún eignaðist tvö börn sem bæði létust á öðru ári.

En hún fékk líka að njóta hamingju. Þorbjörg og Andrés eignuðust fimm mannvænleg börn, en misstu 23 ára dóttur sína, Þorbjörgu, skyndilega af völdum veikinda. Jafngamlan dótturson, Kristján Árna, kvöddu þau fyrir sjö árum. Þau Andrés leyfðu sér að syrgja djúpt þegar þau fylgdu elskaðri dóttur og barnabarni til grafar. Þar var ekki verið að deyfa sig; tárin fengu að hrynja og sorgin fékk að vera sýnileg. Þetta fólk kunni að vera það sjálft.

Djúp sorg tók sér bólfestu við hlið Þorbjargar allt hennar líf, í rúm níutíu ár. Það var ekki sanngjarnt.

En himnasmiðurinn færði Þorbjörgu líka stórar gjafir. Hún var trygg eiginkona, yndisleg móðir og yndisleg amma. Hún var drottning höggmyndanna og eftir hana liggja verk sem munu halda á lofti minningu hennar um aldur og ævi.

Ævisaga Þorbjargar var aldrei skrifuð. Það er missir fyrir þjóðina því af Þorbjörgu mátti læra hvernig hægt er að móta úr því efni sem okkur er úthlutað við fæðingu. Það fer eftir hverjum og einum hvernig við sköpum úr þeim efniviði sem á að verða lífið sjálft. Þorbjörgu tókst að skapa listaverk lífsins.

Við kveðjum vinkonu; stórbrotna konu sem okkur þótti innilega vænt um. Konu sem við áttum með ógleymanlegar stundir sem einkenndust af einstökum húmor hennar og visku. Við sjáum hana fyrir okkur í kjól með bleikt herðasjal og á gullskóm í stúdentsveislu Lízellu; með „glamúr“-hatt á höfði að bjóða til hádegisverðar á Hótel Holti og í úlpu í eftirlætis litnum sínum, eplagrænum, með samlita alpahúfu á höfði á göngu um Þingholtin.

Að leiðarlokum ber að þakka sérstaklega Katrínu dóttur hennar og eiginmanni hennar, Gunnari, fyrir þá alúð og umhyggju sem þau sýndu Þorbjörgu og Andrési alla tíð, einkum eftir að fór að hausta í lífi þeirra. Einkum ber að þakka þeim að hafa gefið Þorbjörgu kost á að búa með reisn heima á Sjafnargötu 14 eins lengi og unnt var.

Hvíl í friði, elsku vinkona. Við gleymum aldrei kímninni í augunum þínum og einkahúmornum sem enginn skildi nema við þrjár. Við munum þig alltaf á níræðisafmælinu þínu í gullkjól, sem hæfði aðeins drottningu eins og þér. Við munum alltaf sakna þín.

Lízella og Anna Kristine.

Ég var ekki há í loftinu þegar ég sá sýningar Þorbjargar Pálsdóttur á Skólavörðuholtinu 1968 og 1972. Mér fannst verk hennar ótrúlega merkileg og höfðuðu þau sterkt til mín. Ekki dró úr áhuganum að dóttir hennar Tottý var vinkona mín og bekkjarsystir.

Þorbjörg tók mér opnum örmum og gátum við rætt saman um heima og geima. Hún var ótrúlega frumleg, framsýn og langt á undan sinni samtíð.

Í listsköpun sinni vann hún með þau efni sem voru hendi næst, hænsnavír, grisjur, gifs, asbest og pólýester. Þessi litla kona tókst á við þessi erfiðu efni og mótaði stóra skúlptúra. Í upphafi var myndefnið sótt í börnin, síðar birtist skúringakona, dansleikur og mögnuð mynd af Jesú á krossinum. Hin grófa ásýnd skúlptúranna var eins og vegferð mannsins full af tilfinningum, ást, gleði og sorg.

Líf Þorbjargar var viðburðaríkt en fór ekki alltaf um hana mjúkum höndum. Eins og listaverk hennar við Perluna stóð hún af sér öll veður, hnarreist og stolt.

Guð blessi minningu vinkonu minnar.

Selma Ósk Kristiansen.

Þorbjörg Pálsdóttir var um margt ýktur karakter. Hún málaði flest í sterkum litum. Í klæðaburði voru það æpandi litir, flaksandi hattar og skartgripir í yfirstærðum, þó nær undantekningarlaust í samhljómi djarfrar smekkvísi. Hún hafði miklar skoðanir og gat verið stóryrt um menn og málefni en rataðist þá oftar en ekki rétt orð á munn. Það var eittthvað þægilega umbúðalaust við Þorbjörgu, expressionistískt, bjart og spriklandi en um leið krefjandi. Með einkennilegum hætti virtist hún þráhyggjuskotin, sjálfhverf og einstrengingsleg á sama tíma og hún var einstaklega næm og skilningsrík á líðan annarra sem leiddi af sér átakalausa umhyggjusemi. En umfram allt var Þorbjörg Pálsdóttir sjáandi.

Það eru fáir sem hafa verið gleggri í skoðun sinni á því hvernig manneskjan birtist á sínum viðkvæmustu augnablikum, hvernig hugarástand mótar fasið. Og leitun er á þeim listamönnum sem tekist hefur að grundvalla heilsteypt og auðþekkjanlegt ævistarf á þessum næmu upplifunum. Hafi sumt í fari Þorbjargar Pálsdóttur ef til vill verið dregið stórum dráttum, bitust í verkum hennar sjaldfundin mýkt, blíða og líf.

Við vottum fjölskyldu Þorbjargar okkar dýpstu samúð.

Hannes Lárusson, Kristín Magnúsdóttir og fjölskylda.

Hún Þorbjörg mamma hennar Tótu fyrstu vinkonu minnar er farin í ferðina sem bíður okkar allra. Ég kynntist fjölskyldu Þorbjargar vorið 1964 þegar Kársnesið í Kópavogi var að byggjast upp. Það átti eftir að hafa mjög mótandi áhrif á mig að kynnast Þorbjörgu og hennar viðhorfum til samtímans. Á þessum árum voru konurnar heima með börnin og karlarnir í vinnunni. Þeir voru í burtu allan daginn með bílinn! og flestir lifðu sínu borgaralega lífi. Nema Þorbjörg, hún var með vinnustofuna sína í kjallaranum á Sunnubrautinni og krakkana sína fimm og alla þeirra vini hlaupandi og leikandi sér um allt. Húsið var stórt, við sjóinn, og þarna var líf í tuskunum. Svo var líka alltaf einhver sænsk au pair sem ugglaust sá um að halda í horfinu eftir krakkaskarann.

Vegna þess hve Þorbjörg var frjáls í skoðunum og lífsviðhorfi þá einkenndist lífið á heimilinu af skapandi frelsi. Ekki agaleysi, því maður varð að geta staðið skil skoðana sinna. Hún límdi umbúðapappír eftir endilöngum gangi svefnálmunnar og þar var mikið teiknað og hlegið. Svo hlupum við um fáklædd heilu sumrin ef okkur langaði til. Veiddum marflær í fjörunni og bjuggum til karamellu í eldhúsinu. „Vilborg, viltu skipta um bekk með Tótu?“ Já, já og þá fórum við í bekk hjá besta kennaranum sem við höfum haft. Svo tróð hún okkur öllum inn í gamla volvóinn og þeysti með okkur öll í gömlu sundlaugarnar í Laugardal. Svona var þetta, endalaus ævintýr og uppákomur og veröld barnsins þandist út og stækkaði, því barnið fékk að voga og þora. Þannig var Þorbjörg og þessi lífssýn hennar smitaði út til allra í kringum hana.

Hún hafði fengið sinn skammt af sorgum eins og aðrir en hún tók þann pólinn í hæðina að vera atkvæðamikil í lífi sínu og fara sína leið. Það sést í listsköpun hennar. Mig langar að þakka henni og börnum hennar fyrir að hafa fengið að dvelja með þeim löngum stundum á heimili þeirra á bernsku- og unglingsárum mínum.

Í síðasta skiptið sem ég hitti Þorbjörgu sagði hún við mig þegar verið var að kveðjast: Hvað ertu að gera í gráum jakka? Lífið getur verið alveg nógu grátt, þótt við klæðum okkur ekki þannig líka. Litaðu upp lífið – vertu í lit. Þannig var Þorbjörg Pálsdóttir. Blessuð sé minning hennar.

Vilborg Halldórsdóttir.

Kveðja frá Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík

Við kveðjum nú heiðursfélaga. Hún var brautryðjandi í íslensku menningarlífi, virkur þátttakandi í útisýningunum á Skólavörðuholtinu og einn af stofnfélögum Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík. Hún á margar þakkir skildar frá íslenskum myndlistarmönnum fyrir sitt framlag og stofnun Myndhöggvarafélagsins. Við sendum fjölskyldu Þorbjargar samúðarkveðjur.

F.h. Myndhöggvarafélagsins,

Pétur Örn Friðriksson

formaður.

Þorbjörgu Pálsdóttur kynntist ég þegar Myndhöggvarafélagið stefndi okkur tveimur saman á sýningunni Félagar á Kjarvalsstöðum vorið 2002. Þorbjörg var þá elsti meðlimur félagsins og einn af stofnendum þess, en ég sá yngsti. Okkur gekk strax ljómandi vel að vinna saman. Það sýndi meira en það að við gætum mæst í listinni í sannfærandi samvinnu. Það sýndi líka að þetta kynslóðabil, sem alltaf er verið að kjafta um, kemur helst frá fólki sem eingöngu hefur kynnst sinni eigin kynslóð. Þorbjörg var svo heppin að búa í stórfjölskyldu og reyndar var fjölskyldan oft viðfangsefni verka hennar.

Þorbjörg var gamalgróin í sínum vinnubrögðum, gerði aldrei neinar málamiðlanir og stóð með verkum sínum fram í rauðan dauðann. En hún var ekki með neina helgislepju í kringum verkin, þótt henni þætti vænt um þau eins og væru þau börnin hennar og var óhrædd við að leika sér með samhengi verkanna svo lengi sem stöpull væri ekki settur undir þau. Framlag mitt til fyrrnefndrar sýningar varð til í samræðu við listakonuna og eiginlega undir leiðsögn hennar. Hún átti auðvelt með að setja sig inn í hvaða mál sem er og var einstaklega gagnrýnin – jafnvel óvægin á köflum – eins og góðir listamenn gjarnan eru. Þótt Þorbjörg gerði fígúratíva skúlptúra hafnaði hún orðinu stytta og fannst það of stíft til að eiga við um sín verk sem væru „ótamin“. Sem karakter var Þorbjörg líka hálfgerð ótemja og full af lífskrafti, verk hennar hrá og allt að því kæruleysisleg á yfirborðinu, en hreyfingin í fígúrunum alltaf hárfín, og sálarástand eða tilfinningalíf þeirra skýrt. Hún nostraði ekki við smáatriðin heldur fangaði á áreynslulausan hátt augnablikin sem birta óræðan lífsneistann eins og Hannes Lárusson orðaði það einhvern tímann. Henni var það eðlilegt að ögra umhverfi sínu og að hreyfa við óþægilegum en ákallandi málum og var glannaleg ef sá gállinn var á henni. Hún vildi ekki að myndlistin væri sett á stall og bar hæfilega virðingu fyrir listasöfnunum og starfsumhverfi listamanna. Það er dálítið skrítið að verk hennar séu ekki meira kennd í skólum og sýnd á söfnum. Ég spurði hana einu sinni hvort söfnin hefðu ekki sýnt verkum hennar áhuga. Hún svaraði: „Veistu það að þetta er svo sljótt allt saman og kjarklaust. Og lítil hreyfing á þessu. Þessi söfn eru eins og grafreitur. Ekkert betra. Þegar verk er einu sinni komið þangað held ég að það verði ekki mikið tekið upp úr geymslunum. Mér finnst það svolítið eins og dauðadómur fyrir verkin.“

Þorbjörg þoldi ekki gunguhátt og sá það utan á fólki ef það var illa þjakað af slíku.

Hún sagði að fólk ætti að ganga skrefi lengra en það þorði, en sjálf hafði hún ekki þolinmæði til að taka hlutina eingöngu skrefinu lengra, heldur stökk hún á bálið eins og það er kallað: „Ef manni er gefinn kjarkurinn þá er maður ekki í rónni fyrr en maður er mitt í slagnum. Og það getur farið á hvorn veginn sem er. Það er einmitt slagurinn sem fólk er sífellt að reyna að forðast og þar með lendir það í engu. Kjarkleysi er það ægilegasta sem til er.“

Ásmundur Ásmundsson.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Elsku amma.

Ég vil þakka þér svo innilega fyrir öll þau kvöld á mínum yngri árum, þar sem ég fékk að hafa opið inn í herbergi ykkar afa á meðan ég lagði augu mín aftur og reyndi að sofna. Þú vissir hvað ég var myrkfælinn. Takk, amma. Það var yndislegt að vita af þér og afa í næsta herbergi.

Ásmundur Gunnarsson.