G. Frímann Hilmarsson fæddist að Fremstagili í Langadal 26.2. 1939. Hann lést á Heilbrigðistofnuninni á Sauðárkróki þann 3.12. 2009 síðastliðinn. Foreldrar hans voru Hilmar Arngrímur Frímannsson og Jóhanna Birna Helgadóttir. Systkini Frímanns eru Halldóra, Anna Helga, Valgarður og Hallur. Eftirlifandi eiginkona Frímanns er Kolbrún Jenný Sigurjónsdóttir. Börn Frímanns eru Hulda Birna, f. 1962; Steinunn Ásgerður, f. 1963; Kristján, f. 1967 lést 1999; Kristín, f. 1969, og Hilmar Arngrímur, f. 1973. Barnabörn Frímanns eru nítján og langaafabörnin þrjú. Frímann var lögreglumaður en vann við ýmis störf á sjó og landi. Hann var mikið náttúrubarn og var hestamennska hans aðaláhugamál. Útför Frímanns fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, laugardaginn 12. desember, og hefst athöfnin kl. 14.

Nú komið er að kveðjustund eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm sem vann að lokum. Minningarnar fara á flug, margar tengdar hestum og smalamennsku enda var farið göngur á hverju ári. Það var í fyrsta skipti síðastliðið haust sem þú varst ekki með okkur í göngum, fannst mér vanta mikið enda varstu búinn að fara í Tröllabotna í rúm 50 ár og ég með í 22 ár. Fyrstu ferðina mína í Botna varst þú gangnaforingi, var veðrið vont, lítið skyggni, en þú þekktir hverja þúfu þó ekki sæjum við nema nokkra metra frá okkur, þetta var mikil upplifun fyrir þrettán ára ungling. Seinna var dæmið breytt, eggið farið að kenna hænunni. Seinni ári var ég orðinn gangnaforingi og farinn að stjórna pabba gamla, að vísu með stuðningi frá þér. Margar nætur var lítið sofið í gamla bænum á Þverá heldur sungið undir dyggri stjórn þinni, voru lögin ekki fá sem þú kunnir, röddin mikil og vel vætt með söngvatni. Þessar stundir lifa alltaf í minningunni.

Marga góða daga áttum við tveir saman meðan þú varst að byggja hesthúsið á Króknum, varstu ekki á spar á sögurnar úr ýmsum hestaferðum og sögum um tamningar á hestum sem þú tamdir og voru þeir ekki allir auðveldir viðureignar enda varstu ekki mikið fyrir róleg hross, villingarnir reyndust þér oftast bestir. Alltaf gat maður leitað ráða hjá þér með hrossin, hvað sem vandamálið var.

Margir kaffibollar voru drukknir á löggustöðinni á Króknum meðan ég var í Fjölbraut og var vistastjórinn viss um að ég væri í einhverjum vandræðum er þú sóttir mig á löggubíl upp á vist og ég kom ekki fyrr en eftir þrjá tíma aftur með löggubíl og var mikið hlegið að þessu.

Mikið á ég eftir að sakna símhringinganna sem voru ekki sjaldnar en einu sinni í viku þar sem var rætt um hesta, sjómennsku og vörubíla í langan tíma, svo endaðir þú oft langt samtal á að segja, "ég ætlaði bara að heyra aðeins í þér".

Nú ertu farinn á annan stað þar sem þér líður vel og veit ég að tekið verður vel á móti þér af Kidda bróður, þar getið þið sungið og riðið um á góðu fákunum sem þið áttuð forðum og smalað með Adda og Geira í Lækjardal og svo hittir þú kannski hanann. Minning þín lifir.

Hinsta kveðja.

Þinn sonur,

Hilmar.