Þórður Jónsson fæddist á Þverá í Svarfaðardal 26. október 1918. Hann lést á Landspítalanum 25. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Þórðarson frá Steindyrum í Svarfaðardal f. 1896, d. 1995 og Margrét Kristinsdóttir frá Miðkoti á Dalvík f. 1900, d. 1970. Systir Þórðar er Árnína Jónsdóttir f. 1923. Hennar maki var Valdimar Jónsson f. 1921, d. 2006. Sjöunda maí 1944 kvæntist Þórður Guðríði Bergsdóttur f. 31.12. 1921, d. 10.6. 1996. Hún var fædd í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Bergur Thorberg Þorbergsson f. 1894, d. 1953 og Sumarlína Þuríður Eiríksdóttir f. 1898, d. 1988. Börn Þórðar og Guðríðar eru 1) Margrét Anna húsfreyja f. 24.9. 1943 í Reykjavík. Hennar maki var Jóhannes Gylfi Jóhannsson. Þau skildu. Börn þeirra eru Þórður Kristinn, Guðríður Anna og Lína Þyrí. 2) Bergur Jón (Thorberg) myndlistarmaður f. 8.5. 1951 á Skagaströnd. Kona hans er Eydís Ólafsdóttir. Dætur þeirra eru Elma Helgadóttir, Nótt Thorberg og Eydís Eva. Þórður fæddist sem fyrr segir í Svarfaðardalnum en fluttist fjögurra ára að aldri til Akureyrar með foreldrum sínum þar sem hann ólst upp. Þar naut hann hefðbundinnar skólagöngu þess tíma, lagði stund á nám við Iðnskólann um hríð, sótti vélstjóranámskeið og lauk þar vélstjóraprófi. Hann var sendur í sveit eins og títt var í þá daga og hélt alla ævi ríkum tengslum við Laxamýri og Bárðardalinn, staði sem voru honum mjög kærir. Hann fluttist til Reykjavíkur 1940 og vann þar í vélsmiðjum. Þórður fór til Skagastrandar á vegum Héðins 1946, til uppsetningar á vélum í Síldarverksmiðju ríkisins, og fjölskyldan dvaldi þar næstu 20 árin. Þar vann hann lengst af sem vélstjóri í frystihúsum staðarins en sinnti jafnframt mörgu öðru svo sem ljósmyndun og liggja eftir hann þúsundir verka, bæði ljósmyndir og 16 mm kvikmyndir. Hann vann öflugt æskulýðsstarf á staðnum, stofnaði m.a. skátafélag og tók þátt í fjölmörgu öðru svo sem ungmennafélagsstarfi og stjórnmálum og gegndi mörgum trúnaðarstörfum í þorpinu við Flóann. Þá var hann fréttaritari og ljósmyndari fyrir Morgunblaðið um langa hríð. Eftir þetta starfaði Þórður við SR á Reyðarfirði um tveggja ára skeið en flutti svo aftur til Akureyrar og var vélstjóri á togurum ÚA um árabil. Enn flutti hann sig um set og gerðist vélstjóri á togurum Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og einnig var hann yfirvélstjóri á síldveiðiskipum. Árið 1978 fluttist Þórður til Svíþjóðar og stundaði þar véla- og viðgerðarstörf og bjó þar í 12 ár. Árið 1990 fluttist hann aftur til Íslands og stofnaði heimili í Reykjavík. Skáti var hann allt sitt líf og tók virkan þátt í starfi innan skátahreyfingarinnar allt til dauðadags. Hann tók virkan þátt í starfi Blindrafélagsins og Bergmáls síðustu 10 árin og naut þess í ríkum mæli, enda umvafinn þar hamingju og kærleik. Þakkir skulu þeim færðar hér, sem og fjölskyldum Fjólu vinkonu hans og Hara og Ásgerðar fyrir norðan, sem veittu honum margar hamingjustundir. Margir munu minnast Þórðar fyrir hversu bóngóður og hjálpfús hann var og hversu húmorinn var ríkur þáttur í lífi hans og upplestur hans á kvæðum verður lengi í minnum hafður en þau flutti hann víða og ávallt blaðalaust. Útför Þórðar fer fram frá Áskirkju í dag, föstudaginn 15. janúar, og hefst athöfnin kl. 13.

Blessaður kallinn hann Þórður Jónsson hefur nú  safnast til feðra sinna og ástkærrar eiginkonu. Frá því að ég var að slíta barnsskónum hef ég þekkt  Dodda Djons, eins og Þórður kynnti sig gjarnan, því hann og Guðríður kona hans voru heimilisvinir foreldra minna Önnu Aspar og Benna Ólafs. Hann og pabbi unnu oft saman og mamma og Þórður þekktust því þau komu bæði frá Akureyri og góð vinátta var með mömmu og Guðríði. En sérstaklega vil ég minnast Dodda Djons sem skátahöfðingja og æskulýðsfrömuðar á æskuárum mínum í kringum 1950-1965 því þar lá Doddi ekki á liði sínu og kom m.a. að uppbyggingu að  Skátafélaginu Sigurfara og lagði fram ómetanlega krafta sem við krakkarnir nutum góðs af. Undir styrkri forystu Akureyringsins Ingólfs Ármannssonar og Þórðar sem var alltaf tilbúinn að leggja fram vinnu, bíla, tæki og tól varð til öflugt og framsækið skátafélag. M.a. var ráðist í að byggja upp gamlan matarbragga frá síldarárunum sem Skátaskála og þaðan eru margar góðar minningar. Eftir að Ingólfur flutti tók Þórður við sem skátaforingi og leiddi starfið. En aðkoma Dodda Djons að æskulýðsstarfi var ekki eingöngu bundið við skátana, hann stóð m.a. fyrir bíósýningum í Skátabragganum, strákarnir fengu að vera með honum í vélarsal kaupfélagsfrystihússins þar sem þeir fengu trúlega góða leiðsögn um vélar og bíla, og í mínum huga var Doddi  fyrst og fremst barngóður og framsýnn maður sem hafði óbilandi traust og trú á unglingum og var óhræddur að fela okkur ábyrgð og erfið verkefni. Sem dæmi þar um var hann eitt sinn í smá vandræðum með stráka skátaflokk sem  hann taldi þurfa að fá ákveðinn flokksforingja og fékk hann mig og Guðrúnu Þórbjörnsdóttur til að koma að þessu verkefni. Setti sem sagt tvær unglingsstelpur sem foringja í strákaflokk sem á þessum tíma þótti afar framúrstefnulegt en tókst  með ágætum. Sagan sýnir hve stórhuga og framsýnn hann var og óhræddur að fara ótroðnar slóðir og það voru margar nýjungar sem hann innleiddi á Skagaströnd t.d. á sviði ljósmyndunar, mála málverk, bílarnir hans, ferðalög og margt fleira. Já, Doddi Djons var bæði stór vexti og stórhuga og stór í öllu sem hann tók sé rfyrir hendur og fræg er sagan af honum þegar ný bananasending kom eitt vorið í Kaupfélagið. Hann var afar sólginn í banana og hafði etið nokkuð marga er hann tók sér smá hvíld og á meðan seldust bananarnir  upp. Þá varð Dodda að orði: Ja, hver skollinn og mig sem langaði svo sárt í banana.  Í síðustu heimsóknum hans til mín var hann nánast orðinn blindur en var glaður og ótrúlega minnisgóður og t.d. skoðaði hann gamlar myndir hjá mér með stækkunargleri og var naskur að þekkja fólk. Á Skagaströnd gisti hann hjá Öllu Hafsteins og Herði Ragnars og þökk sé þeim fyrir vináttu þeirra við hann og að gera honum kleyft að dvelja á Skagaströnd sem átti alltaf stórt pláss í huga hans. Hér hafði hann fest rætur sem ungur maður með fjölskyldu sína. Ég votta fjölskyldu hans og öðrum aðstandendum samúð mína við fráfall Dodda Djons skátaforingja.

Þórunn Bernódusdóttir.

Okkar kæri fjölskylduvinur er fallinn frá.  Pabbi kynntist Þórði þegar foreldrar hans bjuggu í húsvarðaríbúðinni við hliðina á vinnustofu pabba í risinu í aðalbyggingu Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri.  Ég kynntist Þórði þegar ég og foreldrar mínir heimsóttum Þórð og Guðríði konu hans í Malmö í Svíþjóð, árið sem ég fermdist, og síðar á dvalarheimilið að Dalbraut í Reykjavík eftir að þau fluttu aftur heim til Íslands.  Þórður varð síðan fjölskylduvinur okkar allra í Byggðaveginum þegar hann dvaldi hjá okkur nokkur sumur í sumarbústað fjölskyldunnar í Aðaldal í Þingeyjarsýslu.  Þar fengum við að njóta hjartahlýju hins dagfarsprúða manns sem gaf svo mikið af sér til allra.  Það sem einkenndi Þórð var að hann sá lífið í svo jákvæðu ljósi, trúði og treysti á Guð og var svo heill og sannur að það hafði áhrif á alla er hann umgekkst.

Þegar Þórður var kominn í sumarbústaðinn var kátt á hjalla og enginn skortur á sögum og frásögnum enda var hann einstaklega mikill og góður sögumaður og flutti þær þannig að hrein unun var á að hlýða og það átti einnig við um ljóðaflutning Þórðar. Hápunkturinn var ætíð þegar hann flutti af sinni einstöku snilld ljóðið "Kirkja fyrirfinnst engin" eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi sem er ljóðabálkur í tugum erinda en Þórður kunni öll ljóð Davíðs utanað.

Þó svo að Þórður hafi nánast misst alla sjón á efri árum þá aftraði það ekki að hann vildi mjög gjarnan vera á ferðinni og það voru því ófáar ferðirnar sem við fórum til Húsavíkur bara til að fara eitthvað af stað og hið minnsta að kaupa okkur kók í gleri sem við drukkum á leiðinni til baka. Gamansemi hans var einstök því þegar hann var eitthvað stirður til gangs þá sagði hann að fyrst hann væri orðinn svona stirður núna, hvernig yrði hann þá eiginlega þegar hann væri orðinn gamall. Gamansemin náði einnig til pólitískra skoðana Þórðar því honum þótti miður að sú litla sjón sem hann þó hafði var á vinstra auga en ekki því hægra sem honum hefði fundist betur við hæfi. Gaman var að fletta upp í Þórði þar sem hann var einstaklega töluglöggur og mundi hvað hann hafði í tímakaup og verðlag á hinum ýmsu neysluvörum marga áratugi aftur í tímann.

Fyrir hönd foreldra minna, systkina og allra annarra fjölskyldumeðlima vil ég segja að það voru forréttindi að fá að kynnast Þórði og verða fyrir áhrifum af sýn hans á lífið og tilveruna og með ævarandi þakklæti fyrir allar samverustundir með þessum einstaka manni sem skilur svo mikið eftir í hugum okkar og hjörtum.

Aðstandendum Þórðar sendum við okkar innstu samúðarkveðjur.

Magnús Orri Haraldsson.