Eftir Helga Snæ Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
LJÓSMYNDARINN og kvikmyndagerðarmaðurinn Börkur Sigþórsson sýnir þessa dagana í galleríi einu í Los Angeles, Blythe Projects. Börkur sýnir þar ljósmyndir annars vegar og hluta stuttmyndar sem er í vinnslu hins vegar. Hann mun brátt klára tökur á stuttmyndinni hér á landi en hún ber titil-inn Come to Harm og er handritið að henni skrifað af handritshöfundinum Stuart Beattie sem hefur gert það býsna gott í Hollywood. Sýningin í LA ber titilinn Work in Progress . Blaðamaður sló á þráðinn til Barkar sem staddur var í LA og spurði hann fyrst út í ljósmyndirnar á sýningunni.
Stórgerður stúlkulíkami
„Ég er að sýna myndir úr verkefni sem kallast Conditions . Myndirnar á sýningunni eru fyrsti hluti þess og samanstendur af níu nektarmyndum af mjög stórgerðum stúlkulíkama. Þemun í verkefninu ganga m.a. út á neyslu, kynhneigð og fíkn og hvernig þau birtast í sinni ýktustu mynd. Ég gekk út frá því að mynda fyrsta hlutann, þann sem er til sýnis núna, í formi líkamlegra landslagsmynda og þannig velta upp spurningum um hvernig aðstæður fólks, félagslegar jafnt sem andlegar, brjótast fram í líkamsgerð þeirra. Samanber titilinn á verkefninu, Conditions ,“ segir Börkur.– Ertu á mála hjá þessu galleríi?
„Nei, ég er ekki formlega á mála hjá Blythe Projects. Hill-ary Metz, sem rekur galleríið, situr í nefnd hjá MOCA, Museum Of Contemporary Art í Los Angeles, og þeim þótti áhugavert að vekja athygli á því hvernig ljósmyndun og leikstjórn fer saman. Þannig að við ákváðum að setja upp sýningu á tveimur verkefnum sem ég er að vinna að samtímis, annars vegar ljósmyndaverkefninu Conditions , og hins vegar leikstjórnarverkefninu Come To Harm . Og þar sem verkefnin eru enn í vinnslu, þá fékk sýningin nafnið Work In Progress .
Myndirnar á sýningunni eru til sölu og rennur söluhagnaður af þeim beint til framleiðslunnar á myndinni. MOCA er stærsti samstarfsaðili okkar og er sýningin hluti af sérstöku prógrammi á þeirra vegum sem kallast MOCA Contemporaries,“ segir Börkur.
Sama sagan sögð sex sinnum á sex mismunandi vegu
Um fjórðungur stuttmyndarinnar Come to Harm var tekinn upp í október en klippan sem er til sýnis í galleríinu er gróf fimm mínútna samsetning á því efni. En um hvað er myndin?„ Come To Harm fjallar um mann sem er illa haldinn eftir röð persónulegra áfalla. Þegar hann fer að gruna að einhver hafi brotist inn á heimili hans, þá grípur hann til ráða sem hafa örlagaríkar afleiðingar. Björn Thors leikur aðalhlutverk myndarinnar, sem verður 15 mínútur að lengd og öll tekin upp í Reykjavík. Myndin er framleidd af íslenska framleiðslufyrirtækinu Republik og styrkt af Kvikmyndamiðstöð Íslands. Hún er hluti af stærra, alþjóðlegu verkefni sem kallast POV, Point Of View. Ástralskt framleiðslufyrirtæki, Magic Films, bað Stuart Beattie um að skrifa einfalt og hnitmiðað stuttmyndahandrit sem var síðan sent til sex leikstjóra um víða veröld. Leikstjórarnir tóku handritið og unnu það áfram, staðfærðu að sínu samfélagi og eru nú að taka upp hver í sínu landi. Magic Films kemur síðan til með að taka myndirnar sex og pakka þeim saman í eina kvikmynd í fullri lengd, þannig að eftir stendur mynd sem segir sömu söguna á sex mismunandi vegu í sex mismunandi löndum, af sex mismunandi leikstjór-um sem hafa aldrei hist eða talað saman. Leikstjórunum er frjálst að vinna handritið eins langt og þeim hentar og því er líklegt að myndirnar verði jafn ólíkar og þær verða margar.
Næsta mynd 150 mínútur
– Nú hlaustu mikla athygli fyrir stuttmyndina Support og ert greinilega hrifinn af stuttmyndarforminu, sérðu fyrir þér að gera einhvern tíma kvikmynd í fullri lengd?„Já, næsta verkefni verður mynd í fullri lengd. Support var ein og hálf mínúta að lengd og Come To Harm verður fimmtán mínútur, þannig að samkvæmt hefðinni sem er að myndast verður næsta mynd eiginlega að vera 150 mínútur,“ segir Börkur kíminn að lokum.