Fáni Hreyfing ungs fólks gegn aðild Íslands að ESB er í undirbúningi.
Fáni Hreyfing ungs fólks gegn aðild Íslands að ESB er í undirbúningi.
„VIÐ teljum að það vanti málefnalega umræðu um áhrif aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

„VIÐ teljum að það vanti málefnalega umræðu um áhrif aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Umræðan er oft ansi einsleit,“ segir Brynja Halldórsdóttir, en hún er í forsvari fyrir hóp sem vinnur að því að stofna hreyfingu ungs fólks sem stendur gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Starfandi er hreyfing ungra evrópusinna og segir Brynja að full þörf sé fyrir vettvang þar sem ungt fólk sem er andsnúið aðild Íslands að Evrópusambandinu geti sameinast um að berjast gegn aðild. Brynja segir að sett hafi verið upp Face-book-síða og 800 manns hafi skráð sig á hana á sex dögum. Um 300 séu hins vegar á Facebook-síðu ungra evrópusinna. Hún segir þessa miklu þátttöku benda til þess að mikil andstaða sé meðal ungs fólks við aðild að ESB.

Brynja segir að 10-15 manna hópur hafi unnið að stofnun hreyfingarinnar. Í honum sé fólk úr VG, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og einnig fólk sem hafi ekki tekið neinn þátt í stjórnmálum. Fyrsta verkefni hreyfingarinnar verði að taka á móti tveimur fulltrúum systursamtakanna í Noregi. Brynja segir að hreyfingin ætli að vinna að stefnumáli sínu m.a. með kappræðum og með því að skrifa greinar í fjölmiðla.

Stofnfundur hreyfingarinnar verður haldinn laugardaginn 6. febrúar í sal Þjóðminjasafnsins kl. 13.00-16.00 og er hann opinn öllum. Félagið er opið öllum á aldrinum 16-36 ára og nauðsynlegt er að skrá sig sem stofnfélaga í gegnum heimasíðuna http://centrum.is/gk/. egol@mbl.is