FLORENT Malouda skoraði fyrsta mark Chelsea með skalla strax á sjöttu mínútu og Lampard bætti við tveimur mörkum. Birmingham hafði ekki tapað í síðustu 15 leikjum.
Fyrra mark Lampards var úr skoti af um 20 metra færi á 32. mínútu og síðara markið skoraði enski landsliðsmaðurinn af stuttu færi rétt fyrir leikslok, eftir sendingu frá Malouda.
Stöngin út hjá Arsenal
Það var mikið í húfi í Birmingham þar sem Aston Villa tók á móti Arsenal. Leiknum lauk með markalausu jafntefli en það gekk ýmislegt á í leiknum. Thomas Vermaelen, varnarmaður Arsenal, fór meiddur af velli þegar 35 mínútur voru liðnar og kom Sol Campbell inn á í hans stað. Spánverjinn Cesc Fabregas var nálægt því að koma Arsenal yfir undir lok fyrri hálfleiks þar sem hann átti hörkuskot í stöngina á marki Villa. Þegar fimmtán mínútur voru liðnar af síðari hálfleik þrumaði Tomás Rosický boltanum í þverslá Villa-marksins og niður úr dauðafæri.
Góður sigur Everton
Everton náði dýrmætum þremur stigum með 2:0-sigri gegn Sunderland á heimavelli. Ástralinn Tim Cahill skoraði fyrsta mark leiksins á 7. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Marouane Fellaini.
Rétt um tíu mínútum síðar skoraði bandaríski landsliðsmaðurinn Landon Donovan fyrir Everton.