[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Að gera starfsmönnum kleift að vinna vinnu sína á ferðinni eða að heiman hefur augljósa kosti í för með sér.

Að gera starfsmönnum kleift að vinna vinnu sína á ferðinni eða að heiman hefur augljósa kosti í för með sér. Starfsmaður sem þarf að vera heima, til dæmis til að sinna veiku barni er ekki lengur úr umferð allan daginn heldur getur sinnt verkefnum sínum í vinnuaðstöðu eða á fartölvu heima án þess að það komi niður á foreldrahlutverkinu. Stjórnandi á viðskiptaferðalagi eða ráðstefnu getur haft fingurinn á púlsinum þó hann sé staddur hinum megin á jarðkringlunni. Mörgum starfsmönnum þykir það líka auka mjög á lífsgæði að eiga þess kost að vinna hvort heldur á skrifstofunni eða heima og geta þannig til dæmis sparað sér langt ferðalag í vinnuna eða skapað aukinn sveigjanleika til að samræma vinnu og einkalíf.

Afköst og eftirlit

En að ýmsu þarf að huga áður en haldið er af stað út í þennan nýja heim frelsis og fjarfunda. Bæði starfsmenn og atvinnuveitendur þurfa að vera meðvitaðir um alls kyns gildrur sem fjarvinnan getur skapað.

Flestum vinnuveitendum er efst í huga að fjarvinnan komi ekki niður á afköstum og samskiptum. Því er ekki að neita að vinnuandinn á skrifstofunni eða aðhald stjórnenda og samstarfsmanna hvetur marga áfram yfir daginn. Að vinna sjálfstætt á alls ekki við alla, eða getur kallað á vissa aðlögun. Leita má lausna eins og að setja verkefnakvóta eða hafa samband við starfsmanninn yfir daginn til að tékka á stöðunni.

Öryggismál þarf einnig að hafa á hreinu. Ef svo ber undir þarf tölvan sem starfsmaðurinn notar við vinnu sína að vera tengd höfuðstöðvunum með öruggri tengingu, og einnig þarf að huga að afritun gagna, vírusvörnum og meta líkurnar á því að vélbúnaður með mikilvægum upplýsingum bili eða glatist.

Vinnuveitendur þurfa líka að hafa á hreinu skyldur sínar hvað varðar öryggi starfsmannsins á heimavinnustöðinni. Þetta fyrirkomulag kann að kalla á breytingar á skilmálum skyldutrygginga, og mögulega þarf aðbúnaður að vera til staðar á ábyrgð vinnuveitandans, s.s. skyndihjálparkassi.

Svæði helgað vinnu

Starfsmenn þurfa einnig að vera varir um sig og margir þurfa að finna leiðir, bæði til að halda dampi við vinnuna og að halda góðum tengslum við samstarfsfólkið.

Góð regla er að koma sér upp afmarkaðri vinnuaðstöðu, sem er sem mest aðskilin frá heimilinu. Að hafa sérstakt vinnuherbergi getur breytt öllu, og ekki síst breytt hugarfarinu: það er allt annað að koma inn í afmarkað vinnurými en að dútla við vinnu við eldhúsborðið.

Að halda reglu á vinnunni skiptir líka máli. Að hefja vinnu á vissum tíma, ljúka vinnu á vissum tíma, og standa við áætlunina er bráðnauðsynlegt. Annars er auðvelt að falla í þá gryfju að taka vinnuna ekki alvarlega, slæpast jafnvel fram eftir morgni í makindum, fara síðan allt of seint af stað, og jafnvel ekki ná að ljúka tilskildum verkefnum eða þurfa að vinna fram á kvöld.

Það verður að forðast hvers kyns truflanir. Ef þú ert með vinnuherbergi, þá lokaðu dyrunum til að fá næði. Ekki hafa kveikt á sjónvarpinu ef þú kemst hjá því og ekki láta aðrar freistingar trufla. Ekki vanrækja heldur snyrtimennskuna: farðu í sturtu áður en vinnudagurinn hefst og klæddu þig í vinnufötin.

Aðstaða og samband

Vinnuaðstaðan þarf að vera góð. Að sitja á eldhúskollinum heilan vinnudag fer fljótt með heilsuna. Lýsing, stóll, borð, og tækjabúnaður þarf að vera í samræmi við notkun. Vitaskuld þarf síðan nægt rými fyrir þau verkefni sem eru fyrir hendi. Vinnurýmið þarf að vera snyrtilegt og hreint, vinnufletir og hirslur eins og þarf.

Sú hætta er vissulega til staðar að missa svolítið sambandið við vinnustaðinn þegar unnið er heima. Sumir stjórnendur kunna ekki lagið á að nýta fjarstarfsmenn sem skyldi eða taka ekki eftir framlagi þeirra til vinnustaðarins til jafns við aðra. Góð samskipti og vináttubönd innan vinnustaðarins skipta líka máli upp á afköst, samstarf og framtíðarmöguleika innan fyrirtækisins. Meta þarf hvert tilvik fyrir sig en oft er gott að rækta sambandið við stjórnendur og kollega eins vel og hægt er með tækninni og verða þannig ekki eins og vofa hjá fyrirtækinu. Notaðu símtækið, vefmyndavélina og spjallforritið til að vera sýnilegri. Kíktu inn á vinnustaðnum reglulega til að minna á þig og halda góðu sambandi við reksturinn.

Síðast en ekki síst þarf að gæta þess að vinnan komi ekki niður á einkalífinu. Eins og það er auðvelt að slæpast er líka auðvelt að láta vinnuna taka yfir. Þegar vinnan er komin heim í stofu er freistandi að klára eitt lítið verkefni eftir kvöldmat, eða svara nokkrum póstum fyrir háttinn. Það er gott að vera vandvirkur og vökull en hætt við að fari úr böndunum þegar vinnustaður og heimili renna saman.