HJÚKRUNARRÁÐ Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, HSS, lýsir í nýrri ályktun furðu sinni á vinnubrögðum sem viðhöfð voru við gerð skýrslu um endurskipulagningu sjúkrahúsþjónustu á suðvesturhorninu sem heilbrigðisráðuneytið lét gera.

HJÚKRUNARRÁÐ Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, HSS, lýsir í nýrri ályktun furðu sinni á vinnubrögðum sem viðhöfð voru við gerð skýrslu um endurskipulagningu sjúkrahúsþjónustu á suðvesturhorninu sem heilbrigðisráðuneytið lét gera. Hlutdrægni sé augljós við lestur skýrslunnar þar sem skýrsluhöfundar séu eingöngu starfsfólk heilbrigðisráðuneytisins og Landspítalans. Átelur hjúkrunarráðið vinnubrögð heilbrigðisráðuneytisins.

Jafnframt var samþykkt ályktun á fundi hjúkrunarráðsins þar sem lýst er áhyggjum af niðurskurði sem framundan er á HSS. Stofnunin fái mun minna fé úthlutað til rekstrar á hvern íbúa en sambærilegar heilbrigðisstofnanir á landinu. Framkvæmdastjórn HSS sé gert að skera niður útgjöld á þessu ári um 86,5 milljónir króna.

Þjónusta á hættustig

„Þjónusta við íbúa svæðisins hefur verið í lágmarki undanfarin ár hvað heilsugæsluna varðar og er á þessum tímapunkti komin á hættustig og álag á starfsfólk er mikið, þrátt fyrir að starfsfólk stofnunarinnar hafi náð að anna stórum hluta skjólstæðinga fyrir minna fé en aðrar stofnanir,“ segir í ályktuninni.

Bendir ráðið á að með fyrirhuguðum niðurskurði verði sykursýkimóttöku lokað, skurðdeild lokað, sem valdi skerðingu á starfsemi fæðingardeildar, sál- og félagsleg þjónusta verði skert eða henni hætt og lengri tímabundnar lokanir verði á líknar- og endurhæfingardeild.

„Stjórn hjúkrunarráðs HSS telur brýnt að koma því til skila að með áðurnefndum aðgerðum er þjónusta við sjúklinga verulega skert, öryggi þeirra ógnað og þjónustu við íbúa svæðisins stefnt í hættu,“ segir að endingu í ályktun ráðsins.

  • Átelja vinnubrögð
  • Óttast niðurskurð
  • Deildum lokað
  • Þjónusta skert
  • Öryggi ógnað

bjb@mbl.is