Á fullu Reikningsgerðarforritið iBilling er smíðað með þarfir einyrkja og smærri fyrirtækja í huga. Eydís Huld ásamt samstarfsmönnum sínum, Ívari Eiríkssyni og Snorra Þórðarsyni.
Á fullu Reikningsgerðarforritið iBilling er smíðað með þarfir einyrkja og smærri fyrirtækja í huga. Eydís Huld ásamt samstarfsmönnum sínum, Ívari Eiríkssyni og Snorra Þórðarsyni. — Morgunblaðið/ RAX
Það hafði víðtæk áhrif þegar SPRON fór á hausinn fyrir rösku ári. Meðal þeirra sem fengu að líða fyrir fall bankans var 36 manna hópur forritara hjá Teris, sem annast hafði tölvuþjónustu við sparisjóðina.

Það hafði víðtæk áhrif þegar SPRON fór á hausinn fyrir rösku ári. Meðal þeirra sem fengu að líða fyrir fall bankans var 36 manna hópur forritara hjá Teris, sem annast hafði tölvuþjónustu við sparisjóðina. „Okkur var sagt upp í lok apríl síðastliðins, daginn fyrir sumardaginn fyrsta. Á öðrum degi sumars hittumst við öll í hádegismat, og hópurinn settist að snæðingi við langborð. Þar kviknaði hugmyndin að fyrirtækinu sem í dag er Huglausnir,“ segir Eydís Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Huglausna.

Kjarni sem tók stökkið

Eins og verða vill voru ekki allir við hádegisverðarborðið áhugasamir um að taka þátt í hinu nýja fyrirtæki. „Fólk var á róti hingað og þangað og óljóst hvernig framtíðin yrði,“ segir hún. Mörgum í hópnum tókst innan tíðar að finna sér vinnu annars staðar en fljótlega komst mynd á fimm manna kjarna sem nú myndar fyrirtækið. „Sumir voru áhugasamir til að byrja með en höfðu ekki möguleika á að halda áfram með okkur. Það voru jú og verða engar tekjur í boði á þróunarferlinu. Mánuði eftir hádegisverðinn fengum við styrk hjá stéttarfélaginu okkar, SSF – Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja, sem greiddi meðal annars kostnað við sérstakt námskeið handa hópnum hjá Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins um stofnun fyrirtækja. Við fengum líka lánað ónotað húsnæði hjá Teris, en þegar við gátum ekki lengur verið þar styrkti stéttarfélagið okkur um leigu á nýrri aðstöðu,“ segir Eydís og bætir við að stuðningur og hvatning SSF hafi reynst hópnum ómetanlegur.

Fyrsta varan á leið á markað

Þrátt fyrir að fyrirtækið hafi ekki starfað nema í rösklega hálft ár er fyrsta vara Huglausna senn væntanleg á markað. „Það skorti ekki góðar hugmyndir í hópnum, en lendingin var að þróa áfram forritið Skriftir sem einn okkar hafði skrifað árið 2002 til reikningsgerðar,“ segir Eydís. „Forritið stóð enn fyrir sínu en ljóst að tímabært væri að gera útgáfu nr. 2, gera þessa lausn aðgengilega á netinu og vænlegast að selja í áskrift.“

Forritið hefur fengið heitið iBilling og er hugsað sem hluti af stærri þjónustupakka sem kallast iSolutions. „Við erum að ganga frá síðustu agnúunum. Maður vill ekki láta þetta í loftið án þess að vera 100% sáttur við verkið,“ segir Eydís. „Um er að ræða aðgengilegt en fjölhæft reikningsgerðarforrit, einkum hugsað með þarfir einyrkja og smárra fyrirtækja í huga. Hugsunin er að iBilling geri þennan hluta rekstrarins eins ódýran og einfaldan og hægt er fyrir notandann.“

Eydís segir samkeppnisaðilana á þessum markaði bjóða mun stærri forritunarpakka þar sem reikningsgerðin er hluti af viðameira bókhaldskerfi. „Svo stór lausn henti ekki smáum aðilum sem eru kannski að gefa út 2-3 reikninga og upp úr í hverjum mánuði. Það vantaði lausn á markaðinn sem var mitt á milli þess að fjárfesta í miklum bókhaldsbúnaði og þess að halda utan um reikningana handvirkt.“

Fyrst Ísland, svo heimurinn

Að sögn Eydísar á iBilling að geta létt minni seljendum verulega lífið. „Þetta forrit getur komið í staðinn fyrir að sitja við eldhúsborðið langt fram á kvöld við þessa iðju. Við hyggjum líka á að bæta fleiri tólum við forritið, meðal annars verkbókhaldi með teljara sem verktaki getur til dæmis sett af stað þegar hann hefur vinnu og skráð beint inn á reikning þegar vinnu lýkur.“

Ef vel gengur munu Huglausnir ekki láta staðar numið hér á landi. „Við lítum á Ísland sem ákveðinn tilraunamarkað,“ segir Eydís. „Við teljum að iBilling geti vel átt góða möguleika erlendis, en áður en haldið er út í heim þurfum við að vera með reynslu af notkun vörunnar hér á landi.“