FL Glitnir lánaði Fons 10 milljarða til að kaupa bréf í FL Group í kjölfar gjaldþrots Gnúps.
FL Glitnir lánaði Fons 10 milljarða til að kaupa bréf í FL Group í kjölfar gjaldþrots Gnúps.
Eftir Þórð Gunnarsson thg@mbl.is Fons, fjárfestingarfélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, fékk 10,2 milljarða kúlulán 5. desember 2007 til að kaupa 635 þúsund hluti í FL Group á genginu 16,1.

Eftir Þórð Gunnarsson

thg@mbl.is

Fons, fjárfestingarfélag Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, fékk 10,2 milljarða kúlulán 5. desember 2007 til að kaupa 635 þúsund hluti í FL Group á genginu 16,1. Tekið var veð í bréfunum sjálfum, auk sölutryggingar sem Glitnir hafði veitt Fons á Skeljungi. Andvirði þeirrar tryggingar var greitt inn á lánið 8. september 2008, en út af standa 3,4 milljarðar króna sem skilanefnd Glitnis krefur nú þrotabú Fons um. Skiptastjóri Fons hefur samþykkt kröfuna.

Í upphafi var Gnúpur

Pálmi segir í samtali við Morgunblaðið að upphaf málsins megi rekja til þess að Gnúpur fór á hausinn í desember 2007: „Bankinn situr á þeim tímapunkti uppi með mikið af hlutabréfum í FL Group. Þá er farið af stað út um allan bæ og leitað að kaupanda,“ segir Pálmi. Hann bætir því við að á þeim tímapunkti hafi staða Fons verið mjög sterk. „Alveg eins og í Stím-málinu er ég fórnarlamb: Bankinn býður mér að kaupa afurð sem ég þáði. Mér er lánað út á kaupin. Ég er ekki tilbúinn að gera þetta nema selja eitthvað á móti. Glitnir vill ekki kaupa Skeljung af mér, þannig að ég fæ sölutryggingu. Sú trygging er síðan einnig notuð sem veð í kaupum á þessum FL-bréfum, ásamt veði í bréfunum sjálfum.“ Þegar Pálmi er inntur svara við því hvort Glitnir hafi viljað selja bréfin í heild til Fons til þess að halda gengi þeirra uppi segist hann ekki vita það og bendir á bankann. „Þetta er ekki flókið. Ég gerði risastór mistök, og það var að kaupa þessi FL Group-bréf af Glitni. Það er enginn vafi að þetta eru stærstu mistök sem ég hef gert í viðskiptum, og saga mín væri öðruvísi ef ég hefði ekki gert þetta,“ segir Pálmi.

Vandinn var mikill árið 2007

Pálmi harmar umfjöllun Morgunblaðsins síðustu daga um fjármál Fons, og tekur fram að um mitt ár 2007 hafi félagið verið skuldlaust gagnvart Glitni. „Ef tilfellið er að Fons hafi fengið lán út á léleg veð,“ segir Pálmi, „er þá ekki meira fréttaefni að bankinn skuli hafa samþykkt þau veð og veitt lán út á þau?“ Hann heldur áfram: „Ég held að flestir séu sammála um að vandi Íslands hafi verið orðinn mikill strax í upphafi 2007, en það kemur ekki í ljós fyrr en núna. Meðal annars sannar vönduð blaðamennska það,“ segir Pálmi í samtali við Morgunblaðið.