Glæsileg gjöf Lions Guðmundur H. Guðmundsson, Ólafur S. Vilhjálmsson, Guðrún Björt Yngvadóttir, Sigrún Stefánsdóttir, Stefanía Anna Einarsdóttir og Kristinn Hannesson þegar Lionsmenn afhentu bifreiðina.
Glæsileg gjöf Lions Guðmundur H. Guðmundsson, Ólafur S. Vilhjálmsson, Guðrún Björt Yngvadóttir, Sigrún Stefánsdóttir, Stefanía Anna Einarsdóttir og Kristinn Hannesson þegar Lionsmenn afhentu bifreiðina. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lionshreyfingin á Íslandi afhenti í vikunni skammtímavistun á Skólastíg 5 til eignar Renault Trafic-bíl sem heimilið hefur haft til afnota undanfarin ár.

Lionshreyfingin á Íslandi afhenti í vikunni skammtímavistun á Skólastíg 5 til eignar Renault Trafic-bíl sem heimilið hefur haft til afnota undanfarin ár. Hann er sérútbúinn fyrir fimm farþega og tvo hjólastóla að auki, ásamt hjólastólaakstursbraut til að auðveldara sé að komast inn í bifreiðina.

Bíllinn hefur verið á rekstrarleigu undanfarin ár, Lionshreyfingin hefur greitt allan kostnað en ákvað nú að kaupa bílinn og afhenda hann skammtímavistuninni að gjöf ásamt 2,5 milljónum króna sem ætlað er að standa undir rekstrarkostnaði bifreiðarinnar næstu árin. Verðmæti gjafarinnar er um 6,5 milljónir króna.

Lionsmenn á Íslandi stóðu fyrir landssöfnun undir merki Rauðu fjaðrarinnar árið 2004, söfnun sem tileinkuð var langveikum börnum, og í samráði við regnhlífarsamtök þess hóps var ákveðið að verja söfnunarfénu til að greiða kostnað vegna tveggja sérútbúinna bifreiða fyrir fatlaða. Önnur hefur verið á vistheimilinu Rjóðri í Kópavogi og hin á Akureyri en Lionshreyfingin afhenti Rjóðrinu hinn bílinn að gjöf á dögunum.

Sannarlega glæsilegt framtak þeirra Lionsmanna og til eftirbreytni.

Það voru þær Sigrún Stefánsdóttir, formaður félagsmálaráðs Akureyrarbæjar, og Stefanía Anna Einarsdóttir, forstöðumaður skammtímavistunar fatlaðra, sem tóku við þessari rausnarlegu gjöf frá Lionsmönnum, en fyrir þeirra hönd afhentu gjöfina Guðmundur H. Guðmundsson og Ólafur S. Vilhjálmsson, sem báðir eru úr rauðufjaðrarnefnd Lionshreyfingarinnar, Guðrún Björt Yngvadóttir, fjölumdæmisstjóri Lionshreyfingarinnar á Íslandi, og Kristinn Hannesson, umdæmisstjóri 109B-umdæmis Lionshreyfingarinnar á Íslandi.

Tónleikaárið á Græna Hattinum hófst um síðustu helgi með tónleikum Skriðjöklanna, sem fóru á kostum í tali og tónum – ekki síst tali! Á morgun, föstudag, verða Magni Ásgeirsson og félagar í hljómsveitinni Killer Queen með tónleika á hattinum og á laugardagskvöldið kemur Gunnar Þórðarson fram. Hann verður einn á ferð með gítarinn.

Aðsókn í Hlíðarfjall hefur verið mjög góð það sem af er vetri; 23.500 manns hafa komið á skíði en gestirnir voru 13.500 á sama tíma í fyrra! Auk þess hafa helmingi fleiri vetrarkort verið seld. Þrátt fyrir að kröftug lægð með um 10 stiga hita hafi gengið yfir í byrjun vikunnar er skíðafærið í Hlíðarfjalli með betra móti og nægur snjór í öllum brekkum.

Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður skíðasvæðisins, segir að gott færi sé ekki síst að þakka þéttu undirlagi af snjó sem framleiddur var fyrr í vetur þegar hörkugaddur var dag eftir dag. Snjóframleiðslan í Hlíðarfjalli hafi því enn og aftur sannað gildi sitt. Hitastig á Akureyri var við frostmark í gær en kuldakafla er nú spáð.

Skapti Hallgrímsson