Tækifæri Ólafur Andri Ragnarsson segir happdrættismarkaðinn velta um 23.000 milljörðum árlega en aðeins 1-2% af þessari veltu er í gegnum internetið.
Tækifæri Ólafur Andri Ragnarsson segir happdrættismarkaðinn velta um 23.000 milljörðum árlega en aðeins 1-2% af þessari veltu er í gegnum internetið. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óhætt er að segja að það fari ekki mikið fyrir Betware.

Óhætt er að segja að það fari ekki mikið fyrir Betware. Þrátt fyrir að velta árlega yfir milljarði króna og vera með yfir 100 starfsmenn og skrifstofur á fimm stöðum í heiminum vita sennilega sárafáir hér á landi um spennandi starfsemi þessa hugbúnaðarfyrirtækis. „Við erum vissulega ekki þekkt fyrirtæki á Íslenskum markaði og látum lítið fyrir okkur fara. Það hefur jafnvel staðið okkur fyrir þrifum þegar við bætum við okkur starfsfólki að enginn veit hvað Betware er,“ segir Ólafur Andri Ragnarsson hugbúnaðararkitekt glettinn en hann er einn af stofnendum fyrirtækisins. „Okkar markaður er nánast allur erlendis og í lottó-heiminum erum við mjög vel þekkt.“

Sáu tækifæri fyrir 15 árum

Betware býr til netlausnir fyrir getraunir og happdrættisleiki. Ólafur Andri rak ásamt félögum sínum fyrirtækið Margmiðlun sem árið 1995 þróaði netlausn fyrir Íslenskar getraunir. „Þetta er um það leyti sem netið er að ná fótfestu, og við fengum það verk að útfæra Lengjuna fyrir netið,“ segir hann. „Þessi vara vakti mikla athygli og hingað til lands komu fulltrúar frá happdrættum víða um heim til að kynna sér hvernig þetta virkaði allt saman.“

Sú mikla athygli sem net-Lengjan fékk varð til þess að Ólafur og félagar sáu að þarna gætu reynst spennandi tækifæri. Betware varð síðan til árið 1998 og hefur vaxið öruggum skrefum síðan þá.

Netið olli byltingu

Viðskiptavinahópur Betware samanstendur í dag af ríkisreknum happdrættis- og getraunafyrirtækjum og spannar vöruframboðið úrval leikja, allt frá lottói og Lengju yfir í bingó og hestaveðreiðar. Ólafur segir að víðast hvar utan Íslands hafi happdrættisbransinn verið hægur að taka við sér á netinu. „Tilkoma netsins kom mörgum ríkisreknum happdrættum í opna skjöldu. Getraunamarkaðurinn hafði áður verið mjög einangraður í hverju landi fyrir sig, en með tilkomu netsins áttuðu menn sig á að hægt var að kaupa happdrættismiða hjá hverjum sem er, nánast hvar sem er í heiminum,“ segir hann. „Á árunum í kringum 1995-6 var mikið uppnám í lottóbransanum vegna netsins. Menn í þessum geira voru mjög óhressir með að netið virti engin landamæri. Sums staðar var afneitunin svo mikil að á endanum fóru starfsmenn ríkishappdrættanna að segja upp og fóru hreinlega í samkeppni við gamla vinnuveitandann með nethappdrætti. Smám saman hefur hugarfarsbreyting átt sér stað og núna nýta öll happdrætti netið fyrir sínar vörur á einn eða annan hátt.“

Fáir en stórir viðskiptavinir

Mikill vöxtur er í starfi Betware og á síðasta ári bætti fyrirtækið við sig 20 starfsmönnum. „Við höfum frá upphafi reynt að halda góðum og stöðugum vexti, leyfa rekstrinum að vaxa og dafna náttúrlega og gætt þess að skuldsetja fyrirtækið ekki um of,“ segir Ólafur Andri. Betware þjónustar í dag fáa en stóra viðskiptavini: danska ríkislottóið, lottó Bresku Kólumbíu, spænska ríkislottóið sem meðal annars selur El Gordo, og svo Íslenska getspá.

Ólafur Andri segir tækifærin enn leynast víða og um gríðarstóran markað að ræða. „Talið er að markaðurinn fyrir lottó- og getraunaleiki velti um 23.000 milljörðum á ári, og er þá aðeins um að ræða þann hluta sem starfar með opinberu leyfi. Aðeins 1-2% af þessari veltu er í gegnum netið og fer sá hluti vaxandi,“ segir hann en bætir við að þar sem Betware starfar sé netsala með mun stærri hlutdeild, til dæmis 20% í Danmörku og allt að 40-50% á Íslandi eftir hvaða leikir eiga í hlut. „Ef „grái“ markaðurinn er tekinn með erum við síðan að tala um miklu hærri tölur. Merril Lynch áætlar til dæmis að heildarvelta leikjamarkaðarins á netinu verði um 70.000 milljarðar árið 2015.

Miklir möguleikar

Þegar svona miklir fjármunir eru í spilinu er ekki nema von að samkeppnin sé hörð. Ólafur segir Betware þó standa vel að vígi. „Við stöndum ágætlega í samanburði við samkeppnisaðila sem eru okkur margfalt stærri. Það gefur okkur forskot að hafa búið til kerfi sem frá grunni var sérhannað til að meðhöndla leikjafærslur í gegnum okkar eigin miðlara,“ segir hann. „Það eykur síðan á samkeppnisfærnina að mjög auðvelt er að bæta við leikjum en í dag erum við þegar með yfir 100 leiki af öllum tegundum sem spila má í kerfinu okkar.“

Í hnotskurn
» Auk höfuðstöðvanna á Íslandi er Betware með skrifstofur í Danmörku, Kanada, á Spáni og í Póllandi.
» Fyrirtækið á einnig leikjafyrirtækið Certus í Óðinsvéum sem Betware keypti árið 2006.
» Hérlendis starfa 60 manns hjá fyrirtækinu en á skrifstofunum erlendis 5-10 manns á hverjum stað.
» Starfsmönnum var fjölgað um rösklega 27% á árinu 2009.
» Á ári hverju fara tugir milljarða gegnum kerfi Betware í formi sölu happdrættisleikja.
» Ein milljón spilara notar kerfi frá Betware og vel á þriðju milljón ef fjölspilunarleikir eru taldir með.

Fólk vill leiki

Ólafur Andri kveðst líta á Betware sem leikjafyrirtæki. Þróunin í sölu happdrættis gegnum netið sé líka í þá átt að veita kaupendum meiri afþreyingu. „Happdrættisfyrirtækin hafa gert sér grein fyrir þessu og vilja selja viðskiptavinum sínum leiki sem hægt er að njóta í smátíma. Bingó er til dæmis mjög vinsælt þar sem hægt er að verja stundarkorni við leikinn og spjalla við aðra í „salnum“ á meðan tölurnar eru lesnar upp,“ segir hann. „Rafrænir skafmiðar eru líka vinsælir, enda veita þeir lengri spilunartíma og gagnvirkni sem eykur á skemmtunina og spennuna.“

Mikið af áhugaverðum tækifærum er í sjónmáli. „Þessi markaður er stöðugt að breytast og verða fjölbreyttari. Nýir leikir koma inn, ný tækni og nýir miðlar,“ segir hann. „Víða eru nýir markaðir að opnast og til dæmis hugsanlegt að bandaríski markaðurinn opnist á næstu árum en þar hefur öll happdrættisstarfsemi á netinu verið bönnuð til þessa.“

Ólafur Andri sér til dæmis sóknarfæri í að markaðssetja þann leik vestanhafs að „tippa í beinni“. „Íslenskar getraunir bjóða upp á þennan leik þar sem leikendur geta lagt undir um hvað gerist næst til dæmis í fótboltaleik: hvaða lið muni skora næst eða hafa sigur í leiknum, allt á meðan leikurinn er enn í gangi.“

Hann er einnig spenntur fyrir þeim möguleikum sem skapast hafa með tilkomu nettengdra farsíma eins og iPhone. „Víða um heim þar sem netnotkun eða tölvueign er lítið útbreidd eru allir eftir sem áður með farsíma. Og þessir símar eru farnir að verða svo öflugir að notkunarmöguleikarnir geta jafnast á við skrifborðstölvuna heima.“

Öryggið skiptir öllu

Það ætti ekki að koma á óvart að mikilvægasti eiginleiki happdrættis á netinu er að geta tryggt öryggi leiksins og svo að ekki sé hægt að svindla. „Hinn almenni kaupandi gerir sér ekki grein fyrir því en gríðarlega mikil og flókin vinnsla er á bak við jafneinfaldan hlut og að kaupa lottómiða á gegnum netið. Alls kyns kerfi koma að ferlinu og tryggja bæði að hægt sé að fara yfir hverja færslu en um leið ekki hægt að svindla á einn einasta máta,“ segir Ólafur Andri.

Sem dæmi er algjör alskilnaður á milli þeirra starfsmanna sem starfa við slembitölvuna svokölluðu – sem velur tölur af handahófi – og þeirra sem búa til sjálft leikjakerfið. „Þeir sem hanna leikina mega ekki hafa neinn aðgang að slembiboxinu og öfugt,“ segir hann. „Viðskiptavinir okkar eru ríkisfyrirtæki sem gera mjög strangar kröfur á alla þessa þætti og hvert skref í ferlinu þarf að hljóta vottun um að standast ákveðna staðla.“