Vinsældir „Í dag koma um 70% af tekjum farþegaflutninga félagsins gegnum heimasíðuna,“ segir Stefán.
Vinsældir „Í dag koma um 70% af tekjum farþegaflutninga félagsins gegnum heimasíðuna,“ segir Stefán. — Morgunbalðið/ RAX
Sennilega hefur enginn geiri íslensks viðskiptalífs náð jafnmiklum árangri í netsölu og flugfélögin. Flugfélag Íslands er þar engin undantekning og hóf að selja flugmiða á netinu strax árið 2000. „Í dag fer langmest af sölunni fram á netinu.

Sennilega hefur enginn geiri íslensks viðskiptalífs náð jafnmiklum árangri í netsölu og flugfélögin. Flugfélag Íslands er þar engin undantekning og hóf að selja flugmiða á netinu strax árið 2000. „Í dag fer langmest af sölunni fram á netinu. Það að geta selt flug gegnum netið gjörbreytti viðskiptaháttunum hjá fyrirtækinu og varð raunar til þess að salan jókst til muna,“ segir Stefán J. Arngrímsson, vefstjóri hjá Flugfélaginu. „Í dag koma um 70% af tekjum farþegaflutninga félagsins gegnum heimasíðuna.“

Bættir sölumöguleikar

En hvernig gat notkun netsins orðið til þess að auka sölu? „Netið gerði okkur kleift að gefa viðskiptavinunum betri yfirsýn yfir flugmöguleika og fargöld. Að hafa sölukerfið þægilegt í notkun og söluferlið fljótlegt stytti jafnframt verulega þann tíma og fyrirhöfn sem fólst í að kaupa miða,“ útskýrir Stefán.

Hann bætir við að netklúbbur Flugfélagsins hafi skapað nýja möguleika í sölu. „Um 22.000 manns eru skráðir á listann hjá okkur og við sendum í viku hverri út tilboð og upplýsingar um viðburði í nálægð við áfangastaði okkar ,“ segir Stefán. „Það sést vel hvað netklúbburinn virkar vel, og áhrifanna gætir strax í sölu um leið og nettilboð fara í loftið.“

Neyslumynstrið breytt

Bætt yfirsýn og aðgengi að tilboðum telur Stefán að hafi líka breytt neyslumynstri landsmanna: „Á netinu er auðvelt að sjá hvaða tilboð eru í gangi og freistandi er að vera snöggur til og kaupa flug á mjög góðu verði. Það er enda orðið töluvert meira um það en áður að fólk skreppi til dæmis norður í leikhús eða á skíði og ósjaldan er ákvörðunin um þannig skemmtiferðir tekin með stuttum fyrirvara.“

Loks skákar ekkert netinu þegar kemur að því að tryggja góða nýtingu á flugsætum: „Ef við sjáum að það er léleg nýting á vélum er hægt um vik að senda út tilboð, og það hjálpar oft heilmikið. Góð almenn nýting á vélum félagsins helst svo í hendur við að geta boðið gott verð.“

Ná betur til útlendinga

Að selja flugfargjöld gegnum netið þjónar ekki aðeins innlendum viðskiptavinum, bendir Stefán á. Hluta af söluaukningunni megi líka rekja til þess að erlendir ferðamenn eiga nú auðveldara með að skoða og kaupa sér flug, jafnvel áður en komið er til landsins. „Við förum bráðlega af stað með herferð í samstarfi við Google í Danmörku til að styrkja okkur enn frekar á þeim markaði, en það er ljóst að netið gerir innanlandsflug mun sýnilegra og aðgengilegra fyrir innlenda jafnt sem erlenda ferðamenn.“

Stöðug þróunarvinna

Að færa sölustarfsemi flugfélagsins á netið hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig. „Þetta er og hefur verið heilmikil vinna, og við vinnum stöðugt að bótum á kerfinu. Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki nái árangri á netinu og getur verið langt ferðalag,“ segir Stefán. „Núna erum við að bæta við vefinn þeim möguleika að viðskiptavinir geti sjálfir breytt bókunum sínum, en sú þjónusta hefur til þessa aðeins verið fáanleg í gegnum síma með tilheyrandi fyrirhöfn fyrir viðskiptavininn. Einnig er vinna í gangi við að innleiða netinnritun og geta farþegar þá innritað sig í flugið sjálfir ákveðnum tíma fyrir brottför. Samkvæmt nýjustu þjónustukönnun voru 94,2% viðskiptavina Flugfélags Íslands sem bókuðu á netinu ánægð með notkun bókunarvélarinnar sem er kjarni netviðskiptanna. Við erum mjög stolt af þessum tölum og þetta er okkur hvatning í áframhaldandi þróun.“

Flugfélag á Facebook

Eins og mörg önnur fyrirtæki hefur Flugfélag Íslands haldið innreið sína á samfélagsvefinn Facebook. Stefán segir þó ekki ætlunina að Fésbókar-svæði félagsins verði einskonar endurtekning á netklúbbnum sem sendir út tilboð í viku hverri.

„Við lítum á Facebok sem möguleika á auknum samskiptum og beinna sambandi við viðskiptavini. Hugmyndin er að hafa Flugfélag Íslands lifandi á Facebook, eiga þar samræðuvettvang við viðskiptavini og setja inn kynningarefni og myndir úr daglegu starfi,“ segir hann. „Þetta getur orðið frábær leið til að ná til viðskiptavina án þess að það þurfi endilega að vera sölutengt og auðveld leið til að taka við hrósi eða bregðast við kvörtunum og athugasemdum.“

Flugfélag Íslands verður á Facebook á þremur tungumálum. „Við munum ekki síst leggja áherslu á dönskuna og erum þá með frændur okkar á Grænlandi í huga en þar nýtur Facebook mjög mikilla vinsælda og getur reynst góð leið til að ná enn betur til þessa kúnnahóps.“