Heimir Örn Herbertsson
Heimir Örn Herbertsson
Eftir Heimi Örn Herbertsson: "...af hverju var ríkisstjórnin, sem hefur lýst sig fylgjandi því að Íslendingar verði látnir taka hinar svokölluðu Icesave-skuldbindingar á sig, að þybbast við að koma málinu í gegnum Alþingi?"

Í FRÉTTATÍMA Ríkisútvarpsins í fyrrakvöld var því haldið fram að yfirlýsingar íslenskra ráðamanna nokkrum dögum eftir fall íslensku bankanna, sem lutu að því hvort og hvernig erlendir innistæðueigendur Icesave-reikninga væru tryggðir með fjármuni sína, kynnu að skuldbinda íslenska ríkið. Í frétt RÚV um þetta var vitnað til ummæla Þórdísar Ingadóttur dósents um að ummæli þjóðhöfðingja, forsætis- og utanríkisráðherra skuldbindi ríki þeirra og að tilteknar yfirlýsingar ráðamanna hér gætu falið í sér skuldbindingu fyrir íslenska ríkið óháð túlkun á tilskipun Evrópusambandsins um Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta.

Erfitt var að skilja frétt RÚV, sem byggði á sjónarmiðum Þórdísar um þessi efni, öðruvísi en svo að hugsanlega hefðu þáverandi forsætisráðherra og ríkisstjórn, með yfirlýsingu og fréttatilkynningu, í raun fellt þær fjárskuldbindingar á íslenska ríkið sem þrefað hefur verið um á Alþingi nú mánuðum saman og sem lagðar verða í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu á næstunni. Ef þetta væri rétt liggur beint við að spyrja, af hverju var ríkisstjórnin, sem hefur lýst sig fylgjandi því að Íslendingar verði látnir taka hinar svokölluðu Icesave-skuldbindingar á sig, að þybbast við að koma málinu í gegnum Alþingi? Ef íslenskir ráðamenn voru löngu búnir að skuldbinda okkur með yfirlýsingum sínum var varla nokkur þörf til þess? Og hvers vegna er þá ríkisstjórnin að vandræðast með þjóðaratkvæðagreiðsluna sem halda þarf í kjölfar synjunar forseta Íslands á staðfestingu laganna um þetta sem ríkisstjórninni tókst loks að knýja í gegnum þingið? Ef marka má þær hugleiðingar sem skilja mátti af frétt RÚV er þetta allt saman óþarft þar sem íslenska ríkið tók á sig, með bindandi hætti þannig að ekki verður undan því vikist, allar Icesave-skuldbindingarnar með fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar í október 2008.

Hér hlýtur að vera einhver misskilningur á ferð. Að íslenskum stjórnskipunarrétti þurfa ríkisstjórn og ráðamenn, handhafar framkvæmdavaldsins, að afla sér heimildar hjá Alþingi Íslendinga fyrir hverri fjárskuldbindingu sem ríkið er látið takast á hendur. Þess vegna eru alþjóðlegir samningar sem eiga að hafa réttaráhrif gagnvart Íslandi og íslenska ríkinu lagðir fyrir Alþingi til samþykktar eða synjunar en ekki látið sitja við að t.d. utanríkisráðherra jánki samningnum í samtali við erlenda kollega sína.

Einhverjar yfirlýsingar íslenskra ráðamanna eða sjónarmið sem fram koma í fréttatilkynningum, minnisblöðum eða símtölum hérlendra ráðherra við erlenda kollega sína eða aðra geta ekki fellt fjárskuldbindingar á íslenska ríkið nema til þess standi lagaheimild. Þetta gildir óháð öllum ágreiningi sem fyrir hendi er um hvernig skuli túlka tilskipanir Evrópusambandsins um innistæðutryggingar. Lögfræðilegan ágreining um þýðingu þeirra reglna ber að mínum dómi að leggja fyrir dómstól til úrlausnar og heimild fyrir ríkissjóð til að greiða eða ábyrgjast kröfur erlendra innistæðueigenda Icesave-reikninga ber að afgreiða á Alþingi við Austurvöll eftir að slík úrlausn er fengin.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.