Svanþrúður (Svana) Frímannsdóttir fæddist í Hafnarfirði 7. janúar 1930. Hún lést á líknardeild Landakotsspítala 20. janúar sl. Foreldrar Svanþrúðar voru hjónin Frímann Þórðarson, málari í Hafnarfirði, f. 23. apríl 1893, d. 3. júní 1979, og Guðrún Ólafsdóttir, f. 16. febrúar 1893, d. 9. júní 1979. Systkini Svanþrúðar eru Gróa, f. 1919, Ólafur, f. 1921, d. 1987, Elín, f. 1924, d. 2006, Þorsteinn, f. 1926, d. 1982, Guðjón, f. 1928, og Einar Frímannsson, f. 1931, d. 2004.
Eiginmaður Svanþrúðar var Sigurvin Snæbjörnsson byggingameistari úr Vestmannaeyjum, f. 29. mars 1926, d. 16. janúar 1997. Börn þeirra eru: 1) Guðný, f. 28. nóvember 1947, maki Kristinn Atlason, börn þeirra eru Svanhildur, Aðalbjörg Sif og Kjartan Geir. 2) Guðný Ó., f. 1950, maki Kaare Solem, börn hennar eru Steinunn (Viðarsdóttir) Poulsen, Sigurvin (Joshua) Viðarsson og Helga Madsen. 3) Sif, f. 5. desember 1951, maki Jón L. Sigurðsson, sonur þeirra er Sigurvin. 4) Ethel Brynja, f. 29. maí 1956, maki Daníel Sigurðsson, börn þeirra eru Anna Dagmar, Svanur, Tinna Sif og Aron Örn. Auk þess á Svanþrúður 14 barnabarnabörn.
Svanþrúður ólst upp í Hafnarfirði en fluttist ung til Vestmannaeyja með verðandi eiginmanni sínum og hóf þar búskap. Þau giftust 10. janúar 1948, eignuðust börn sín í Eyjum og fluttust til Hafnarfjarðar 1959 þar sem maður hennar starfaði við húsamíði. Svanþrúður vann við aðhlynningu á Vífilsstöðum og á Landspítala Íslands.
Útför Svanþrúðar verður gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, fimmtudaginn 28. janúar 2010, og hefst athöfnin kl. 13.
Elsku amma Svana. Alltaf þegar við keyrum í búðina vil ég kíkja í heimsókn því þannig var rúnturinn alltaf, ef við fórum í Samkaup komum við í kaffi til þín. Ég sakna þín og ég er nokkuð viss um að þar sem þú ert farin til Guðs hafir þú tekið húsið þitt með þér og nú sé ekkert hús á Laufvangi lengur. Mér finnst heldur ekki sanngjarnt að ég fái ekki aftur að kyssa þig og knúsa. Ég dansaði alltaf fyrir þig og þótti svo skemmtilegt að fá að leika með þér. Þú lést börnunum líða eins og það væri ekkert annað sem þyrfti að gera, það var ekkert til nema þau og þú gafst þeim þig alla. Mömmu er einstaklega minnisstætt þegar þú komst í sumarbústaðinn með okkur síðasta sumar og ég bað þig að koma út að leika, þegar mamma svo leit út sátum við saman í mölinni, þriggja ára pían og áttræð konan, að skoða blóm. Ótrúlega flottar saman.
Þú varst alltaf tilbúin til að passa okkur og meira að segja rétt áður en þú varst lögð inn á spítala léstu mömmu vita eins og svo oft áður að það væri minnsta málið að vera með okkur stelpurnar.
Undanfarin ár bættust líka fjölmörg barnabörn í hópinn og það nýjasta aðeins 19 dögum áður en þú kvaddir, þú varst orðin svo spennt að hitta litlu dísina og það er svo gott að það gekk eftir, annars er ég nokkuð viss um að þú hefðir beðið eftir henni. Þú varst nefnilega alltaf svo þolinmóð og tilbúin að bíða eftir börnunum þínum.
Þegar þú hittir pabba minn tókstu honum opnum örmum og eins og hefur svo vel komið í ljós mynduðust milli ykkar sterk tengsl og mamma veit að þér hefði ekki þótt vænna um hann þótt hann hefði verið af þínu eigin holdi og blóði. Hann hikaði heldur aldrei við að gantast í þér og þú í honum, mömmu fannst oft eins og þið væruð unglingar við eldhúsborðið þitt. Þar var mikið hlegið við hlaðið borð af smákökum auk ógleymanlegu brúnkökunnar þinnar með hvíta kreminu. Hennar og vanilluhringjanna verður saknað, sérstaklega á jólum.
Vertu blessuð, elsku amma Svana, við söknum þín.
Kveðja,
snúllurnar þínar,
Ethel María Haukdal
Jónsdóttir, Eyrún Arna
Haukdal Jónsdóttir.
Þegar ég var barn var ég mikið hjá þér og afa, ég man ekki mikið eftir þeim tíma en er nokkuð viss um að sá tími lagði grunn að þeirri miklu vináttu sem við áttum seinna meir. Þú varst ekki bara amma mín, þú varst vinkona mín, svo ótrúlega sönn og trú, alltaf til staðar með góð ráð og hreinskilin með eindæmum. Við töluðum um allt sem skipti máli og það sem engu máli skipti. Það var svo gott að tala við þig og sjá hvernig þú ljómaðir þegar þú talaðir um afa Siffa og um barnabarnabörnin ykkar. Fjölskyldan skipti þig miklu máli og við vorum á einu máli um það að fjölskyldan og tími með henni væri mun meira virði en veraldlegir hlutir. Enda elskum við þig ótrúlega mikið, eins og þú okkur. Þess vegna er ég svo þakklát fyrir það hvernig síðasta árið og síðustu vikurnar þínar voru í faðmi fjölskyldunnar.
Þú brostir allan hringinn á afmælisdaginn þegar við fengum okkur kaffi á Laufvanginum með allri fjölskyldunni. Mömmu þótti mikilvægt að þú fengir að eyða deginum heima og það var rétt. Mamma þekkti þig líka svo vel. Við töluðum líka mikið saman um hana mömmu, þér þótti undurvænt um hana og varst afskaplega stolt af henni. Nú tek ég við því mér finnst hún líka vera svo ótrúlega flott, ég átti ykkur tvær, nú á ég hana og ég skal passa hana fyrir þig því ég veit að hún verður alltaf litla barnið þitt.
Elsku amma Svana, mikið sakna ég þín. Ég man þig ávallt og ég man afa. Armbandið sem þið gáfuð mér hef ég ekki tekið af mér öll þessi ár og mun ekki taka það af mér, það er hjá mér sem hluti af ykkur. Amma ég elska þig og ég bið svo vel að heilsa afa.
Saknaðarkveðja,
Anna Dagmar.
Þegar amma frétti að ég – Tinna Sif – væri á leiðinni í Háskólann varð hún svo hamingjusöm, amma fékk ekki mörg tækifæri til menntunar og óskaði þess að við fengjum þau tækifæri sem hún fór á mis við. Hún var svo stolt af stelpunni sinni sem hafði loks tekið ákvörðun um að ganga menntaveginn. Þegar ég kláraði stúdentinn gaf hún mér gullarmband sem ég ber á hverjum degi og minnist ömmu minnar. Hún var góð kona og var löngum stundum heima hjá okkur. Það verður skrítið að rekast ekki lengur á hana heima, að taka til, strauja og spyrja hvort maður hafi nokkuð borðað. Amma var svo góð og vildi allt fyrir börnin sín gera, þegar við gistum hjá ömmu var allt leyfilegt og okkar óskir voru í fyrirrúmi. Þar var enginn neyddur til neins, eins og að borða mat sem maður ekki vildi. Nei hún amma spurði hvað okkur langaði í og það fengum við, hvort sem það var ferð á KFC eða að amma hreinlega lærði að elda nýtískumat sem við óskuðum eftir svo sem burrito eða pítsu. Og alltaf var svo boðið upp á barnvænan morgunmat eins og Cocoa puffs og jógúrt sem ekki var í boði annars staðar. Hún amma mín var nefnilega þannig að hún krafðist þess aldrei að við löguðum okkur að henni heldur lagði hún sig fram um að aðlagast okkur, það eina sem hún fór fram á var að njóta samvista við okkur og það var auðvelt að verða við því.
Við amma áttum það líka sameiginlegt að vera miklir aðdáendur handbolta og ég veit að hún hefði notið þess að fylgjast með strákunum keppa þessa dagana. Síðasta kvöldið hennar ömmu sátum við systkinin með ömmu á spítalanum og horfðum á handboltann, en mamma reyndi að upplýsa ömmu um hvað væri að gerast því hún gat ekki fylgst með.
Amma elskaði okkur mikið og var ómissandi hluti fjölskyldunnar og heimilislífsins. Í öllum minningum um jól, afmæli, útskriftir, veislur og síðast en ekki síst um hversdagslíf fjölskyldunnar okkar þar er alltaf hún amma Svana með brosið sitt.
Elsku amma Svana við eigum eftir að sakna þín óskaplega, takk fyrir allt sem þú gafst og kenndir okkur.
Saknaðarkveðjur,
Tinna Sif Daníelsdóttir, Aron Örn Daníelsson.
En mínar eigin minningar eru margar og góðar. Sérstaklega þegar og afi bjugguð á Markarflötinni. Þar fékk ég að valsa um og stundum var farið niður að læk eða stungið af út í hraun. En svo fluttuð þið í Laufvanginn þar sem þú bjóst til æviloka.
Alltaf varstu til staðar þegar á þurfti að halda. Og það sem við eigum eftir að sakna eru kökurnar og pönnukökurnar sem þú bakaðir fyrir okkur öll jól og afmæli. Og góðar voru þær.
Mig langar til að þakka fyrir allar þær samverustundir sem við áttum saman síðustu árin og nú ertu búin að hitta afa aftur. Og sameinuð eruð þið.
Stefán Atli og Kristinn Ingi sakna þín mikið, en vita að nú líður þér mikið betur
Megi þú hvíla í friði.
Hörpu þinnar, ljúfa lag
lengi finn í muna.
Því ég minnist þín í dag,
þökk fyrir kynninguna.
(Á.K.)
Svanhildur.
Í huga mínum himinninn er fjarri
og held ég fái að vera hér um sinn.
Þó englar Guðs mér þrái að vera nærri
þeir fá þó bara að svífa um huga minn.
Þín návist Guð mér gefur allt svo mikið
og gakkt þú með mér ævi minnar veg.
Ég vild' þú gætir aldrei frá mér vikið
og bið þú verndir mig meðan ég er.
Það veit ei nokkur ævi sína alla
og án þín Guð er lífið búið spil.
Því á þig einhver engillinn mun kalla
þá endar þetta líf ef rétt ég skil.
Þá endar þetta líf ef rétt ég skil.
(Ólafur Sveinn Traustason)
Takk fyrir mig.
Þinn vinur,
Jón Haukdal.