23. mars 2010 | Erlendar fréttir | 479 orð | 1 mynd

Mikill sigur fyrir Barack Obama

*Gæti þó orðið til þess að demókratar misstu þingmeirihluta

Eftir Boga Þór Arason bogi@mbl.is FULLTRÚADEILD Bandaríkjaþings samþykkti í fyrrinótt umfangsmiklar breytingar á sjúkratryggingakerfi landsins og Barack Obama komst þá nær því markmiði sínu að knýja fram sjúkratryggingar fyrir alla Bandaríkjamenn.
Eftir Boga Þór Arason

bogi@mbl.is

FULLTRÚADEILD Bandaríkjaþings samþykkti í fyrrinótt umfangsmiklar breytingar á sjúkratryggingakerfi landsins og Barack Obama komst þá nær því markmiði sínu að knýja fram sjúkratryggingar fyrir alla Bandaríkjamenn.

Úrslit atkvæðagreiðslunnar eru álitin mikill sigur fyrir Obama sem hafði gert breytingar á sjúkratryggingakerfinu að forgangsverkefni sínu í innanríkismálum. Þessi sigur hlýtur að teljast pólitískt afrek í ljósi þess að fyrir aðeins tveimur mánuðum töldu margir fréttaskýrendur að sjúkratryggingafrumvarpið væri úr sögunni eftir ósigur demókrata í aukakosningum um annað sæti Massachusetts í öldungadeildinni. Ósigurinn varð til þess að demókratar höfðu ekki lengur nógu marga þingmenn, eða 60, til að geta hindrað málþóf af hálfu repúblikana.

Mestu breytingarnar í 45 ár

Bandarískir fjölmiðlar lýstu lagafrumvarpinu sem mestu breytingum á almannatryggingakerfinu í Bandaríkjunum í 45 ár, eða síðan Lyndon B. Johnson undirritaði lög um Medicaid, opinberar sjúkratryggingar fyrir lágtekjufólk og fatlaða, og Medicare, sjúkratryggingar fyrir 65 ára og eldri. Samþykkt frumvarpsins „tryggir að Obama forseta verður minnst í sögunni sem eins af örfáum forsetum sem fundu leið til að endurmóta félagslegt velferðarkerfi landsins“, skrifaði fréttaskýrandi The New York Times.

Dýrkeyptur sigur?

Flestir stærstu fjölmiðlarnir í Bandaríkjunum fögnuðu samþykkt frumvarpsins en bentu á að sigurinn gæti reynst Obama og demókrötum dýrkeyptur í þingkosningunum í nóvember vegna mikillar andstöðu við frumvarpið meðal kjósenda. „Þetta kann að reynast merkasta afrek stjórnar Obama, jafnvel þótt deilan um þetta mál geti orðið til þess að flokkurinn missi þingmeirihluta sinn,“ sagði Los Angeles Times í forystugrein.

„Deilunni um breytingar á sjúkratryggingakerfinu er ekki lokið með þessari atkvæðagreiðslu,“ sagði Costas Panagopoulos, stjórnmálafræðingur við Fordham-háskóla. „Þetta verður helsta deilumálið í komandi kosningum.“

Öldungadeild þingsins samþykkti sjúkratryggingafrumvarpið með 60 atkvæðum gegn 39 í desember. Gert er ráð fyrir því að Obama undirriti frumvarpið á næstunni og það verður þá að lögum. Í frumvarpinu eru þó nokkur óvinsæl ákvæði sem demókratar hafa fallist á að breyta. Öldungadeildin mun geta gert þær breytingar með því að samþykkja sérstakt frumvarp sem demókratar segja að þurfi aðeins samþykki hreins meirihluta, eða 51 þingmanns. Repúblikanar segja að slík afgreiðsla samræmist ekki stjórnarskránni og ætla að reyna að hindra breytingarnar.

Útvatnað frumvarp eða of mikill sósíalismi?

Nokkrir vinstrimenn í Bandaríkjunum hafa gagnrýnt sjúkratryggingafrumvarpið og sagt að ekki sé gengið nógu langt til að sjá öllum Bandaríkjamönnum fyrir sjúkratryggingu. Obama hafi fallist á of margar tilslakanir til að tryggja að frumvarpið yrði samþykkt.

Repúblikanar líta hins vegar á breytingarnar á sjúkratryggingakerfinu sem sósíalisma. Flestir stóru fjölmiðlarnir vestra fögnuðu frumvarpinu en The Wall Street Journal gagnrýndi það og sagði að með breytingunum væri ríkisstjórnin í Washington að sölsa allt heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum undir sig. Blaðið telur að lagafrumvarpið verði m.a. til þess að iðgjöld hækki, útgjöld ríkisins hækki, skortur verði á læknum og þjónustan versni.

„Sjúkratryggingafrumvarpið felur í sér allt það sem Bandaríkjamenn fyrirlíta í tengslum við stjórnkerfi okkar: aukin útgjöld, meiri ríkisafskipti, baktjaldamakk, pukur, rangar upplýsingar, kúvendingar, lýðskrum og svikin loforð,“ sagði repúblikaninn Marco Rubio.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.