Engin sök að biðja um koss ÍTALSKUR dómstóll kvað upp þann dóm á föstudag að koss væri aðeins koss og ekki glæpur þótt annar aðilinn hafni öllu kossaflensi.

Engin sök að biðja um koss

ÍTALSKUR dómstóll kvað upp þann dóm á föstudag að koss væri aðeins koss og ekki glæpur þótt annar aðilinn hafni öllu kossaflensi. Áfrýjunardómstóll í bænum Cortona sýknaði fimmtugan Ítala, Guido Mammoli, af ákæru um að hafa áreitt unga ferðakonu með því að ávarpa hana og biðja um koss. Undirréttur sýknaði manninn í fyrra en ríkissaksóknari áfrýjaði dómnum. "Ef við ættum að dæma alla sem slá öðrum gullhamra myndi dómskerfið lamast," sagði í úrskurði áfrýjunardómstólsins.