Listdansflokkur æskunnar Ballett í Óperunni Ballett Ólafur Ólafsson Listdansflokkur æskunnar: Ballett í óperunni. Danshöfundar: David Greenall, Aðalheiður Halldórsdóttir, Kristín Á.

Listdansflokkur æskunnar Ballett í Óperunni Ballett Ólafur Ólafsson Listdansflokkur æskunnar: Ballett í óperunni. Danshöfundar: David Greenall, Aðalheiður Halldórsdóttir, Kristín Á. Ögmundsdóttir, Ivgenia Makarova, Jules Perrot, Tom Bosman, Alvin Ailey, Lauren Hauser, Ingibjörg Björnsdóttir.

Tónlist: Úr ýmsum áttum.

Flytjendur: Sinfonietta æskunnar og ýmsir flytjendur.

Hljómsveitarstjóri: Ríkharður Þórhallsson.

Búningar: Coco, Joey.

Skólastjóri Listdansskóla Íslands: Ingibjörg Björnsdóttir.

Listdansstjóri: David Greenall.

Íslenska Óperan, apríl 1994.

Það hefur verið kraftur í starfsemi Listdansflokks æskunnar að undanförnu. Dagskráin hefur verið fjölbreytt, sýningarnar vel sóttar og stemmning á sýningum og móttökur áhorfenda með endæmum góðar. Þennan listdanshóp skipa þeir nemendur Listdansskóla Íslands, sem lengst eru komnir í námi og reyndar tveir dansarar úr Íslenska dansflokknum að auki. Allt er þetta tilkomið fyrir áhuga og áræði nemendanna og trú stjórnenda Listdansskólans á nema sína, en ekki síst fyrir ótrúlega elju, útsjónarsemi og kjark listdansstjóra flokksins, David Greenalls. Listdansflokkur æskunnar er nauðsyn dönsurunum til að þroskast sem listamenn, því þeir þurfa að koma verkum sínum fyrir áhorfendur. Ef tækifærin koma ekki uppí hendur manns, þá verður að skapa þau. Sýning Listdansflokks æskunnar í Íslensku óperunni er einmitt glöggt dæmi um það, þegar ungir vaxandi listamenn standa á sínu og skapa sér tækifæri.

Flokkurinn er ferskur blær í ballett á Íslandi í dag. Á sýningunni kenndi ýmissa grasa. Um helming efnisskrárinnar hefur flokkurinn sýnt áður. Af þeim hluta var það einkum Bændatvídansinn úr Giselle, sem hafði tekið stakkaskiptum. Búið var að sviðsetja þennan hefðbundna kafla nokkuð skemmtilega fyrir fjóra dansara. Hann gaf fleiri dönsurum tækifæri og var líka fallega og vel dansaður. Af nýjum atriðum er vert að minnast á Tilbrigði úr Þyrnirósu, eftir Lauren Hauser, sem nú starfar hér á landi eftir dansferil við New York City Ballett. Þessi sex klassísku sóló voru samin fyrir flokkinn og þjóna fyrst og fremst því hlutverki að þjálfa dansarana og gefa þeim nauðsynleg tækifæri til að reyna sig sem sólóistar. Það tókst dálítið misjafnlega, en í heild mjög þokkalega. Tom Bosman var gestakennari við Listdansskólann í vetur og setti saman Karakterdans fyrir stúlkurnar í hópnum. Það atriði var með ánægjulegustu atriðum kvöldsins og makalaust hvað stuttur tími hans hér á landi hefur skilað miklu af sér. Lokaatriði sýningarinnar var Valse triste sem Ingibjörg Björnsdóttir samdi við tónlist Jean Sibelius. Sinfonietta æskunnar undir stjórn Ríkharðs Þórhallssonar flutti tónlistina. Kóreógrafía Ingibjargar var falleg og hæfði tónlistinni mjög vel. Að vísu þrengdi sviðið nokkuð að dansinum og hann hefði notið sín mun betur á stærra sviði. Vandaður lokapunktur við góða kvöldstund.

Í heild mega aðstandendur sýningarinnar mjög vel við una eftir veturinn. Það er þrekvirki að koma upp sýningu sem þessari, án þess að hafa nokkra aðra sjóði en sína eigin til að ganga í. Þau hafa skapað sér sín eigin tækifæri. Samvinnan við tónlistarmennina er einnig mikilvæg. Þessi duglegu ungmenni hafa sannað dugnað og hæfileika með þessu og tendrað ljós, sem eflaust á eftir að skína mun skærar.