Kristján Gíslason hjá Radíómiðun hf. kærir Póst og síma fyrir brot á samkeppnislögum Telur söludeild misnota tölvugögn þjónustudeilda FRAMKVÆMDASTJÓRI Radíómiðunar hf. lagði í gær fram kæru til Samkeppnisstofnunar á hendur Pósti og síma (P&S;) vegna...

Kristján Gíslason hjá Radíómiðun hf. kærir Póst og síma fyrir brot á samkeppnislögum Telur söludeild misnota tölvugögn þjónustudeilda

FRAMKVÆMDASTJÓRI Radíómiðunar hf. lagði í gær fram kæru til Samkeppnisstofnunar á hendur Pósti og síma (P&S) vegna meintra brota gegn ákvæðum samkeppnislaga. Kristján Gíslason framkvæmdastjóri krefst þess að söludeild P&S verði algerlega aðskilin frá þjónustudeildum fyrirtækisins. Segir Kristján óeðlileg hagsmunatengsl milli deilda og að tölvugögn frá þjónustudeildum hafi verið notuð af söludeild. Einnig selji P&S búnað sem ekki hafi verið prófaður af fjarskiptaeftirliti.

Radíómiðun hf. hefur selt farsíma í samkeppni við Póst og síma síðan 1986 þegar handvirka kerfið var tekið í notkun. Um síðustu áramót var því lokað og NMT sjálfvirka farsímakerfið tekið upp. Ákvað gjaldskrárnefnd P&S í byrjun ársins 1993 að gefa notendum handvirka kerfisins kost á að flytja sig yfir í hið sjálfvirka án þess að þurfa að greiða stofngjald. Gjaldskrárnefnd sendi öðrum seljendum ekki tilkynningu um þessa ákvörðun en Kristján segir að yfirmenn P&S hafi sagt síðar að þeim hefði verið frjálst að bjóða viðskiptavinum, sem áttu síma úr handvirka kerfinu, niðurfellingu stofngjalda.

Segir Kristján að tilkynning um þessa ákvörðun hafi borist notendum og þeim bent á að leita til P&S eftir nánari upplýsingum. Einnig hafi verið fjallað um málið í júní- og nóvemberheftum Farsímafrétta, sem ætlað er að vera hlutlaust fréttabréf. Í lok ársins hafi öllum farsímanotendum borist bréf frá P&S þar sem boðið var upp á niðurfellingu stofngjalds sem fyrr auk 15% afsláttar af tiltekinni tegund búnaðar sem kosta átti 58.139 krónur. En síðari hluta árs 1993 voru á þriðja hundrað handvirkra farsíma ennþá í notkun að sögn Kristjáns.

Heimilisföng og vinnusími

Skrá yfir notendur handvirkra farsíma var að sögn Kristjáns fengin þannig að deildarstjóri tiltekinnar söludeildar hafði samband við reikningagerð og bað um útskrift yfir notendur handvirkra farsíma ásamt heimilisföngum og vinnusíma. Bendir hann á að yfirmaður reikningagerðar sé einnig yfirmaður umræddrar söludeildar og eigi hann jafnframt sæti í gjaldskrárnefnd. Hafi starfsmenn einnig nýtt sér upplýsingarnar með því að hringja heim til notenda eða í vinnu þeirra til að fylgja tilboðinu eftir.

Búnaður ólöglegur?

Loks segir Kristján að P&S hafi tekið að selja gjaldtökubúnað fyrir farsíma og hefðbundin símtæki nokkru á eftir Radíómiðun hf. í samkeppni við fyrirtækið og samkvæmt upplýsingum frá fjarskiptaeftirliti sé búnaður P&S ekki prófaður og samþykktur, sem stangist á við lög. Segir hann einnig að P&S hafi fjallað um gjaldtökubúnað sinn í Farsímafréttum. Hafi hann beðið um að fjallað yrði um búnað Radíómiðunar hf. en verið hafnað. Þá hafi hann falast eftir því að fá hann auglýstan gegn greiðslu og því einnig verið hafnað.