Kaup forsetaembættis á viðhafnarbifreið Opið bréf frá Agli Jóhannssyni, framkvæmdastjóra Brimborgar hf. Greint var frá kaupum á nýjum forsetabíl í Morgunblaðinu sl. sunnudag og m.a. sagt frá kaupverði nýja bílsins og að nokkrir aðrir bílar hefðu staðið...

Kaup forsetaembættis á viðhafnarbifreið Opið bréf frá Agli Jóhannssyni, framkvæmdastjóra Brimborgar hf. Greint var frá kaupum á nýjum forsetabíl í Morgunblaðinu sl. sunnudag og m.a. sagt frá kaupverði nýja bílsins og að nokkrir aðrir bílar hefðu staðið til boða, þ. á m. Volvo, Cadillac, BMW o.fl. Síðan var sagt að flestir hefðu boðið verð á bilinu 5,5­6,0 m. og því hefði ekki munað svo miklu á Benz og hinum.

Ekki veit ég ástæðuna en ekki var minnst á verðið á Volvo-bílnum sem boðinn var, en verðið sem Brimborg bauð var 4.998.000 fyrir bílinn kominn á götuna.

Til samanburðar var verð

á Benz5.865.000

á Volvo 960 Executive4.998.000

Mismunur867.000

Mercedes Benz er því 17,4% dýrari en Volvo 960 Executive.

Brimborg hf. hefur beðið formlega um skýringar á því af hverju Benz var valinn en ekki Volvo.

Í fréttum hafa verið gefnar upp tvær ástæður sem að okkar mati ganga ekki upp.

1. Varahlutaþjónusta hjá Benz er mjög góð og fljótlegt að fá hlutina.

Ekkert hefur komið fram um að varahlutaþjónusta Brimborgar sé léleg. Við erum nákvæmlega jafn fljótir að fá hlutina til landsins og auk þess eigum við þá jafnvel til á lager þegar í þennan bíl. Ég kannaði hvort til væru varahlutir í Benz S 320 og ekkert var til.

Verð á varahlutum í Volvo er verulega lægra.

2. Endursöluverð er svo gott á Benz.

Í fyrsta lagi var ekki minnst á það í útboðsgögnum að endursöluverð væri hluti af ákvarðanatöku.

Í öðru lagi fer tvennum sögum af endursöluverði Benz og er það fáránleg fullyrðing að það sé betra en á Volvo.

Í þriðja lagi eru svona bílar seldir eftir 15 ár og þá má spyrja hvort endursöluverð skipti nokkru máli.

Í fjórða lagi er forsetabíllinn mjög lítið ekinn m.v. 15 ár þannig að það mundi engu skipta hvaða bíll ætti í hlut.

Í fimmta lagi eru þessir bílar seldir á uppboðum og þar gilda ekki sömu lögmál um endursölu og sérstaklega ekki þegar um forsetabíl að ræða. Þá verður kaupandinn að hafa í huga að þetta er "fyrrverandi forsetabíll".

Það var haldið forval til að byrja með og þar voru bjóðendur valdir og þeir bílar sem þóttu uppfylla kröfur forsetaembættisins. Þar á meðal var Volvo 960 Executive.

Síðan fór fram lokaútboð. Við lögðum okkur alla fram og fengum mjög gott verð fyrir mjög vel búinn bíl sem uppfyllti allar kröfur forsetaembættisins og rúmlega það. Síðan voru útboð opnuð og við reyndumst vera með lægsta tilboðið. Því töldum við nokkuð ljóst að gengið yrði til samninga við okkur.

Skömmu síðar fengum við svar frá Ríkiskaupum sem annaðist útboðið. Við túlkun svarið á þessa leið:

"Þið stóðuð ykkur mjög vel allir og mjög lág verð náðust. En það skiptir að vísu engu máli við val á bílnum því við ætlum að velja þriðja ódýrasta bílinn!!!"

Að okkar mati er skýringin einföld: Þá langaði einfaldlega meira í Benz og því er næstum 20% hærra verð engin hindrun. Þetta er síðan reynt að fela með fáránlegum rökstuðningi um varahlutaþjónustu og endursöluverð.

Með von um að þetta skýri málið betur og fleiri hliðar á því.