BUBBI Morthens hugðist leggja land undir fót til að taka upp næstu breiðskífu sína; ætlaði að taka hana upp á Jamaíka.

BUBBI Morthens hugðist leggja land undir fót til að taka upp næstu breiðskífu sína; ætlaði að taka hana upp á Jamaíka. Af ýmsum sökum hefur hann lagt Jamaíkaför á hilluna í bili, en tekur plötuna upp með Christian Falk, sem vann meðal annars með honum breiðskífurnar Frelsi til sölu og Nóttina löngu. Christian, sem er um þessar mundir að ljúka við næstu breiðskífu Neneh Cherry, leikur á flest hljóðfæri sjálfur, en vísast koma einhverjir íslenskir tónlistarmenn við sögu einnig.

EKKI hefur enn verið kunngert hvaða kræsingar verða fyrir poppþyrsta á Listahátíð, en þó ljóst að halda á tónleika í Laugardalshöll 18. júní. Samkvæmt fregnum frá skipuleggjanda þeirra tónleika, TKO, eru nú mestar líkur á að bandaríska rokksveitin Spin Doctors troði upp á þeim tónleikum, en önnur nöfn sem nefnd voru, en talin öllu ólíklegri, voru D:ream og James Brown.

EFTIRMINNILEGIR tónleikar Megasar og Nýdanskrar í MH voru sýndir í Sjónvarpinu á föstudag. Einnig stendur til að gefa tónleikana út, en Japís gefur diskinn út í næsta mánuði. Á honum eru alls fimmtán lög af tónleikunum, nær 80 mínútur af tónlist.