Frekari vaxtalækkun DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra segir að efnahagsleg forsenda sé fyrir frekari vaxtalækkun og að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir henni með þeim markaðstækjum sem til staðar séu.

Frekari vaxtalækkun

DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra segir að efnahagsleg forsenda sé fyrir frekari vaxtalækkun og að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir henni með þeim markaðstækjum sem til staðar séu. Ráðherrann segir fimm ástæður fyrir frekari vaxtalækkunum. Engin teikn væru um þennslu eða jafnvægisleysi í viðskiptum við önnur lönd, raungengi krónunnar væri lágt, raunvextir væru of háir í samnburði við önnur lönd, vaxtamundur bankanna gæti minnkað og loks væri stefnt að lægri fjárlagahalla á þessu ári.

Óheimilt að dreifa

efni úr dagblöðum

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur kveðið upp þann dóm að Miðlun hf. sé óheimilt að gera eintök af efni Morgunblaðsins og DV til dreifingar í atvinnuskyni. Er fyrirtækinu gert skylt að hætta þeirri starfsemi að viðlögðum 5.000 króna dagsektum til útgáfufélags hvors blaðanna. Tók dómurinn kröfur útgefenda að öllu leyti til greina.

Samkomulag um loðnukvóta

SAMNINGAR hafa náðst í þríhliða viðræðum Íslendinga, Norðmanna og Grænlendinga um framlengingu á samningi um skiptingu loðnukvótans. Hlutur Íslendinga í kvótanum verður áfram 78%. Meginbreytingin frá núgildandi samningi felst í að Norðmenn og Grænlendingar fá aukna möguleika í byrjun vertíðar á sumrin til að veiða þau 11% af heildarkvótanum sem þeir hafa átt rétt til, en hlutdeild þjóðanna í heildarkvótanum verður óbreytt. Gert er ráð fyrir að nýi samningurinn nái til fjögurra vertíða og framlengist síðan sjálfkrafa um tvær vertíðir í senn nema honum sé sagt upp.

Frumvarp um stjórn fiskveiða

BREYTINGATILLÖGUR meirihluta sjávarútvegsnefndar Alþingis og sjávarútvegsráðherra við frumvörp um stjórn fiskveiða og Þróunarsjóð sjávarútvegsins mælast misjafnlega fyrir í þingflokkum stjórnarflokkanna. Tillögurnar hafa verið kynntar í þingflokkunum. Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra segir að ekki sé deilt um tillögurnar heldur atriði utan þeirra.

Þyrlukaup í óvissu

ÍSLENSK stjórnvöld óskuðu eftir frekari staðfestingu á æðri stjórnstigum bandaríska stjórnkerfisins á hagstæðu tilboði um björgunarþyrlur, sem borist hafði í símbréfi til utanríkisráðuneytisins. Bandaríkjamenn báðust afsökunar og sögðu að um misskilning hefði verið að ræða. Mistök hefðu átt sér stað við sendingu símbréfsins og að tölur sem þar væru gefnar upp stæðust ekki. Verðtilboðið var dregið til baka en fyrri verðhugmyndir ítrekaðar um nýlega Sikorsky-þyrlu fyrir um 800 milljónir króna.

Ísmjöl hf. gjaldþrota

AÐALFUNDUR Ísmjöls hf. hefur óskað eftir að fyrirtækið verði tekið til gjaldþrotaskipta. Stærstu mjölframleiðendur landsins eru eigendur fyrirtækisins en það var stofnað fyrir tveimur árum. Ekki er ljóst hversu stórt gjaldþrotið er en tugi milljóna króna vantar á að félagið eigi fyrir kröfum.