Óvitar í Færeyjum HAVNAR Sjónleikarfélag frumsýndi sl. föstudagskvöld íslenska barnaleikritið Óvita eftir Guðrúnu Helgadóttur í þýðingu Martins Næs. 30 leikarar tóku þátt í sýningunni, 10 fullorðnir og 20 börn.

Óvitar í Færeyjum

HAVNAR Sjónleikarfélag frumsýndi sl. föstudagskvöld íslenska barnaleikritið Óvita eftir Guðrúnu Helgadóttur í þýðingu Martins Næs. 30 leikarar tóku þátt í sýningunni, 10 fullorðnir og 20 börn. Í Óvitum eru það einmitt börnin sem leika fullorðna fólkið og öfugt.

Sex af bókum Guðrúnar Helgadóttur hafa verið gefnar út í Færeyjum í þýðingu Martins Næs, þar á meðal bækurnar um þá félaga Jón Odd og Jón Bjarna. Þeir eru í miklu uppáhaldi meðal Færeyinga, jafnt ungra sem aldinna.

Óvitar eru annað verkefni Sjónleikarfélagsins í vetur og fyrir áramót var Hafið eftir Ólaf Hauk Símonarson leikið við góðar undirtektir.

Á fimmtudagskvöld sýndi Færeyska sjónvarpið hálftíma þátt um vinnu leikstjóra og leikmyndateiknara við tilurð sýningarinnar. Það er Sigrún Valbergsdóttir sem leikstýrir Óvitum, en Messíana Tómasdóttir er höfundur leikmyndar og búninga.