Kristján Knútur Jónasson - viðb Þegar veröldin er allt í einu hætt að vera lítið, einangrað sjávarþorp og hefur breyst í kaupstað er ekki undarlegt þótt átta ára snáða finnist hann hálf ruglaður í ríminu. Og ekki bætir það úr skák fyrir ungum landnema þegar litli barnaskólinn í þorpinu, sem hann þekkti orðið svo vel, er allt í einu orðinn að stærðarinnar húsi á tveimur hæðum með mörgum herbergjum og jafn mörgum krökkum í hverju herbergi og voru í öllum litla skólanum.

Þegar þannig stóð á fyrir mér, nýfluttum með fjölskyldu minni frá Bolungarvík til Ísafjarðar fyrir röskum 50 árum, var mikils virði að kynnast fljótt strákum í hverfinu og eignast leikfélaga. Ég átti heima á Bökkunum. Bak við húsið var stórt port. Þar hafði augsýnilega átt að byggja geymslu, sem aldrei varð meira en grindin ein, upplagt leiktæki enda klifurgrindur vinsælar á sérhönnuðum leikvöllum nútímans.

Þótt portið væri til margra hluta gagnlegt fullorðna fólkinu var það tíðum leikvöllur. Í snúrustólpa, sem faðir minn setti upp, negldum við nagla með jöfnu millibili, kræktum á band og til að fá snúruna lárétta út frá staurnum hélt einhver okkar strákanna í hinn endann.

Við þessar frumstæðu aðstæður komst ég fyrst í kynni við "frjálsar íþróttir". Þarna æfðum við stangarstökk, stundum við takmarkaðan fögnuð foreldra okkar þegar ómjúk lending á harða mölina gataði buxnarass eða blóðgaði lófa.

Meðal þessara ungu og áhugasömu íþróttagarpa var drengur, ljós yfirlitum, ákaflega grannur og ekki líklegur til afreka þótt annað ætti eftir að koma í ljós, bæði þarna í portinu og síðar á lífsleiðinni hvort heldur var í leik eða starfi. Alls staðar átti hann eftir að láta að sér kveða. Hann var strax til forustu fallinn, enda oftast miðdepill allra okkar athafna og uppátekta sem sjaldan fullnægðu þörfinni.

Þessi einn af mínum fyrstu leikfélögum á Ísafirði, Kristján Knútur Jónasson, var nágranni minn, átti heima í Myllunni, litlu húsi við Tangagötuna, hjá móður sinni, Jónu Petólínu, og Högna bróður sínum, sem forlögin klipptu á lífsþráðinn hjá með sama hætti og hjá Kristjáni fyrir tæpum tuttugu árum. Eldri systkini þeirra bræðra voru þá farin að heiman.

Ósjálfrátt hrökk hugurinn þessi ár aftur í tímann þegar mér bárust þau hörmulegu tíðindi að morgni þriðjudags 5. þ.m. að snjóflóð hafði þurrkað út skíðasvæðið á Seljalandsdal og sumarhúsabyggðina í Tunguskógi, Kitti Jónasar hefði látið lífið og Hanna, kona hans, lægi slösuð á sjúkrahúsi.

Á vissum augnablikum stöðvast tíminn, svo finnst manni að minnsta kosti þar til maður áttar sig á því að klukkan tifar og verður ekki færð til baka. Og þá fyrst verður manni ljós smæð okkur þegar dauðans óvissi tími kemur í opna skjöldu.

Í þessum fáu orðum mínum ætla ég ekki að rekja æviferil Kristjáns Jónassonar og störf hans til sjós og lands, jafn margbreytileg og þau voru, né festa á blað frekar en orðið er allar þær æskuminningar sem nú hrúgast upp og tengjast árunum þegar hann átti heima í Myllunni og síðar í Fjarðarstrætinu. Bara til að gera minningunum skil þyrfti heila bók. Og þótt þær séu þess eðlis að fyrir allra augu mættu koma eru þær kærari hljóðum huga í einrúmi. Þess vegna bíða þær betri tíma, ef þeim á annað borð er ætlað að verða annað og meira en hugarþægð þess er notið hefur.

Leiðir okkar Kristjáns sköruðust oftar en á Mylluárunum. Við áttum samleið í íþróttahreyfingunni og síðar í pólitíkinni, þótt ég hafi reyndar verið hættur afskiptum þar af þegar hann haslaði sér völl á þeim vettvangi. En hvort heldur litið er til íþróttahreyfingarinnar eða á svið bæjarmála þá stöndum við öll í mikilli þakkarskuld við Kristján. Störf hans að þessum málum munu um ókomin ár halda nafni hans á loft. Kristján unni heimabyggð sinni. Það er skarð fyrir skildi við fráfall hans.

Kristján Jónasson gaf áhugamálum sínum ómældan tíma. Og hann gerði það í svo ríkum mæli að ókleift hefði verið ef annar eins klettur og Hansína Einarsdóttir, eiginkona hans, hefði ekki staðið honum að baki. Hugur þeirra var einn og það væri létt verk að leiða fram tugi vitna um heimilið að Engjavegi 29, sem stóð öllum opið nánast hvenær sem var.

Þeim Kitta og Hönnu varð fimm barna auðið, fjögurra sona og einnar dóttur. Öll eru þau hin mannvænlegustu og hafa fengið ríkulega í vöggugjöf þá eðliskosti foreldranna, sem lífsstarf þeirra hjóna ber gleggst vitni.

Í dag kveðjum við góðan dreng, mætan borgara sem allir Ísfirðingar þekktu. Við fráfall hans myndast skarð, sem af mörgum ástæðum verður ekki fyllt.

Að leiðarlokum bið ég hinum látna skólabróður og æskuvini blessunar á Guðs vegum.

Elsku Hanna. Við hjónin sendum þér, börnunum, tengdabörnum, barnabörnum og öllu ykkar fólki, innilegustu samúðarkveðjur og biðjum ykkur blessunar þess er yfir öllu vakir. Megi minningin um eiginmann, föður, tengdaföður, afa og bróður vera sproti huggunar sem leiðir ykkur út úr dimmum dal saknaðar inn í ljós þakklætisins fyrir að hafa átt og notið Kristjáns vinar míns Jónassonar.

Sigurður J. Jóhannsson.