Forstjóri „Ég tek ekki við þessu starfi sem fulltrúi kröfuhafa Actavis, það er alveg klárt“ segir Claudio Albrecht.
Forstjóri „Ég tek ekki við þessu starfi sem fulltrúi kröfuhafa Actavis, það er alveg klárt“ segir Claudio Albrecht. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Þórður Gunnarsson thg@mbl.is Nýr forstjóri Actavis, Claudio Albrecht, segir það fullkomlega öruggt að heimilisfesti fyrirtækisins verði áfram á Íslandi. „Fyrir það fyrsta er Actavis íslenskt fyrirtæki og því viljum við ekki breyta.
Viðtal

Þórður Gunnarsson

thg@mbl.is

Nýr forstjóri Actavis, Claudio Albrecht, segir það fullkomlega öruggt að heimilisfesti fyrirtækisins verði áfram á Íslandi. „Fyrir það fyrsta er Actavis íslenskt fyrirtæki og því viljum við ekki breyta. Framsækinn hugsanaháttur starfsmanna og nálgun þeirra að viðfangsefnum sínum er nokkuð sem ég vil ekki breyta. Þess vegna verður fyrirtækið áfram íslenskt,“ segir hann. „Það síðasta sem við viljum gera er að breyta þessum eiginleikum fyrirtækisins.“

Albrecht settist í forstjórastólinn í síðustu viku, en Sigurður Óli Ólafsson hafði gegnt stöðunni í tvö ár þar á undan. Í orðsendingu til starfsmanna fyrirtækisins sagði Albrecht að yfir stæði leit að hentugri staðsetningu fyrir yfirstjórn fyrirtækisins. Átta af þrettán manns í yfirstjórn Actavis búa utan Íslands.

Stjórnendur dreifðir um allt

Albrecht segir að sökum mikils vaxtar Actavis á undangengnum árum hafi yfirstjórnendur fyrirtækisins dreifst um víða um heim. Það sé ekki hjálplegt fyrir stórt framleiðslufyrirtæki. „Auðvitað getur yfirstjórnin haldið áfram að hittast á símafundum, en það skilar ekki nægilega miklu til langs tíma litið. Þessi breyting hefur engin áhrif á Íslandi, við erum einfaldlega að finna hentugan fundarstað fyrir yfirstjórnina,“ segir hann. Albrecht bætir því við að stækkun verksmiðju Actavis hér á landi muni hafa þau áhrif að starfsmönnum fyrirtækisins muni fjölga hér á landi innan 12 mánaða, þó svo að yfirstjórnin muni hittast utan landsteinanna.

Skráning hentug á Íslandi

Actavis er alþjóðlegt fyrirtæki og meðal stærstu samheitalyfjaframleiðenda í heimi. Telur nýi forstjórinn hentugt að hafa slíkt fyrirtæki skráð í landi, þar sem fjármálakerfið er tiltölulega nýkomið upp á afturlappirnar, og verulegar hömlur eru á viðskiptum með gjaldeyri? „Við trúum á framtíðina, við höfum enga ástæðu til að ætla að á Íslandi muni kreppan vara að eilífu. Það engin ástæða til þess að breyta nokkru í skipulagi Actavis til skamms tíma. Við störfum líka í geira þar sem flestar viðskiptaákvarðanir eru teknar til langs tíma – til dæmis ákvarðanir er snúa að þróun nýrra lyfja. Síðan fylgja því kostir að hafa starfsemi á Íslandi þessa dagana, íslenskt vinnuafl er ódýrt í evrum talið. Ég reikna þó ekki með öðru en að krónan muni styrkjast á ný og þá verður vinnuaflið dýrara aftur.“ Albrecht segir íslenskt vinnuafl hins vegar síður en svo það ódýrasta í samstæðu Actavis. Ef það væri sérstakt markmið, að sögn Albrecht, að fá eins ódýrt vinnuafl og kostur er, væri best að flytja alla framleiðslu til Búlgaríu eða Indónesíu.

Inntur eftir því hvort Actavis muni greiða skatta á Íslandi svarar Albrecht: „Við munum ekki breyta neinu frá því sem áður var.“

Segist ekki fulltrúi kröfuhafa

Stærsta einstaka lán þýska bankans Deutsche Bank er vegna skuldsettrar yfirtöku á fyrirtækinu sem fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, Novator, réðst í sumarið 2007. Um nokkurt skeið hefur verið ljóst að örlög fyrirtækisins eru í hendi þessa helsta kröfuhafa þess. Albrecht segir að það hafi verið ákvörðun stjórnar Actavis að ráða hann í starf forstjóra. „Ég hafði unnið að verkefnum fyrir Actavis um nokkurt skeið. Þegar Sigurður ákvað að hætta fór stjórnin þess á leit við mig að ég tæki við. Ég tek ekki við þessu starfi sem fulltrúi kröfuhafa Actavis, það er alveg klárt,“ segir hann. „Deutsche Bank er okkar stærsti kröfuhafi, en þeir skipta sér ekki af rekstri fyrirtækisins,“ segir hann. Skuldir Actavis eru í kringum 1.000 milljarða króna. Albrecht vill ekki tjá sig um þá fjárhagslegu endurskipulagningu sem fyrirtækið gengur í gegnum þessa dagana: „En ég get sagt þetta: Ég væri ekki að ganga til liðs við fyrirtækið ef fjárhagsstaða þess væri áhyggjuefni. Ég veit það getur vaxið á næstu árum, annars hefði ég ekki ráðið mig hingað.“

Inntur eftir því hvort vegir Actavis og Björgólfs Thors muni liggja saman til framtíðar svarar Albrecht afdráttarlaust játandi: „Hann er stærsti eigandinn og stjórnarformaður. Fyrirtækið verður ekki selt til annarra aðila.“

Yfirtökur ekki fullvirkjaðar

Albrecht segir að yfirtökur nokkurra þeirra fyrirtækja sem Actavis hafi tekið yfir á síðustu árum hafi ekki verið virkjaðar til fulls. Á ákveðnum sviðum séu mikil sóknarfæri fyrir stóra samheitalyfjaframleiðendur sem hafi ekki verið nýtt til fulls. Nefnir hann helst til sögunnar að selja lyf beint til heilbrigðisstofnana, í stað þess að láta slíka sölu fara í gegnum milliliði.

Einnig er ekki útilokað að fyrirtækið ráðist í nýjar yfirtökur. „Það er fullkomlega rökrétt að gera það þegar menn sjá tækifæri þar sem einn plús einn geta gert þrjá. Auðvitað er tími skuldsettra yfirtakna eins og tíðkuðust á síðustu árum liðinn, en það breytir því ekki að menn vilja áfram geta stundað eðlileg viðskipti og fyrirtækjakaup,“ segir nýr forstjóri Actavis.

TILRAUNIR ACTAVIS TIL AÐ KAUPA RATIOPHARM

Hefðu smellpassað saman

Fyrir skömmu tók samheitalyfjaframleiðandinn Teva yfir svissneska lyfjafyrirtækið Ratiopharm. Actavis reyndi einnig að ná fyrirtækinu til sín. Á þeim tíma sem fyrirtækin slógust um yfirráðin á Ratiopharm var gefið til kynna í fjölmiðlaumfjöllun að Deutsche Bank, aðalkröfuhafi Actavis, væri drifkrafturinn á bak við yfirtökutilraunirnar. Albrecht segir það rangt: „Hefðu þessi tvö fyrirtæki sameinast hefðu orðið mikil samlegðaráhrif. Actavis hefur sterka stöðu í Bandaríkjunum og Mið- og Austur-Evrópu. Ratiopharm er hins vegar fyrst og fremst í Vestur-Evrópu og Kanada, þannig að samruni fyrirtækjanna hefði skapað mjög sterka heild. Actavis er einnig sterkari í rannsóknum og þróun, en Ratiopharm í framleiðslu,“ segir hann.

Albrecht segir nauðsynlegt að hafa í huga að til að samlegðaráhrif skili sér við yfirtöku þurfi verðið að vera rétt: „Það er fráleitt að reyna að yfirbjóða annað félag þegar verðið er komið yfir ákveðið mark.“ Hann segir að ef Actavis hefði keypt Ratiopharm á því verði sem það seldist endanlega á hefði fjárfestingin ekki verið hagkvæm.

thg@mbl.is